Morgunblaðið - 19.05.2007, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. MAÍ 2007 37
hjón er vart hægt að hugsa sér. Ég
sé þau fyrir mér, komin í heimsókn
til Reykjavíkur, hann við stýrið, hún
hliðarsætisbílstjóri sem vísaði rétta
leið. Orkan í þeim báðum. Margar
heimsóknir á dag, að sjálfsögðu öll
börnin heimsótt, barnabörnin og
barnabarnabörnin, nánir ættingjar,
fjarskyldir ættingjar og aðrir vinir.
Mikill er missir hans tengdapabba.
Við vorum svolítið heppin, við
hjónin og okkar börn. Við bjuggum
erlendis í mörg ár og þar var ekki
mikið um aðra ættingja svo við feng-
um að njóta þess vel að hafa þau í
heimsókn. Þau þurftu ekki, eða rétt-
ara sagt gátu ekki verið að æða
strax af stað. Fyrir vikið áttum við
nánar samverustundir með þeim og
þessar samverustundir voru og eru
ómetanlegar.
Mikið ósköp hafa börnin mín notið
þess að eiga Öddu sem ömmu.
Áhuginn sem hún hefur sýnt þeim
og því sem þau gera, og hvað hún
hefur náð að fylgjast með. Amma
alltaf svo hlý og góð. Það eru ófá
pörin af vettlingum og leistum sem
krakkarnir hafa fengið hjá ömmu.
Hlýjustu vettlingarnir eru þeir sem
amma prjónar. Þannig er það bara.
Söknuður þeirra er mikill.
Ósköp vorum við glöð að hún gat
verið viðstödd ferminguna hans Úlf-
ars Þórs í síðastliðnum mánuði. Við
áttum ekki von á að hún gæti verið
við athöfnina, kannski smástund í
veislunni. En viti menn, viljinn var
svo mikill; hún mætti í athöfnina og
var líka í veislunni, heillengi. Það
var alveg yndislegt og hún var sjálf
svo ánægð að ná að vera með.
Ég kveð tengdamóður mína með
virðingu, söknuð og þakklæti í
hjarta. Hún gaf mér og minni fjöl-
skyldu svo ótal margt. Megi góður
guð styrkja tengdapabba. Minning
um mæta konu lifir í hjörtum okkar.
Álfheiður Árdal.
Adda mín, þá er komið að kveðju-
stund. Það er margs að minnast
þegar litið er til baka þau 34 ár sem
leiðir okkar hafa legið saman. Efst í
huga á þessari stundu er mér þakk-
læti fyrir allt sem þið heiðurshjónin
hafið verið mér og mínum. Þegar ég
sem strákgemlingur hóf að venja
komur mínar að Barkarstöðum var
mér vel tekið og mér leið vel hjá
ykkur. Það var oft mannmargt
„heima“ enda hópurinn ykkar stór.
Eftir átök vinnudagsins mættu síð-
an allir á garðann þar sem alltaf var
vel veitt. Við strákarnir gerðum
okkar pantanir um pönnsur og
kleinur sem gjarnan var orðið við.
Hvert bakarí hefði verið stolt af því
magni sem ofan í okkur rann.
Fjölskyldan var þér allt, við börn-
in og barnabörnin fengum að finna
fyrir því. Umhyggja þín og Ragnars
fyrir velferð okkar og barnanna
verður seint fullþökkuð. Áhrif ykkar
á börnin okkar eru þeim gott vega-
nesti fyrir lífið. Enda bera þau ótak-
markaða virðingu og hlýhug til allra
stundanna með ykkur og hafa eng-
um tækifærum viljað sleppa til að
taka þátt í þeim stundum sem fjöl-
skyldan hefur átt saman.
Nú kemur þú ekki oftar til okkar í
Fífuhjallann eða tekur á móti okkur
fyrir norðan. Þessar stundir verða
aldrei samar. En minning þín lifir
með okkur og við yljum okkur við
hana. Við munum einnig öll samein-
ast í því að hugsa vel um kallinn
þinn en aðdáunarvert hefur verið að
fylgjast með þeirri virðingu og
trygglyndi sem einkennt hefur
hjónaband ykkar.
Ragnar minn, missir þinn er mik-
ill. En þú ert einnig ríkur maður,
ríkur af góðum minningum og góð-
um hópi barna og barnabarna sem
bera fyrir þér ótakmarkaða virðingu
og umvefja þig.
Hvíl í friði, Adda mín, og takk fyr-
ir allt.
Þinn tengdasonur
Jón.
