Morgunblaðið - 12.11.2006, Qupperneq 6
6 SUNNUDAGUR 12. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
UM 1985 voru allir ríkisstyrkir í
nýsjálenskum landbúnaði afnumdir
nánast fyrirvaralaust. Valdimar
Einarsson, sem starfað hefur sem
ráðunautur og bankamaður á Nýja-
Sjálandi í yfir 20 ár, segir að aldrei
hefði átt að taka upp ríkisstyrki í
landbúnaði á Nýja-Sjálandi, en af-
nám styrkjanna hafi ekki verið sárs-
aukalaust.
„Nýja-Sjáland er einstakt land til
landbúnaðar,“ sagði Valdimar.
„Grasvöxtur er geysilegur í landinu.
Kýr ganga úti allt árið og eru ekki
teknar á hús. Þær eru mjólkaðar í
skýlum en ekki fjósum eins og á Ís-
landi. Veðurfar er eins og best verð-
ur á kosið.“
Valdimar sagði að þrátt fyrir
þessar hagstæðu aðstæður hefði
landbúnaður á Nýja-Sjálandi átt við
margvíslega erfiðleika að stríða í
gegnum árin. Áratugum saman
hefðu þjóðir heimsins greitt miklar
útflutningsbætur á búvörur. Þetta
hefði valdið landi eins og Nýja-Sjá-
landi, sem flytur út mikið af land-
búnaðarvörum, miklum erfiðleikum.
„Þetta varð þess valdandi að stjórn-
völd í Nýja-Sjálandi fóru að borga
það sem kalla má lágmarksverð sem
fól í sér tekjutryggingu fyrir bænd-
ur. Þetta var aldrei hátt verð, en
skipti engu að síður miklu máli fyrir
afkomu bænda.“
Ríkisstyrkir afnumdir
fyrirvaralaust
Í kringum 1985 voru miklir erf-
iðleikar í efnahagsmálum á Nýja-
Sjálandi. Búið var að ráðast í miklar
fjárfestingar, m.a. í iðnaði, og þjóðin
orðin mjög skuldsett. Á þessum
tíma náði Verkamannaflokkurinn
völdum, en fylgi hans í sveitum var
lítið. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun
að afnema alla ríkisstyrki í landbún-
aði.
Valdimar sagði að bændum hefði
ekki verið gefinn neinn aðlögunar-
tími. „Að sjálfsögðu hefðu Nýsjá-
lendingar aldrei átt að taka upp rík-
isstyrki í landbúnaði. Þetta er það
gott landbúnaðarland að það á ekki
að þurfa.
Það hafði að sjálfsögðu mikil áhrif
þegar þessir styrkir voru teknir af.
Þetta var sársaukafull aðgerð fyrir
marga. Í fyrstu reyndu bændur að
skera niður kostnað. Bændur höfðu
ekki efni á að borga laun og sögðu
upp starfsmönnum sem leiddi til
fækkunar í sveitunum. Þetta hafði
líka mikil áhrif á þjónustugreinarn-
ar. Margir bændur urðu gjaldþrota.
Bankar þurftu að taka á sig miklar
afskriftir vegna þessara gjaldþrota.
Afurðastöðvar neyddust til að loka.
Það má enn finna á Nýja-Sjálandi
draugaþorp sem urðu til á þessum
árum þegar sláturhúsum og mjólk-
urstöðvum var lokað. Hluti af þessu
var hins vegar eðlileg þróun. Það
má kannski segja að sláturiðnaður-
inn og mjólkuriðnaðurinn hafi þurft
að taka til hjá sér, en það er ljóst að
afnám ríkisstyrkja kom þessu af
stað.“
Valdimar sagði að það væru tals-
verðar sveiflur í nýsjálenskum land-
búnaði. Afkoma bændanna væri því
misjöfn. Framleiðni og afköst kúa-
búa á Nýja-Sjálandi hefðu aukist
mikið á síðustu árum og áratugum.
Verðið hefði hins vegar haldist nán-
ast óbreytt. Hann sagði að kúa-
bændur hefðu að undanförnu verið
að halda fundi til að lýsa óánægju
með það verð sem þeir hefðu fengið
fyrir afurðirnar.
Mjólkursamlag með 95%
markaðshlutdeild
Að undanförnu hefur verið tals-
verð umræða um áform mjólkur-
framleiðenda á Íslandi um að sam-
eina mjólkursamlögin í eitt
fyrirtæki. Valdimar sagði að Nýsjá-
lendingar væru löngu búnir að sam-
eina sín mjólkursamlög.
