Morgunblaðið - 24.12.2006, Blaðsíða 49
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24. DESEMBER 2006 49
er allavega mín reynsla. Síðar
smakkaði ég mun betra úlfaldakjöt
hjá ungri eiginkonu Mulays, Galat,
þegar ég gisti síðustu nóttina í tjaldi
hans. Og kouskous-ið hennar var svo
gott að betra fæst varla annars stað-
ar í heiminum, ekki sakaði að á eftir
bruggaði Mulay dísætt og sterkt te
eftir öllum kúnstarinnar reglum.
Hann var einstaklega gestrisinn
eins og aðrir á staðnum. Allir voru
boðnir og búnir að rétta hjálparhönd
þegar þeir heyrðu að blaðamaðurinn
hefði orðið fyrir því að óhappi að far-
angurstaskan varð eftir í París
vegna mistaka Air France. „Því mið-
ur á ég ekki mikla peninga núna,
annars hefði ég farið með þig á
markaðinn og keypt handa þér föt
og fleira sem þig vantar,“ sagði Nac-
hib, miðaldra maður sem áreiðan-
lega hafði ekki úr miklu að spila.
Gróðursnautt
einskismannsland
Einstaka trjárengla berst víða í
örvæntingu fyrir lífinu en aðeins ein
raunveruleg vin með tjörn er á öllu
búðasvæðinu, við Tamik, miðstöð
hjálparstarfs fyrir fólk sem slasast
hefur af völdum jarðsprengna en
einnig eru þar fatlaðir hermenn. Þar
eru að sjálfsögðu nokkuð grósku-
miklir pálmar, ókosturinn er að
moskítóflugur kunna vel við sig á
slíkum stöðum. Fáein bit voru hins
vegar aðeins krydd í tilveruna og
ekki er malaríuhætta hér.
Ahmed Hattari er yfirmaður að-
stoðar við fatlaða af völdum hern-
aðarátaka og jarðsprengna, mið-
stöðin er í Tamik-garðinum. Hattari
er lamaður fyrir neðan mitti, særðist
í stríðinu við Marokkómenn. „Við
fáum of litla aðstoð, að vísu nokkuð
frá Rauða hálfmánanum en þyrftum
miklu meira. Hér eru í allt 153 skjól-
stæðingar en sumir á göngudeild.
Við þyrftum miklu fleiri pláss og hér
eru engin tæki til að kenna fólki
smíðar eða aðra færni.
Við erum að fara að reisa nýtt
hjúkrunarheimili og auk þess fer
mikil orka í að lagfæra það sem
skemmdist í óveðrinu mikla í febr-
úar. Þá gerði óskaplegt steypiregn í
nokkra daga og hundruð húsa á
svæðinu eyðilögðust. Jafnvel lofts-
lagið er á móti okkur! Hér eru sand-
stormar, ofsaregn, þurrkar, náttúr-
an er skelfilega erfið hér,“ segir
Hattari.
Morgunblaðið/Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
Örlög Sahrawi-manna eru nú sjald-
an í heimsfréttum. Fáir fjölmiðlar
veittu því athygli fyrr á árinu þegar
hersveitir Polisario kölluðu til er-
lenda fulltrúa og létu þá fylgjast
með þegar eytt var öllum jarð-
sprengjum sem samtökin réðu yfir,
ef undanskildir eru munir á stríðs-
minjasafninu. Með þessu átti að
senda skilaboð um friðarvilja til
heimsbyggðarinnar, en hún yppti
öxlum.
Marokkómenn hafa á hinn bóginn
reist geysimikinn múr til að verja
hernám sitt í mestum hluta Vestur-
Sahara. Þeir hafa m.a. komið fyrir
jarðsprengjum jafnt fyrir framan
múrinn, við hliðina sem snýr að her-
búðum Polisario og einnig aftan við
múrinn til að hindra Vestur-
Saharamenn á hernumdu svæð-
unum í að laumast yfir til landa
sinna. Auk þess sem mikið tjón
verður á búfé vegna jarðsprengna
slasast fjöldi fólks á hverju ári á
svæðinu, sumir deyja.
Ungir og herskáir menn í búð-
unum hika ekki við að gagnrýna
forystu frelsishreyfingarinnar Pol-
isario fyrir aðgerðaleysi. Eina ráðið
sé að hefja aftur stríð jafnvel þótt
við ofurefli sé að etja. Vopnuð átök
myndu vekja á ný athygli á baráttu
þjóðarinnar, fjölmiðlar myndu aft-
ur fara að sinna málstaðnum, segja
hinir herskáu.
