Morgunblaðið - 06.04.2006, Blaðsíða 20
20 FIMMTUDAGUR 6. APRÍL 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNSTAÐUR
Stjórnarkjör
Eining-Iðja auglýsir hér með eftir listum eða tillögum um
menn í stjórnarsæti vegna kjörs stjórnar og trúnaðarráðs fyrir
starfsárið 2006-2007 að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu.
Ber samkvæmt því að skila lista skipuðum formanni,
varaformanni og ritara ásamt 65 manns í trúnaðarráð,
tveimur skoðunarmönnum reikninga og einum til vara eða
tillögum um menn í eitthvert, einhver eða öll stjórnarsætin,
sem kjósa skal til.
Hverjum framboðslista eða tillögu skulu fylgja meðmæli
minnst 80 fullgildra félagsmanna.
Listum eða tillögum ber að skila á skrifstofu
félagsins, Skipagötu 14, Akureyri, eigi síðar en
kl. 12 á hádegi þriðjudaginn 18. apríl 2006.
Akureyri 4. apríl 2006. Stjórn Einingar-Iðju.
Breiðholt | Verslunareigendur í
Mjóddinni eru ekki sáttir við þá
ákvörðun ÁTVR að flytja verslun
sína úr Mjódd yfir í Garðheima.
Kveða þeir verslun ÁTVR hafa ver-
ið mikið aðdráttarafl fyrir Mjódd-
ina og mikilvægan hluta þess versl-
unarframboðs sem heldur uppi
verslunarmiðstöðinni.
Forsvarsmenn ÁTVR segja
verslunina í Mjóddinni hafa verið
óhentuga í rekstri. Húsnæðið var á
tveimur hæðum og m.a. hafi starfs-
fólk þurft að flytja vörur á milli
hæða, sem sé afar slæmt. Kominn
hafi verið tími á að endurnýja inn-
réttingar og hafi þá verið reynt að
finna hentugra húsnæði í Mjódd á
einni hæð, en sú leit hafi ekki borið
árangur. Það húsnæði sem hins
vegar hafi boðist nálægt Mjóddinni
hafi verið í Garðheimum. Einnig
kemur fram í máli forsvarsmanna
ÁTVR að rekstrarkostnaður við
verslunina í Mjódd sé hár og sala í
henni hafi farið minnkandi.
Þorvaldur Árnason, lyfsali hjá
Lyfjavali í Mjódd, segir hér um að
ræða óeðlilega tilfærslu á þjónustu
í Mjóddinni. „Þetta er ákveðinn
hluti af þeirri þjónustu sem Mjódd-
in hefur veitt hingað til,“ segir Þor-
valdur. „Fólk kemur hingað í
Mjóddina til að fara í banka, apótek
eða til læknis. Það fer í búðina, hár-
greiðslustofur og skartgripaversl-
anir. Það er fullt af þjónustu sem
fólk sækir hingað í Mjóddina auk
þess sem hún er mjög vel staðsett
gagnvart strætisvagnaleiðum sem
ekki eru til staðar þar sem ÁTVR
er að flytja núna. Það er sjálfsagt
að opna nýja þjónustu í Garðheim-
um en ekki að taka hana héðan þar
sem hún var í Mjóddinni. Þjónust-
an er hér í Mjóddinni fyrir Breið-
holtsbúa, en þjónustan í Garðheim-
um er mjög takmörkuð. Hvers
vegna að flytja þjónustuna úr mið-
stöðinni þar sem mest þjónusta er
veitt?“
Betra aðgengi í Garðheimum
Þorvaldur segir ljóst að verslanir
og þjónusta í Mjóddinni missi við-
skipti við þessa flutninga. „Það
liggur ljóst fyrir að fólk sækir ekki
eins mikið af þjónustu hingað þeg-
ar svona þjónusta fer héðan,“ segir
Þorvaldur og veltir fyrir sér hvort
kannski sé kominn tími til að end-
urskoða einokunarstöðu ÁTVR í
sölu á vínum og bjór. „Þetta er hluti
af daglegri neyslu fólks. Sú þjón-
usta sem vínbúðin hefur veitt hér
hefur verið mjög góð og ég er sann-
færður um að umsvif þessarar
verslunar munu minnka við það að
fara yfir í Garðheima, því það eru
færri sem fara þangað heldur en í
Mjóddina þar sem þjónustan er
mun meiri. Það virðast vera önnur
sjónarmið en þjónusta við fólk sem
þarna ráða.“
Forsvarsmenn ÁTVR undir-
strika að húsnæðið sem verslunin
var í hafi verið afar óhentugt.
