Morgunblaðið - 24.12.2006, Blaðsíða 35
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24. DESEMBER 2006 35
og iðjusamt. Margt af því er einnig
ungt að aldri og býr yfir óþrjótandi
starfsorku.“
Helmingur fékk ríkisborg-
ararétt
Í íslenzkunni átti ungverska
flóttafólkið að vonum örðugastan
hjallann, en engin skipulögð ís-
lenzkukennsla stóð þeim til boða.
Mæddi því mikið á Andrési Alex-
anderssyni og Nönnu Snæhólm
konu hans í þeim efnum. Í Morg-
unblaðinu stóð, að aðeins tveir
flóttamannanna töluðu dálítið í
þýzku.
Í skýrslu um ungverska flótta-
fólkið á Íslandi sem gefin var út 21.
október 1958 segir að því hafi vegn-
að vel og átt tiltölulega auðvelt með
að koma sér fyrir hér. Af 52 flótta-
mönnum lézt kona hálfu ári eftir
komuna og sex sneru aftur heim til
Ungverjalands og fjórir karlar fóru
annað. Tuttugu og fimm óskuðu eft-
ir íslenzkum ríkisborgararétti og
fengu hann á árunum 1962–64. Árið
1994 bjuggu sautján þeirra enn á
Íslandi, tveir voru fluttir aftur til
Ungverjalands, einn til Bandaríkj-
anna, tveir voru látnir og óvíst var
um þrjá einstaklinga.
Nú lifa hér á landi 14 Íslendingar
úr ungverska flóttamannahópnum,
sem kom 1956.
Gunnlaugur Þórðarson: Ævibrot. Set-
berg 1990.
Gunnlaugur Þórðarson: Flóttafólk til Ís-
lands. Heilbrigt líf.
Gunnlaugur Þórðarson/Ingólfur Mar-
geirsson: Helgarviðtalið. Þjóðviljinn 29.
apríl 1979.
Margrét Guðmundsdóttir: Í þágu mann-
úðar. Saga Rauða kross Íslands. Mál og
mynd 2000.
Hólmfríður Erla Finnsdóttir: Flóttamenn
á Íslandi. BA-ritgerð í sagnfræði.
Kristín Erla Harðardóttir, Heiður Hrund
Jónsdóttir, Friðrik H. Jónsson/ Fé-
lagsvísindastofnun: Reynsla og viðhorf
flóttamanna á Íslandi. Unnið fyrir Flótta-
mannaráð Íslands 2005.
Morgunblaðið.
freysteinn@mbl.is
Í sólinni á Gran Canari sinnir Marianna Csillag í
fararstjórastörfum. Nafn hennar bendir til er-
lends uppruna þótt hún sé fædd á Íslandi 1961
og það er fljótt staðfest.
„Ég er af ungverskum ættum. Foreldrar mín-
ir komu frá Ungverjalandi til Íslands 24. desem-
ber 1956, eftir að uppreisn braust út í heima-
landi þeirra tveimur mánuðum áður,“ segir
Marianna.
En hvaða augum lítur hún sjálfa sig hvað
þjóðerni snertir?
„Það er mjög furðulegt hvað mér finnst í þeim
efnum. Þegar ég er á Íslandi og á leiðinni til
Ungverjalands er ég að fara heim, þar eru allir
mínir ættingjar. En þegar ég er á leið til Íslands
aftur er ég líka á leið heim, þar er ég fædd og
uppalin og á mína nánustu fjölskyldu og stóran
vinahóp. Á Íslandi fékk ég menntun mína, en ég
er hjúkrunarfræðingur, útskrifuð úr gamla
Hjúkrunarskóla Íslands.“
En hví ertu orðin fararstjóri?
„Það byrjaði á að fararstjóra vantaði til Búda-
pest, sem er ein af mínum uppáhaldsborgum.
Þótt ég sé hrifin af Búdapest er hvorugt for-
eldra minna þaðan, móðir mín er frá stað sem
heitir Debrecen, þar eru nú margir Íslendingar í
læknanámi, en faðir minn var frá litlum stað í
svonefndri Dónárbeygju, rétt utan við Búda-
pest.“
Hafði flótti foreldra þinna frá heimalandinu
mikil áhrif á þau?
„Ég fann ekki til þess, við systkinin, ég á einn
bróður, vorum aldrei notuð sem túlkar eins og
sum börn flóttafólks lenda í. Móðurmál mitt er
ungverska, þótt ég sé fædd á Íslandi, því for-
eldrar mínir töluðu alltaf ungversku á heim-
ilinu. En ég var kornung þegar ég missti föður
minn, aðeins þriggja ára, og man ekkert eftir
honum. Þegar bróðir minn byrjaði í skóla, hann
er tveimur árum eldri en ég, settist mamma við
og lærði með honum Gagn og gaman og hélt
þeim lærdómi áfram með mér þegar ég hóf
skólagöngu. Nú talar hún ágætis íslensku.“
Hvernig gekk henni að takast á við missi eig-
inmannsins?
