Morgunblaðið - 08.03.2006, Blaðsíða 22
22 MIÐVIKUDAGUR 8. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
Costa Blanca norður Costa Blanca suður Costa Calida
Stórsýning
á Spánareignum
11. og 12. mars 2006
í Perlunni
Flug, gisting og uppihald innifalið!
Komdu og skoðaðu spennandi og fallegar fasteignir á Spáni.
Masa International hefur ver
brautryðjandi í sölu fasteigna í meira
en 25 ár á Costa Blanca svæðinu.
gelo býður uppá
spænskan tapas.
Karl K. Karlsson
kynnir hin spænsku
Torres vín.
Spánaríbúðir kynna
eigumiðlunar-
þjónustu
næstkomandi laugardag og
sunnudag kl. 13.00-17.00
Láttu
drau
minn
ræ
tast!
Í
galleríi i8 við Klapparstíg hefur Tumi
Magnússon myndlistarmaður komið
fyrir nokkrum ferköntuðum ljós-
myndum. Eða málverkum. Það er
ekki svo gott að segja, enda verkin
ekki auðskilgreinanleg – og það er einmitt það
sem listamaðurinn óskar eftir.
„Þetta eru ljósmyndir, en þær eru það mikið
unnar að það mætti kannski heldur kalla þær
stafræn málverk,“ segir Tumi, sem opnar
einkasýningu í galleríinu á morgun. „Myndir
eru allar af kassalaga hlutum, teknar á ská,
sem síðan hefur verið rétt úr til að verða í lag-
inu eins og mynd. Við fyrstu sýn láta þessar
myndir kannski ekki mikið yfir sér, en út af
þessari leiðréttingu eru þær orðnar dálítið
skrýtnar og einkennilegar.“
Það er fyrst og fremst formið sem Tumi hef-
ur átt við, ekki áferð og litir eins og í þeirri
myndvinnslu sem einna oftast er unnin. Enda
er það rýmið sem myndlistarmaðurinn vill
fyrst og fremst vinna með; rými myndverksins
sjálfs sem og gallerísins.
Hann segir verkin á sýningunni nú vera í
ætt við það sem hann hefur unnið með und-
anfarið. Þá hafa ýmsir hlutir tekið á sig kassa-
laga form í meðförum hans á undanförnum ár-
um, jafnvel blóm og fiskar, og stærð þeirra og
form síðan löguð að rýminu. „Það teygir á
hlutnum bæði bókstaflega og líka merking-
arlega, og gerir það að verkum að hluturinn
rennur á vissan hátt saman við rýmið,“ segir
Tumi.
En þótt hann kjósi að draga fram hið fer-
hyrnda form í ýmsum myndum er það ekki
formsins sjálfs vegna. „Það vill einfaldlega
þannig til að hefðbundin sýningarrými eru yf-
irleitt ferköntuð, og svo er einnig hér. En ég
gæti vel hugsað mér að vinna inn í rými sem
ekki væri ferkantað,“ útskýrir hann.
Málarinn Tumi
Sem myndlistarmaður á Tumi Magnússon
rætur að rekja í heim málaranna, og hann seg-
ist sjálfur sjá að sú nálgun sé enn ríkjandi hjá
honum.
„Til dæmis að því leyti að ég vinn fyrst og
fremst með sjónrænum upplifunum. En auð-
vitað er ákveðin hugmyndafræði að baki þessu
öllu líka,“ segir hann og bætir við að málarinn í
sér komi meðal annars fram í myndbandsverk-
inu á sýningunni, sem er að finna undir stig-
anum. Þar rúlla málaðir boltar inn á hvítan
flöt, einn á eftir öðrum.
Að sögn Tuma eiga öll verkin á sýningunni
fastar rætur í hefð ljósmyndarinnar og mál-
verksins. Hins vegar þyki sér mikilvægt að
verkin falli ekki undir ákveðnar skilgreiningar.
„Mér finnst leiðinlegt að vera á einhverjum
viðteknum slóðum. Mín afstaða er sú að ef
maður ætlar að gera eitthvað sem skiptir máli
felur það í sér að vinna ekki bara með það sem
er til fyrir og viðurkennt sem myndlist. Mynd-
list verður aldrei spennandi nema maður leiti
dálítið út fyrir listina og taki áhættu. Þess
vegna verður maður að reyna að stíga svolítið
út fyrir hefðina – þó að í vissum skilningi sé
það hefðbundið að ljósmynda og líma upp á
gler. En ég held að þessi verk mín teljist tæp-
ast hefðbundin, þótt þau séu bæði sæt og
nett,“ segir Tumi og hlær.
