Morgunblaðið - 12.11.2006, Qupperneq 20
20 SUNNUDAGUR 12. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Eftir Ásgeir Sverrisson
asv@mbl.is
H
ún er sögð hafa risið
upp gegn íhaldssemi
og niðurnjörvuðum
gildum í æsku og nú
hefur hún ákveðið að
ganga á hólm við karlaveldið innan
franska Sósíalistaflokksins. Fyrir
liggur að umtalsverður stuðningur er
við Segolene Royal innan flokksins og
nokkrar líkur eru á að hún verði
frambjóðandi sósíalista í forsetakosn-
ingunum í Frakklandi í apríl á næsta
ári. Kona hefur aldrei haft það valda-
mikla embætti með höndum.
Áður en til þess kemur þarf hún á
hinn bóginn að tryggja sér sigur í for-
kosningum flokksins; 217.000 félagar
munu á fimmtudag velja frambjóð-
andann og fái enginn meirihluta
verða atkvæði greidd á milli tveggja
þeirra efstu viku síðar. Frambjóð-
endur áttu tvívegis í liðinni viku fundi
með flokksfélögum og svöruðu spurn-
ingum þeirra. Kappræðurnar voru
alls sex og eru nýlunda í frönskum
stjórnmálum. Hafa sumir þær til
marks um aukin bandarísk áhrif á því
sviði sem mörgum öðrum.
Síðustu tvær vikur hafa verið
Segolene Royal erfiðar. Könnun
leiddi í ljós að fylgi við hana í röðum
vinstrisinnaðra kjósenda hafði
minnkað um heil 16 prósentustig og
mældist það 57%. Sjónvarpsmyndir
af henni þar sem hún reifst og
skammaðist á fundi með flokkssystk-
inum hafa vafalaust skaðað framboð
hennar. Á föstudag var síðan birt á
Netinu myndskeið frá því í janúar-
mánuði þar sem Royal gagnrýnir
kennarastéttina harðlega og vænir
hana um óviðunandi vinnuframlag.
Talsmaður Royal staðfesti að mynd-
skeiðið væri ósvikið og sagði greini-
legt að fjendur hennar væru á ferð.
Kennarar eru áhrifamikill hópur inn-
an Sósíalistaflokksins og er heldur
ólíklegt að ummæli frambjóðandans
falli þar í frjóan svörð.
Auk Segolene Royal sækjast þeir
Dominique Strauss-Kahn og Laurent
Fabius eftir útnefningu flokksins, öfl-
ugir andstæðingar og margreyndir.
Strauss-Kahn, sem er 57 ára, er fyrr-
verandi fjármála- og iðnaðarráð-
herra. Fabius, sem er sextugur, var
forsætisráðherra Frakklands frá
1984 til 1986. Hann var aðeins 37 ára
gamall er hann var skipaður forsætis-
ráðherra og er yngsti maðurinn til að
gegna því embætti til þessa.
Segolene Royal hefur að vísu verið
lengi í pólitík en hún býr ekki yfir
reynslu sem telst sambærileg við þá
sem andstæðingar hennar hafa aflað
sér. Royal hefur á hinn bóginn tekist
að koma fram sem fulltrúi breytinga
og nýrra viðhorfa. Enginn vafi er á
því að innan Sósíalistaflokksins er
viljinn til breytinga umtalsverður en
mestu skiptir ef til vill að samkvæmt
könnunum er Segolene Royal ein
sósíalista fær um að veita líklegasta
frambjóðanda hægrimanna, Nicolas
Sarkozy innanríkisráðherra, keppni.
Samkvæmt þeirri nýjustu, sem birt
var á föstudag, myndi Royal sigra
Sarkozy með tveggja prósentustiga
mun ef kosið væri nú.
„Væntingar framtíðar“
Segolene Royal getur seint talist
nýliði í frönskum stjórnmálum þótt
hún hafi ekki áður látið til sín taka í
efstu lögum þessa rótfasta valdakerf-
is. Hún hefur á hinn bóginn unnið
umtalsvert afrek; henni hefur tekist
að skilja sig frá flokknum og valda-
stéttinni sem hún óneitanlega til-
heyrir. Hún nýtir fjölmiðla vel og hef-
ur sterka nærveru sem (yfirleitt)
skilar sér afar vel í sjónvarpi. Þá hef-
ur hún nýtt Netið með nýstárlegum
hætti sem vakið hefur athygli. Á vef-
síðu sinni, „Væntingar framtíðar“
(„Desirs d’Avenir“ sjá www.desirs-
davenir.org), hefur hún kynnt hug-
myndir sínar en líka efnt til líflegra
umræðna þar sem notendur síðunnar
eru óspart hvattir til að tjá sig um
stefnumál og kynna ný til sögu. Þetta
hefur reynst árangursrík aðferð til að
ná til kjósenda og telst einnig liður í
þeirri „endurnýjun lýðræðisins“ sem
Royal boðar í Frakklandi. Hún er
enda dyggur talsmaður „samræðu-
stjórnmála“ þótt ýmsir væni hana um
frekju og yfirgang: „Við eigum ekki
einvörðungu að tala við borgarana
þegar boðað er til kosninga. Þeir eru
alltaf borgarar og við eigum stöðugt
að ræða við þá. Með því að nýta skyn-
semi fólksins hefjum við hina lýðræð-
islegu byltingu.“ Royal segir að um
lýðræðið gildi líkt og ástina að því
meira sem í boði sé því betra.