„Um 95% af allri mjólkurfram-
leiðslu á Nýja-Sjálandi fara í gegn-
um mjólkursamlag Nýja-Sjálands,
sem er stærsta fyrirtæki í landinu.
Það er í reynd bara einn aðili sem
sér um vinnslu og útflutning á
mjólk,“ sagði Valdimar.
Hann sagði að að mati Nýsjálend-
inga væri óskynsamlegt að mörg
mjólkursamlög flyttu út mjólk því
þau myndu óhjákvæmlega verða í
samkeppni á heimsmarkaði. Raunar
væri útflutningurinn háður leyfum
frá stjórnvöldum. „Ég get ekki
stofnað fyrirtæki til að flytja út osta
til Japans. Þetta er allt háð leyfum.
Það er því misskilningur að það ríki
fullkomið frelsi í nýsjálenskum
landbúnaði. Þeir eru að keppa við
ríkisstyrktan landbúnað í öðrum
löndum og hafa því orðið að beita
kænsku til að ná árangri.“
Innflutningshöft vegna
sjúkdómahættu
Valdimar sagði að Nýsjálending-
ar ættu mjög mikið undir landbún-
aðinum og þeir legðu gríðarlega
mikla áherslu á að koma í veg fyrir
að búfjársjúkdómar bærust til
landsins. Það væru því miklar tak-
markanir varðandi innflutning á
landbúnaðarvörum. Nýsjálendingar
væru ekki tilbúnir að taka neina
áhættu í þeim efnum. Það yrði t.d.
aldrei leyft að flytja inn lambakjöt
frá Íslandi til Nýja-Sjálands vegna
þess að hér á landi er riða í sauðfé.
Valdimar sagði að það væri mikið
hagsmunamál fyrir nýsjálenskan
landbúnað að samkomulag næðist á
vettvangi WTO um aukið frelsi í við-
skiptum með landbúnaðarvörur og
niðurskurð á ríkisstuðningi. „Það er
hins vegar ekki markmið Nýsjá-
lendinga að framleiða mat ofan í all-
an heiminn. Þeir vilja bara fá að-
gang að mörkuðum og hærra verð
fyrir afurðirnar sem væntanlega
fæst ef aðrar þjóðir draga úr rík-
isstuðningi við landbúnað.“
En verður þá ekki um leið gerð
krafa um að Nýsjálendingar opni
sinn markað fyrir innflutningi?
„Nei, við hlustum ekkert á slíkt.
Það verður ekki leyft að flytja inn
eitthvert ódýrt nautakjöt frá S-Am-
eríku sem getur sett okkar atvinnu-
grein og efnahag í uppnám. Ég tel
að Nýsjálendingar eigi rétt á að
vernda sinn landbúnað með sama
hætti og Íslendingar hafa rétt á að
vernda sinn landbúnað m.a. vegna
byggðasjónarmiða.“
Valdimar sagðist hafa samúð með
sjónarmiðum bænda bæði á Nýja-
Sjálandi og Íslandi. Þeir fyrrnefndu
vildu að þjóðir heims drægju úr rík-
isstyrkjum til landbúnaðar og þeir
síðarnefndu vildu halda í ríkisstuðn-
inginn og takmarka innflutning.
„Áttu aldrei að taka upp ríkisstyrki“
Bankamaður á Nýja-Sjálandi Valdimar Einarsson er frá Lambeyrum í Laxárdal, en hefur starfað sem búfjár-
ráðunautur og bankamaður á Nýja-Sjálandi í yfir 20 ár. Hér er hann fyrir miðri mynd í hópi nýsjálenskra bænda.
Í HNOTSKURN
»Á Nýja-Sjálandi ganga kýrúti allt árið og eru mjólk-
aðar í skýlum, en ekki hefð-
bundnum fjósum.
»Sonur Valdimars starfar ákúabúi á Nýja-Sjálandi og
mjólkar þar 1.000 kýr ásamt
þremur mönnum. Á Íslandi
eru stærstu búin með 60–100
kýr. Nýtt fjós kostar tugi millj-
óna.
„ÉG HEF skilið íslenska bændur á
þann veg að þeir séu tilbúnir að
takast á við einhvern innflutning,
en þeir vilja að það verði staðið
þannig að málum að þeir eigi ein-
hvern möguleika,“ segir Valdimar.
„Menn verða að átta sig á að það
yrði aldrei nein samkeppni ef
mjólkurafurðir frá Nýja-Sjálandi
yrðu fluttar til Íslands. Íslenskur
landbúnaður ætti engan möguleika
í slíka samkeppni. Hann yrði ein-
faldlega undir á örskömmum
tíma.“
Valdimar sagði að ef Íslendingar
færu sömu leið og Nýsjálendingar
og afnæmu alla styrki til landbún-
aðar væri um leið verið að taka
ákvörðun um að leggja niður land-
búnað á Íslandi. Aðstæður hér og á
Nýja-Sjálandi væru svo gjörólíkar.