Prófessor í Kaupmannahöfn
Meðfram sinni eigin myndlistariðkun hefur
Tumi verið ötull við að deila reynslu sinni með
öðrum, því hann á að baki langan feril sem
kennari. Árið 1999 var hann einn fjögurra sem
ráðnir voru í prófessorsstöður við myndlist-
ardeild Listaháskóla Íslands, og á síðasta ári
var hann ráðinn að Konunglegu dönsku
listakademíunni til sex ára sem myndlist-
arprófessor og hóf störf sem slíkur í haust.
„Ég reiknaði í raun aldrei með að fá þessa
stöðu, enda er þetta frekar eftirsótt starf og
margar umsóknir. Ég leit frekar á þetta sem
æfingu, af því að það var bara ár eftir af stöð-
unni minni hérna heima og ég vildi samt ekki
hætta að kenna,“ segir Tumi. „Skólinn úti er
mjög ólíkur skólanum hér heima, og allt öðru-
vísi uppbyggður. Hann er auðvitað 250 ára
gamall, þannig að þar eru miklar hefðir og
hefðbundin uppbygging.“
Sem prófessor er Tumi yfir einni mál-
aradeild, eða skóla eins og það er kallað, og
segist hafa nánast alveg frjálsar hendur um
uppbyggingu námsins. „Mín afstaða er auðvit-
að sú að ég geri ekki kröfu um að fólk sé bara
að mála, finnst ágætt að hafa þetta svolítið
blandað,“ segir hann. Og hann hefur mátt taka
þá afstöðu? „Já, maður er eiginlega alveg sjálf-
ráða og í umsókn minni dró ég enga dul á hver
mín afstaða væri í þeim efnum. Þeim fannst
það bara fínt.“
Mikil hefð eða lítil hefð
Tumi segir varla hægt að bera saman nem-
endur í LHÍ við danska nemendur sína, ein-
faldlega vegna hins ólíka eðlis skólanna
tveggja. „Við erum auðvitað með fína nem-
endur í skólanum hér heima, og það er gott
nám. Munurinn er sá að hér heima er BA-
námið þrjú ár, en úti er skólinn sex ár, með
tveggja ára fornámi. Auk þess byggist námið
úti miklu meira á sjálfstæðri vinnu meðan hér
heima eru kúrsar stærri hluti, og fólk hefur
gjarnan meiri undirbúning þegar það kemur
inn í danska skólann,“ útskýrir hann.
Þó bendir Tumi á að kerfið í skólanum skipti
hugsanlega minnstu, mestu ráði að þar séu
góðir kennarar og rétti andinn. „Það er svolítið
skrítið að vera innan um allar þessar hefðir og
löngu sögu. Það eru málverk og skúlptúrar eft-
ir gamla prófessora upp um alla veggi, og
meira að segja grafíksería eftir Goya í kaffi-
stofunni. Þegar maður hugsar út í að þegar ís-
lensk myndlist var að fara af stað um aldamót-
in og fólk var að fara þangað út að læra var
þessi skóli þegar orðinn 150 ára! Umhverfið er
afar ólíkt.“
Hefðin sem slík hefur bæði kosti og galla að
mati Tuma. „Þar sem hún er til staðar er oft
verið að vinna út frá henni, á ferskan og spenn-
andi hátt,“ segir hann. „Hér heima, þar sem
hefðin er miklu styttri, er fólkið hins vegar
frjálsara að vissu leyti. En þetta er allt saman
mjög spennandi að fást við.“
Myndlist | Tumi Magnússon, myndlistarmaður og prófessor, opnar sýningu í galleríi i8 á morgun
Stigið út fyrir hefðina
Morgunblaðið/Ómar
Tumi Magnússon: „Mín afstaða er sú að ef maður ætlar að gera eitthvað sem skiptir máli felur það í sér að vinna ekki bara með það sem er til
fyrir og viðurkennt sem myndlist. Myndlist verður aldrei spennandi nema maður leiti dálítið út fyrir listina og taki áhættu.“
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur
ingamaria@mbl.is
www.tumimagnusson.com
www.i8.is