Þetta segja þeir jafnvel í sam-
tölum við blaðamann og virðast
ekki óttast refsingu fyrir vikið sem
bendir til að það sé rétt sem túlk-
urinn minn, Mulay, fullyrðir: að al-
gert málfrelsi ríki í búðunum. Lýð-
ræðið sé ekki bara í orði. Hann
bendir mér líka á að hvergi séu á al-
mannafæri þessar hefðbundnu risa-
stóru myndir af leiðtogunum sem
hvarvetna má sjá í arabaríkjum.
„Við þekkjum okkar leiðtoga og
þurfum ekki að hampa þeim alls
staðar. Þeir búa innan um okkur,
við sama atlæti og við,“ segir
Mulay.
Hraktir í útlegð á
áttunda áratugnum
Í flóttamannabúðunum búa nú að
minnsta kosti 170.000 Vestur-
Saharamenn (öðru nafni Sahrawi-
menn), fólkið sem hraktist frá heim-
ilum sínum í Vestur-Sahara um
miðjan áttunda áratuginn þegar
Spánverjar yfirgáfu þessa nýlendu
sína og ætluðu að skipta henni milli
Máritaníu og Marokkó. Sahrawi-
menn sættu sig ekki við ákvörðun
Spánverja og gripu til vopna gegn
herjum Máritaníu, unnu þá en síðan
tók við margra ára blóðugt stríð við
Marokkómenn, sem eru fjörutíu
sinnum fleiri og njóta stuðnings
stórþjóða eins og Frakka. Eftir
nokkru er að slægjast fyrir Mar-
okkó, í Vestur-Sahara eru miklar
námur, einkum fosfat, einnig eru
auðug fiskimið við ströndina og
hugsanlega olía í landgrunninu.
Ýmsar goðsagnakenndar frá-
sagnir eru til af upphafi frelsisbar-
áttunnar en ekki voru miklar hefðir
fyrir vopnaburði meðal Sahrawi-
manna. Þeir beittu oft slægð og
nutu þess að þekkja hvern krók og
kima í landi sínu, gátu gert her-
mönnum Marokkó fyrirsát þar sem
þeir áttu sér einskis ills von.
„Við áttum fimm hermannariffla
þegar við byrjuðum og tveir þeirra
reyndust vera ónýtir,“ segir Walla,
svarthærður maður um fertugt og
dökkur á hörund. „En við notuðum
þá til að ræna fleiri og fleiri vopn-
um, smám saman varð til her, okkar
eigin her.“ Walla stundaði nám við
háskóla í Róm og talar auk ítölsku
nokkra ensku. Hann er þekkt stríðs-
hetja og í þéttu hárinu sést í holu í
kúpunni eftir hættulegt skotsár.
Margir liðsmenn Sahrawi-hersins
nutu þess að hafa verið í nýlendu-
her Spánverja og fengið þar þjálf-
un. Reyndar er ein af helstu tekju-
lindum fólksins í búðunum
eftirlaunagreiðslur frá Spáni og
þess má geta að tugþúsundir Sa-
hrawi-manna eiga rétt á að setjast
að á Spáni þar sem þeir eða feður
þeirra og mæður voru á sínum tíma
þegnar Spánarkonungs. Oft reyna
þó spænsk stjórnvöld að beita laga-
krókum til að hindra fólk í að not-
færa sér þau réttindi. En á móti
kemur að ýmis öflug samtök á
Spáni aðstoða Sahrawimenn, oft
vegna samviskubits yfir framferði
Spánverja á nýlendutímanum.
Polisario-menn við öllu búnir
þrátt fyrir vopnahlé
Vopnahlé hefur verið við lýði síð-
an 1991. Sjálfstæðishreyfing Vest-
ur-Saharamanna, Polisario, ræður
enn yfir vesturhéruðum heima-
landsins þar sem um 10.000 manns
búa, fátækt er þar að sögn enn verri
en í búðunum. Polisariohreyfingin
er við öllu búin og þjálfar stöðugt
unga menn í vopnaburði. En ráða-
menn hennar segjast enn vona að
þjóðir heims leyfi Vestur-Sahara-
mönnum að ákveða framtíð sína í
þjóðaratkvæðagreiðslu. Mar-
okkómenn, sem hafa hernumið
mestan hluta Vestur-Sahara,
þrjóskast enn við, vilja halda her-
fangi sínu. Á hverju ári er hernám
þeirra fordæmt hjá Sameinuðu
þjóðunum en ekkert gerist.