Verslunin hafi verið sett í Mjóddina
1988, fyrir daga bjórsins, sem nú er
umfangsmikil söluvara. Lager hafi
verið í kjallara, sem hafi ekki verið
hagkvæmt. „Okkur bauðst ekki
hentugt húsnæði í Mjóddinni,“ seg-
ir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, að-
stoðarforstjóri ÁTVR. „Við reyn-
um að horfa til margra þátta þegar
við erum að staðsetja vínbúð. M.a.
erum við að horfa á þætti sem
skipta miklu máli, t.d. aðgengi, en
aðgengið var okkur svolítið erfitt í
Mjóddinni. Það var tiltölulega
þröngt þarna, t.d. fyrir framan og
oft var kvartað yfir að erfitt var að
fá bílastæði, en fyrst og fremst
hentaði búðin okkur ekki. Nýja
búðin er í fyrsta lagi á einni hæð og
þar er mjög þægilegt aðgengi að
bílastæðum. Nútíminn er þannig að
fólk er almennt á bílum. Starfsfólk-
ið er líka mjög ánægt með þetta,
búðin er mjög björt og flott.“
Þjónustuveitendur í Mjóddinni ósáttir við flutning ÁTVR í Garðheima
Þykir óeðlileg tilfærsla
á þjónustu í Mjóddinni
Morgunblaðið/Ásdís
Gott aðgengi Forsvarsmenn ÁTVR segja aðgengi stóran kost við staðsetningu nýju vínbúðarinnar í Garð-
heimum, en verslunarmenn í Mjódd segja þjónustustig miðstöðvarinnar hafa minnkað við brotthvarfið.
Hlíðar | Steinunn Valdís Óskarsdóttir borg-
arstjóri undirritaði á dögunum samning við
forráðamenn Knattspyrnufélagsins Vals og
Valsmanna hf. vegna skipulagsmála og upp-
byggingar á Hlíðarenda. Samkvæmt samn-
ingnum verður byggt knatthús yfir áður
áformaðan gervigrasvöll á svæðinu. Þá mun
skipulag svæðisins taka mið af niðurstöðum
yfirstandandi hugmyndasamkeppni um
heildarskipulag Vatnsmýrarinnar. Þetta
kemur fram á fréttavef Reykjavíkurborgar,
www.reykjavik.is.
Með samningum þessum hefur tekist
samkomulag um ákveðnar breytingar á fyrri
samningum um skipulag svæðisins. Sam-
komulagið snýst um breytingu á þegar sam-
þykktu deiliskipulagi á byggingarsvæði
Valsmanna hf. að Hlíðarenda, hugsanlegri
breytingu á aðkomu að svæði Knattspyrnu-
félagsins Vals að Hlíðarenda og breytingu á
gatnakerfi í nágrenninu, einkum varðandi
svokallaðan Hlíðarfót.
Breytingunum er fyrst og fremst ætlað að
skapa svigrúm til breytinga á þegar gerðu
deiliskipulagi svo það verði í takt við framtíð-
aruppbyggingu í Vatnsmýrinni og grunnur
verður lagður að með hugmyndasamkeppni
um skipulag hennar sem senn fer í gang.
Í tengslum við þessar breytingar er gert
ráð fyrir að aukinn byggingarréttur komi í
hlut Valsmanna hf., sem á móti munu leggja
aukið fé til íþróttamannvirkja að Hlíðarenda
m.a. til byggingar knatthúss sem nýtast mun
öðrum íþróttafélögum í borginni. Þá munu
Valsmenn hf. einnig leggja barna- og ung-
lingastarfi Knattspyrnufélagsins Vals lið.
Samið við Val
um breytt skipulag
Hafnarfjörður | Bókaslugsar og -slóðar í
Hafnarfirði geta tekið gleði sína þessa dag-
ana og drifið sig út í Bókasafn Hafnar-
fjarðar með þær bækur sem þeir hafa
gleymt að skila. Fram til 8. apríl nk. verða
nefnilega sektarlausir dagar á Bókasafni
Hafnarfjarðar og verða felldar niður sektir
á öllum gögnum sem skilað er.
Ástæðan fyrir sektarlausu dögunum er
sú að bókasafnið hyggst semja við inn-
heimtufyrirtækið Intrum Justitia um inn-
heimtu á gögnum safnsins sem í vanskilum
eru, og hefst sú vinna í maí. Vill Bókasafn
Hafnarfjarðar gefa þeim sem eru í van-
skilum við safnið kost á að skila gögnunum
áður en til innheimtuaðgerða kemur.