Óánægja með valdastéttina
Þetta eru stór orð en nálgun Sego-
lene Royal hefur vakið athygli. Sér-
fróðir um frönsk stjórnmál segja lygi-
lega þreytu og óánægju einkenna
afstöðu kjósenda. Almenningur hafi
upp til hópa fengið nóg af hefðbundn-
um stjórnmálum og brölti valdastétt-
arinnar. Stöðnun hefur um margt
einkennt Frakkland á síðustu 25 ár-
um eða svo. Atvinnuleysið er mikið
(um 9% á landsvísu og allt að tvöfalt
það í röðum hinna yngri), hagvöxtur
hefur verið lítill og félagsleg spenna
fer vaxandi líkt og uppreisn hinna af-
skiptu í úthverfum Parísar og víðar í
fyrra var til marks um. Tíð stjórnar-
skipti hafa vitanlega verið í samræmi
við vilja kjósenda en þau hafa ekki
megnað að rjúfa kyrrstöðuna; á síð-
ustu 28 árum hefur frönsk ríkisstjórn
aldrei haldið velli í þingkosningum. Á
þessu tímabili hafa 12 menn gegnt
embætti forsætisráðherra. Skoðana-
kannanir leiða í ljós að mikill meiri-
hluti kjósenda lítur framtíðina ekki
björtum augum. Stjórnmálaskýrend-
ur halda því margir hverjir fram að
þjóðin sé tilbúin að takast á við nauð-
synlegar breytingar. Stjórnmála-
stéttin sé á hinn bóginn ekki tilbúin
að veita þá forustu sem þörf sé á.
„Kerfið“ og afar sterkir hagsmuna-
hópar vinni gegn breytingum. Þá
megi ekki gleyma ráðandi sýn í
Frakklandi til ríkisvaldsins og djúp-
stæðum efasemdum um hnattvæð-
ingu og ágæti hins frjálsa markaðar.
Líkt og Nicolas Sarkozy hefur
Segolene Royal sýnt nokkra viðleitni
til að hefja sig upp úr hjólförum hefð-
bundinna stjórnmála. Mikla athygli
vakti sú tillaga hennar að ungum
glæpamönnum (og þá átti hún ekki
síst við úthverfabúa sem margir eru
af innflytjendum komnir) verði gert
að gangast undir herþjálfun til að
kynnast aga og samfélagsþjónustu.
Ýmsum þótti sem Royal hefði með
þessum ummælum gerst sek um „lýð-
skrum“ en aðrir höfðu þau til marks
um viðleitni hennar til að ná til hægri-
sinnaðra kjósenda. Royal hefur einn-
ig kynnt tillögur um að valdið verði í
auknum mæli fært heim í hérað, hún
vill koma í veg fyrir að stórfyrirtæki
geti raskað stöðugleika með því að
flytja fjölda starfa úr landi og hefur
hvatt til aukins samráðs forstjóra og
verkalýðsleiðtoga. Hún kveður nauð-
synlegt að leita nýrra leiða í trygg-
inga- og velferðarkerfinu og virðist
einkum hafa í huga hvernig bregðast
megi við kröfu almennings um at-
vinnuöryggi á tímum hömlulausrar
samkeppni og viðskiptafrelsis. Hún
hefur kynnt furðulega hugmynd um
að „borgaranefndir“ verði kallaðar
saman til að fella dóma yfir frammi-
stöðu stjórnmálamanna. Þykir mörg-
um þetta líkjast einna helst komm-
únisma eins og hann er framkvæmd-
ur í Kína og var það tilefni deilunnar
sem getið var að ofan og sýnt var frá í
sjónvarpi. Andstæðingarnir hafa
hugmyndina um „alþýðudómstóla“ til
marks um að Royal sé í senn lýð-
skrumari og dómgreindarlaus.