„Faðir minn veiktist af hvítblæði og dó eftir
nokkurra mánaða sjúkralegu. Þá stóð mamma
frammi fyrir því hvort hún ætti að vera á Íslandi
áfram eða fara til ættingja í Ungverjalandi. Hún
valdi að vera áfram á Íslandi því að hún taldi að
við systkinin myndum eiga þar betra líf. Þetta
gekk eftir, við höfum átt gott líf á Íslandi. Bróð-
ir minn lærði bifvélavirkjun og við höfum bæði
haft það fínt sem Íslendingar. Hann á þrjú börn
og mamma er mikið með barnabörnum sínum.“
En hvað með móður þína?
„Hún hefur alltaf verið mjög ánægð á Íslandi
og kannski er það aðallega af því að þegar hún
kom til Íslands var Ísland 20 árum á eftir Evr-
ópu í þróun, allt mjög sveitalegt, hún ákvað að
hún yrði að aðlagast Íslandi ef hún ætlaði að búa
þar áfram og hún tók íslenska umhverfinu eins
og það var.“
Giftist hún aftur?
„Nei, hún varð ekkja 28 ára en hefur ekki
giftst aftur eða verið í sambúð. Þótt hún sé fal-
leg kona og yndisleg valdi hún að fórna sér fyrir
okkur. Hún er lærður hjúkrunarfræðingur og
starfaði í nokkur ár á röntgendeild Landakots-
spítala en vann síðar hjá Íslensk-ameríska versl-
unarfélaginu það sem hún átti eftir af sínum
starfsaldri, milli 25 og 30 ár.“
Hafið þið haft mikið samband við Ungverja-
land?
„Við fórum í fyrsta skipti til Ungverjalands
1966. Þá var mjög dýrt að fljúga þangað frá Ís-
landi. Ferðina fjármagnaði mamma með því að
prjóna íslenskar lopapeysur og selja hjá Ála-
fossi. Þannig tókst henni að fara með okkur
krakkana á tveggja til þriggja ára fresti til síns
heimalands, hún lagði alltaf fyrir tekjurnar af
prjónaskapnum. Undanfarin tíu ár hefur fjöl-
skyldan farið til Ungverjalands á hverju ári þótt
allir séu hættir að prjóna og okkur hefur tekist
að halda mjög góðu sambandi við ættingjana
þar.“
Heldur þú að mamma þín hafi séð eftir að
flytja hingað?
„Nei, alveg örugglega ekki. Sjálf er ég mjög
sátt við að vera Íslendingur en er jafnframt
mjög stoltur Ungverji. Það er kannski rétt að
fram komi að þótt ég hafi fæðst á Íslandi þá
fékk ég ekki íslenskan ríkisborgararétt fyrr en í
byrjun árs 1963, um leið og foreldrar mínir. Mig
langar líka að geta þess að þegar foreldrar mín-
ir komu sem flóttamenn til Íslands voru þau
bæði ógift og mamma kom með æskuvinkonu
sinni. Foreldrar mínir kynnust sem sagt á Ís-
landi því flóttamannahópurinn hélt vel saman.
Þau áttu sín fáu hjónabandsár hér og fóru aldrei
saman út til Ungverjalands. En æskuvinkona
mömmu ílentist hér, giftist Íslendingi. Hennar
fjölskylda hér er okkar fjölskylda þótt við séum
ekkert blóðskyld.
Ég hef unnið mikið fyrir Rauða krossinn og
grínast stundum með það að ég sé að borga til
baka, því Rauði krossinn stóð fyrir komu flótta-
fólksins frá Ungverjalandi á aðfangadag 1956,
hópsins sem foreldrar mínir tilheyrðu. Ég get
ekki gert upp á milli Íslands og Ungverjalands,
þegar þær þjóðir eigast við t.d. í fótbolta þá segi
ég: „Eitt er víst, mínir menn vinna!““
Sáttur Íslendingur og stoltur Ungverji
Marianna Csillag er dóttir
flóttafólks, sem kom til Íslands
frá Ungverjalandi 1956. Guðrún
Guðlaugsdóttir ræddi við hana.
Sendifulltrúi Maríanna Csillag setur loftnets-
stöng á bíl Alþjóða rauða krossins í Afganistan.
gudrung@mbl.is