Valdimar telur hins vegar sjálf-
sagt mál að mjólkuriðnaðurinn á
Íslandi sameinist í einu fyrirtæki.
Samkeppnin eigi að vera milli þess
og innfluttra mjólkurvara.
Verða að eiga
möguleika
Á Nýja-Sjálandi sér eitt fyrirtæki um 95% af allri mjólkurvinnslu og mjög miklar takmarkanir eru á innflutningi búvara til landsins. Egill
Ólafsson ræddi við Valdimar Einarsson um hvað gerðist þegar Nýsjálendingar afnámu alla ríkisstyrki nánast fyrirvaralaust í landbúnaði í
kringum 1985. Valdimar segir að sá gjörningur hafi leitt til gjaldþrota og fólksfækkunar.
egol@mbl.is
KEPPNIN um sterkasta mann í
heimi, sem haldin verður í Reykja-
vík og Hafnarfirði 20.–25. nóv-
ember, er ekki sama kraftakeppnin
og Jón Páll Sigmarsson og Magnús
Ver Magnússon kepptu í við góðan
orðstír á sínum tíma. Vegna klofn-
ings innan kraftaíþróttarinnar er
nú keppt um tvo titla, annars vegar
IFSA Strongman sem er sú sem
verður haldin hér á landi og keppn-
ishaldarar á Íslandi hafa þýtt sem
keppnin um sterkasta mann í heimi
og hins vegar Sterkasti maður
heims (Worlds Strongest Man) sem
haldin er af öðrum aðilum.
Magnús Ver Magnússon, sem
undirbýr IFSA Strongman-
keppnina hér á landi, segir að hin
keppnin, þ.e. Sterkasti maður
heims, hafi dalað mjög undanfarin
ár og sé nú vart svipur hjá sjón. Ým-
islegt hafi síðan orðið til þess að
kraftaíþróttamenn hafi ákveðið að
kljúfa sig frá þeirri keppni og þar
með hafi IFSA
Strongman-
keppnin orðið til.
Keppnin á Ís-
landi verði sú
önnur í röðinni
en í fyrra var
keppnin haldin í
Kanada.
Í fréttatilkynn-
ingu um keppn-
ina, sem á að
halda hér á landi í lok nóvember,
sagði m.a.: „Keppnin verður haldin
til heiðurs minningunni um Jón Pál
Sigmarsson, sem lést langt um ald-
ur fram, en hann var einn ástsælasti
íþróttamaður Íslendinga í kraftaí-
þróttum. Jón Páll og Magnús Ver
Magnússon hafa hvor um sig hlotið
titilinn Sterkasti maður heims fjór-
um sinnum, sem er einsdæmi í sögu
keppninnar. Það þykir því við hæfi
að halda keppnina hérlendis.“
Verðlaunagripurinn í keppninni er
stytta af Jóni Páli sem Orkuveita
Reykjavíkur gefur.
Magnús Ver segir aðspurður að
styrktaraðilar keppninnar hafi vit-
að að ekki væri um sömu keppni að
ræða og Jón Páll og Magnús Ver
sjálfur unnu á sínum tíma.
Finnur Karlsson, sem var vinur
Jóns Páls Sigmarssonar, gagnrýnir
að IFSA Strongman-keppnin, sem
eigi að halda hér á landi, sé með
þessum hætti tengd nafni Jóns Páls
því hann hafi aldrei tekið þátt í
þessari keppni. Það sé einnig vill-
andi að kalla keppnina sterkasti
maður í heimi því það sé nýbúið að
halda keppnina Sterkasti maður
heims.
Keppnin Sterkasti mann heims
fór raunar fram í Kína í september
og þar bar Phil Phister sigur úr být-
um. Einn Íslendingur, Kristinn Ósk-
ar Haraldsson, tók þátt og lenti í 3.
sæti í riðlakeppni en það nægði ekki
til að skila honum í tíu manna úrslit.
Sterkastur í heimi eða
sterkasti maður heims?
Magnús Ver
Magnússon
Hjónarúm
Barnarúm
RÚM Í ÚRVALI
OPIÐ: Mánud. Þriðjud. Miðvikud. Fimmtud. Föstud. Laugard. Sunnud. 12-18 12-18 12-18 12-21 10-18 10-18 12-18
Unglingarúm
Komið og gerið góð kaup
Varnarliðssala Geymslusvæðisins - Sigtúni 40