Að sönnu kveður á köflum við nýj-
an tón í ræðum Royal en því verður
þó ekki á móti mælt að erfitt er að
átta sig á nákvæmlega hver hug-
myndafræði hennar er. Um margt
minnir hún á Bill Clinton, fyrrverandi
Bandaríkjaforseta, og Tony Blair,
forsætisráðherra Bretlands, sem hún
ku raunar hafa dálæti á. Henni verð-
ur tíðrætt um „breytingar“og „nýj-
ungar“: „Við megum aldrei hræðast
nýjar hugmyndir,“ sagði hún á dög-
unum í sjónvarpsviðtali. Nákvæmari
útfærsla bíður vísast betri tíma; orð-
ræða Segolene Royal miðast óneit-
anlega við sjónvarp og fyrirsagnir. Sú
er enda krafa tímans.
„Madame La Presidente“
Víðast hvar á Vesturlöndum er
önnur krafa tímans að hlutur kvenna
verði aukinn í stjórnmálum og við-
skiptalífi. Í Frakklandi þykir mörg-
um sem upphafning jafnréttis, éga-
lité, hafi heldur holan hljóm. Um 13%
æðstu stjórnenda fyrirtækja eru kon-
ur. Á þingi sitja 577 þingmenn og er
71 kona í þeim hópi. Kona hefur einu
sinni verið forsætisráðherra, sósíal-
istinn Edith Cresson, og hún var að-
eins við völd í tæpt ár (1991–1992).
Kannanir hafa ítrekað leitt í ljós að
yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar
getur vel hugsað sér að kona ráði
ríkjum í Frakklandi. „Madame La
Presidente“ hljómar ágætlega í eyr-
um Frakka. Andstæðingar Segolene
Royal hafa hins vegar, sumir hverjir,
talið henta til árása að benda á þá
prýðilega augljósu staðreynd að hún
er kona. Einn þeirra spurði hver ætti
að sjá um börnin hennar fjögur ef
hún tæki til starfa í forsetahöllinni í
París. Slík ummæli hafa þó frekar
orðið til að auka sigurlíkur Royal í
forkosningunum; boðberi „nýjunga“
og „breytinga“ hlýtur að styrkja
stöðu sína gagnvart slíku afturhaldi.
Uppreisn
Royal hefur enda umtalsverða og
heldur óskemmtilega reynslu af við-
líka íhaldssemi. Hún er fædd í Dakar
í Senegal 22. september 1953. Faðir
hennar var foringi í franska nýlendu-
hernum þar. Hann var íhaldsmaður
fram í fingurgóma og taldi undirgefni
gagnvart valdi og venjum til æðstu
dyggða. Sagt er að hann hafi aldrei
leyft sér neitt nema að kaupa hljóm-
plötur sem höfðu að geyma greg-
oríanskan kirkjusöng og fjölskyld-
unni, eiginkonu, þremur dætrum og
fimm sonum, var gert að hlýða á.
Faðirinn fer raunar nærri því að geta
talist „erkitýpa“; um margt minna
lýsingarnar t.a.m. á spænska einræð-
isherrann (og herforingjann) Franc-
isco Franco sem var með afbrigðum
„spartanskur“ í háttum, strangur,
skyldurækinn, náttúrulaus og fjarri
því að vera þjakaður af kímnigáfu.
Svo fór að Segolene reis upp gegn
valdi föður síns. Hann hafði enda „lít-
ið álit á konum“ svo vísað sé til um-
mæla Daniels Bernards sem ritaði
„Madame Royal“, ævisögu Segolene
Royal og út kom í fyrra. Sjálf hefur
hún sagt að faðirinn hafi litið á kven-
fólkið á heimilinu sem „óæðri verur“.
Synirnir áttu að sinna skyldum sínum
og þjóna föðurlandinu (Gerard, einn
bræðra Segolene Royal, tók þátt í að
sökkva skipi Grænfriðunga í höfn á
Nýja-Sjálandi árið 1985) en konurnar
áttu … að sinna því sem konum var
eiginlegt af fullkominni alvöru og
skyldurækni. Svo fór að hjónin
skildu. Segolene, sem þá var aðeins
19 ára, tók þátt í að undirbúa mála-
ferli á hendur föður sínum en þessi
varðmaður sæmdar og hefða hafði
engin áform uppi um að standa undir
framfærsluskyldu sinni. Málið vannst
áður en faðirinn skildi við 1982. Taka
ber fram að sum systkina Segolene
Royal saka hana um að ýkja ástandið
á æskuheimilinu. Faðirinn verði að
sönnu seint talinn til skemmtikrafta
en hann hafi ekki verið „skrímsli“.
Liðið eftir viðteknum brautum
Þótt Segolene Royal hafi fram til
þessa tekist ágætlega að greina sig
frá frönsku valdastéttinni fær hún
hvorki flúið uppruna sinn né feril.