Sektarlausir dagar
á Bókasafninu
BAUTINN á Akureyri er 35 ára í
dag og af því tilefni verða þrír réttir
af matseðli veitingastaðarins seldir
á 35 ára gömlu verði. Skýrt skal tek-
ið fram að þetta er ekki síðbúið apr-
ílgabb; hamborgari kostar í dag 85
krónur, körfukjúklingur svokall-
aður 275 krónur og turnbauti 300
krónur.
Hallgrímur Arason var einn fjög-
urra stofnenda Bautans 1971 og er
sá eini þeirra sem enn er þar eig-
andi og við stjórnvölinn. „Við vorum
brautryðjendur í grillsteiktum mat.
Fólk þekkti slíka rétti bara af af-
spurn að sunnan, en þar byrjuðu
tveir staðir með þetta rétt á undan
okkur, Askur og Sælkerinn. Ég fór
einmitt suður sérstaklega til þess að
nema þá list hjá Sælkeranum að búa
til kokteilsósu og hrásalat,“ sagði
Hallgrímur við Morgunblaðið.
„Þarna var í fyrsta skipti steikt
eftir hendinni fyrir fólk. Matreiðsla
áður var þannig að ákveðnir réttir
voru eldaðir í miklu magni.“
Eigendur Bautans eru nú Hall-
grímur og Guðrún Ófeigsdóttir, eig-
inkona hans, og hjónin Guðmundur
Karl Tryggvason og Helga Árna-
dóttir.
Guðmundur hóf nám í matreiðslu
á Bautanum á tíu ára afmæli stað-
arins, 1981, starfaði þar lengi sem
kokkur áður en hann eignaðist hlut í
fyrirtækinu. Hann segir að þegar
fyrsti matseðill Bautans sé skoðaður
komi í ljós að ótrúlega margt sé enn
óbreytt. „Auðvitað hafa einhverjir
réttir komið og jafnvel farið, mat-
arvenjur hafa breyst að því leyti að
meira er notað af ferskmeti, en
ákveðnir réttir – hamborgarar,
steikur og franskar kartöflur – hafa
verið sívinsælir. Því má segja að
matseðillinn sé í grunninn sá sami
og hann var fyrir 35 árum.“
Hallgrímur telur engan veit-
ingastað á Íslandi hafa notað sömu
kennitölu jafn lengi og Bautinn. „Ég
veit að minnsta kosti ekki betur,“
segir hann. Og þegar spurt er um
ástæðu þess, segir Hallgrímur:
„Viðskiptavinirnir svara því. Hefðu
þeir ekki verið ánægðir hefðum við
ekki rekið staðinn á sömu kennitölu
allan þennan tíma. Til að halda
kúnnanum verður hann að vera
ánægður svo hann komi aftur. Það
er lögmál allrar þjónustu.“
Guðmundur segir staðsetninguna
örugglega eiga sinn þátt í velgengn-
inni, en Bautinn er skáhallt á móti
gamla KEA-húsinu, neðst í Gilinu.
„Á sínum tíma voru helstu kennileiti
bæjarins kirkjan og KEA, en eftir að
KEA leystist upp eru einu kennileit-
in í bænum kirkjan og Bautinn!“
sagði Hallgrímur.
Þrír réttir af matseðli
á 35 ára gömlu verði
Hamborgarinn seldur á 85 krónur á Bautanum í dag
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Við grillið! Eitt af því sem hefur verið á matseðli Bautans frá upphafi eru
grillaðir hamborgarar. Guðmundur Karl og Hallgrímur við grillið.
Tjáningarfrelsið | Teiknimyndirnar
sem Jyllands Posten birti af Múham-
eð spámanni hafa valdið miklu fjaðra-
foki. Á Heimspekitorgi í dag ræðir
Patrick Hannon um andstæð sjón-
armið og gildi trúaðra og trúleysingja
þegar myndirnar eru vegnar á vog-
arskál tjáningarfrelsisins. Fyrirlest-
urinn hefst kl. 16.30 í stofu K201, Sól-
borg. Hannon er professor í
guðfræðilegri siðfræði við Maynooth
Pontifical háskólann í Írlandi.
Jafnrétti | Umboðsmaður jafn-
réttismála í Noregi, Beate Gangås,
heldur fyrirlestur í Háskólanum á
Akureyri í kvöld kl. 20. Hann verður
í anddyrinu á Borgum, 2. hæð. Ný
skrifstofa umboðsmanns jafnrétt-
ismála í Noregi sinnir jafnrétti í víð-
asta skilningi og berst gegn mis-
munun á grundvelli kyns, kynþáttar,
fötlunar, kynhneigðar, aldurs o.fl.,
auk þess að stuðla að jafnrétti á
þessum sviðum.
AKUREYRI
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
ATVINNA mbl.is