„Við gerum okkur vonir um að
afstaða Frakka breytist ef til vill
þegar nýr forseti tekur við á næsta
ári,“ segir Brahim Moktar, yfirmað-
ur móttökustöðvarinnar í búðunum
og fyrrverandi sendifulltrúi Pol-
isario í London. „Stuðningur
Frakka við Marokkó í þessu máli er
ekki í neinu samræmi við hagsmuni
þeirra, eitrar meðal annars sam-
skiptin við Alsír sem styður okkur.
Ástæðan fyrir þessu er að á sínum
tíma lagði Hassan, þáverandi kon-
ungur Marokkó, fé í kosningasjóð
Jacques Chirac Frakklandsforseta.
Chirac hét konunginum því á dán-
arbeði hans að „annast börnin“ og
þá er átt við núverandi konung, Mu-
hammed og systkin hans. Muham-
med var mjög ungur og lítt reyndur
og Hassan óttaðist um framtíð ætt-
arinnar og ríkisins í hans höndum.
Stefna Frakka í málum okkar
byggist því á persónulegum
tengslum en engu skiptir hver vinn-
ur forsetakosningarnar á næsta ári,
nýr forseti ekki bundinn af loforði
Chiracs. Hver veit nema eitthvað
þokist þá í okkar málum.“
Njóta stuðnings Afríkuríkja
Brahim segir málstað Sahrawi-
manna njóta stuðnings víða um
heim, ekki síst meðal Afríkulanda.
Alls hafi liðlega 80 ríki viðurkennt
útlagastjórn Polisario og að jafnaði
sé á allsherjarþingi Sameinuðu
þjóðanna samþykkt með þorra
greiddra atkvæða að fordæma her-
nám Marokkómanna sem Alþjóða-
dómstóllinn í Haag dæmdi ólöglegt
árið 1975. Hins vegar sitji fjölmörg
ríki hjá til að styggja ekki Marokkó
eða Frakka en þori ekki beinlínis að
mæla lögleysunni bót.
„Fá arabaríki styðja okkur, þau
leggja meira upp úr því að styðja
Marokkómenn sem eru svo miklu
öflugri þjóð en við,“ segir Brahim.
„En við erum virkir þátttakendur í
Afríkusambandinu og njótum við-
urkenningar meirihluta Afríku-
ríkja. Ekki vegna þess að leiðtogar
þeirra elski okkur alveg út af lífinu
heldur vegna þess að hernám
Marokkómanna brýtur algerlega í
bága við þær reglur sem sambandið
hefur sett sér. Menn vita að landa-
mærin sem dregin voru á nýlendu-
tímanum í álfunni eru oft út í hött.
En af tvennu illu er betra að halda
fast í þau en að skilgreina ríkja-
mörkin upp á nýtt.
Menn sáu hvað gerðist í Nígeríu
um 1970 þegar Biafra gerði upp-
reisn, enginn vill stuðla að sams
konar upplausn. Þess vegna er Afr-
íkusambandið á móti því að Mar-
okkó, sem var undir stjórn Frakka,
leggi undir sig fyrrverandi spænska
nýlendu og vill að fólkið á svæðinu
ákveði sjálft framtíð sína. Ef Mar-
okkómenn komast upp með þetta
getur fordæmið orðið til þess að
aðrar stórar Afríkuþjóðir hugsi sér
til hreyfings og gleypi minni ná-
granna sína,“ segir Brahim.
Lítil þjóð gegn ofureflinu
Morgunblaðið/Kristján Jónsson
Húllumhæ! Frönsk kona kennir þroskaheftum á þjálfunarmiðstöð fyrir
fatlaða í flóttamannabúðunum Smara.
Morgunblaðið/Kristján Jónsson
Alætur á ferð Sahrawi-menn eiga mikið af geitum og snögghærðum kindum, þær fyrrnefndu koma að góðu
gagni við sorphirðu þar sem geitur éta allt sem tönn án festir. Hvarvetna er gómsætt drasl sem feykist um
sandinn og grjótið, geiturnar eru einkar hrifnar af bláum plastpokum.