Hún hlaut menntun í tveimur helstu
háskólum valdastéttarinnar, Ecole
Libre des Sciences Politiques, sem
jafnan er nefndur „Sciences Po“, og
ENA („Ecole nationale d’admin-
istration“). Um 4% franskra há-
skólanema sækja menntun til „ofur-
skólanna“ svonefndu („Les grandes
écoles“) og vandfundinn sá ráðamað-
ur sem ekki hefur liðið þar um ganga.
Þar kynntist hún Dominique de Vil-
lepin, núverandi forsætisráðherra, og
Francois Hollande, núverandi leið-
toga franskra sósíalista, og sambýl-
ingi hennar til fjölda ára. Þau eiga
fjögur börn á aldrinum 14 til 22 ára,
en hafa ekki gengið í hjónaband. Hol-
lande þótti lengi líklegur til að sækj-
ast eftir forsetaembættinu og vanga-
veltur um samband þeirra eru fyrir-
ferðarmiklar í frönskum fjölmiðlum.
Royal hóf störf fyrir Francois Mitt-
errand Frakklandsforseta árið 1982.
Í forsetahöllinni starfaði hún í sex ár
sem ráðgjafi, einkum á sviði félags-
mála, og var gjarnan kölluð „prins-
essan“. 1988 var hún kjörin á þing.
Hún var í eitt ár umhverfisráðherra
og einnig aðstoðarráðherra á sviði
menntamála og málefna fjölskyldu og
barna. Hún þótti hörð í horn að taka á
síðastnefnda sviðinu og hefur jafnan
gengið fram af kappi þegar hags-
munir barna eru til umræðu. Meint
skaðleg áhrif tiltekins sjónvarpsefnis
hafa verið henni hugleikin.
Stærsta sigur sinn til þessa vann
Segolene Royal í kosningunum í apríl
2004 er hún var kjörin forseti héraðs-
stjórnarinnar í Poitou-Charentes í
vesturhluta Frakklands. Sigurinn
þótti magnaður fyrir þá sök að þar
ræddi um heimahérað Jean-Pierre
Raffarin, þáverandi forsætisráðherra
íhaldsmanna, sem studdi af alefli
Elizabeth Morin, frambjóðanda gaul-
lista. Í krafti þessa embættis hefur
Royal getað hrint nokkrum hugð-
arefna sinna í framkvæmd en völd
héraðsstjórna eru að vísu takmörkuð.
„Sego“ gegn „Sarko“?
Segolene Royal sýnist hafa tekist
vel upp á ímyndarsviðinu; kjósendur
virðast almennt telja hana spennandi
valkost og fulltrúa breytinga. Krafan
um breytingar kemur ef til vill ekki á
óvart þegar haft er í huga að Jacques
Chirac hefur verið forseti Frakklands
í heila eilífð (nánar tiltekið tæp 12 ár)
og kveður embættið rúinn áliti og vin-
sældum. Sósíalistar þurfa sárlega á
„spennandi“ frambjóðanda að halda,
ekki síst ef Nicolas Sarkozy verður
forsetaefni helsta flokks hægri-
manna, UMP. Sarkozy er ekki aðeins
þrautreyndur stjórnmálamaður,
hann þykir herkill hinn mesti, frum-
legur og sjarmerandi.
Margir Frakkar horfa með til-
hlökkun til mögulegrar baráttu
þeirra „Sarko“ og „Sego“ um hús-
bóndavaldið í Elysee-höll. Royal á
lengri leið og erfiðari fyrir höndum.
Meðbyrinn hefur minnkað á við-
kvæmu tímabili í aðdraganda for-
kosninganna; flokksmenn vissu að
hún væri stjórnsöm en ekki að henni
hætti til að missa stjórn á skapi sínu
með tilheyrandi yfirgangi og dóna-
skap. Góður árangur á fimmtudag
mun því reynast afar mikilvægur en
um leið nokkuð torsóttur áfangi.
Frú forseti
Reuters
Breytingar Kannanir sýna að vinstri sinnaðir kjósendur kunna vel að meta Segolene Royal. Á hinn bóginn hafa
kannanir sem eingöngu taka til félaga í franska Sósíalistaflokknum ekki verið gerðar og þeir ráða för.
Segolene Royal hefur gengið á hólm við karlaveldið í frönskum stjórnmálum, sækist eftir útnefningu
sósíalista til forsetaframboðs á næsta ári og hyggst að verða forseti Frakklands, fyrst kvenna
SVIPMYND»
» Við eigum ekki ein-
vörðungu að tala við
borgarana þegar boðað
er til kosninga. Þeir eru
alltaf borgarar og við
eigum stöðugt að ræða
við þá.