Ég vil minnast fyrrverandi
tengdamóður minnar, Arndísar
Pálsdóttur, eða Öddu eins og hún
var alltaf kölluð. Fyrstu kynni mín
af henni og Ragnari eftirlifandi eig-
inmanni hennar voru haustið 1972,
þegar ég kom í fyrsta sinn á heimili
þeirra hjóna og naut gestrisni
þeirra. Þá tók hún fagnandi á móti
mér opnum örmum og bauð mig vel-
komna. Það var eins og við hefðum
alltaf þekkst. Strax tókst með okkur
góður vinskapur sem varði alla tíð.
Margt var rætt og spjallað og Adda
miðlaði til mín af þekkingu sinni og
reynslu. Hún sýndi öllu áhuga sem
við fjölskyldan tókum okkur fyrir
hendur og fylgdist vel með öllum,
hvort sem það var í leik eða starfi.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
Grátnir til grafar
göngum vér nú héðan,
fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.
Guð oss það gefi,
glaðir vér megum
þér síðar fylgja’ í friðarskaut.
(Vald. Briem.)
Nú er komið að leiðarlokum og vil
ég þakka elsku Öddu minni fyrir all-
an þann kærleik, vináttu og hlýhug
sem hún sýndi mér og fjölskyldu
minni alla tíð. Elsku Ragnar minn,
ég votta þér og öðrum aðstandend-
um mína innilegustu samúð.
Guðmunda Björk Óskarsdóttir
(Mummý).
Það fyrsta sem kemur upp í huga
mér við andlát Arndísar Pálsdóttur
á Barkarstöðum í Miðfirði er stórt
og mikið þakklæti fyrir yndisleg og
ógleymanleg sumur sem ég átti hjá
þeim hjónum Ragnari og Öddu, eins
og hún var alltaf kölluð, og börn-
unum þeirra. Einnig bjuggu á Bark-
arstöðum þá foreldrar Ragnars, þau
Benedikt og Jenny, yndisleg hjón,
blessuð sé minning þeirra, ásamt
barnabarni þeirra Benny sætu, frá
Hafnarfirði. Þó að árin séu orðin
nokkur síðan þetta var, þá eru þau í
minningunni eins og nýafstaðin.
Adda var mér mjög góð í alla staði.
Hún var mér eins og besta móðir.
Adda var einstaklega hress og glað-
lynd kona, sem sagði skemmtilega
frá og hafði smitandi hlátur. Adda
var mjög minnug á alla skapaða
hluti, og hafði svo hlýja og skemmti-
lega nærveru. Hún var ákveðin og lá
sjaldnast á skoðunum sínum, en allt-
af svo sanngjörn og mild við alla.
Það voru mikil forréttindi fyrir 13
ára ungling að vera undir hennar
verndarvæng. Árið 1960 var ekkert
rafmagn komið að Barkarstöðum.
Adda þurfti ekkert rafmagn. Adda
hafði sína olíu/kola-eldavél og bak-
aði mikið og eldaði vel. Hún átti
uppskrift að besta brauði í heimi.
Alltaf mikið bakkelsi í öllum kaffi-
tímum. Þær voru listakonur, Adda
og Jenny tengdamóðir hennar á
mörgum sviðum við að bjarga sér,
t.d. við að sjóða niður kjöt í stórar
glerkrukkur og loka með sínum
hætti, til geymslu. Þetta var fyrir
tíma frystikistnanna í sveitinni. Allt-
af kallaði Adda á okkur út um eld-
húsgluggann á gamla bænum á rétt-
um tímum, að koma inn í kaffi eða
mat. Það brást ekkert hjá Öddu.
Alltaf þegar við Ragnar fórum eitt-
hvað langt, t.d. að gera við girðingar
eða slá með orfi og ljá uppi í Seli,
vorum við alltaf vel nestaðir, með
kaffi í flöskum með ullarsokka ut-
anum og mikið af brauði og bakk-
elsi, Adda sá um það. Ragnar bóndi,
keypti ljósavél á Barkarstaði um
þetta leiti, Lister Blackston Diesel.
Mér þótti mikill heiður og traust
þegar Adda bað mig um að setja
ljósavélina í gang á haustkvöldunum
og seinna um kvöldið að slökkva.
Mér fannst ég vera orðinn vélstjóri.
Adda var mikill stuðningsmaður
Benedikts tengdaföður síns, um
uppbyggingu skógræktarinnar niðri
við Gil. Minnist ég orða gamla
mannsins þegar hann kallaði til okk-
ar krakkanna sem vorum að gróð-
ursetja, og sagði: „Það skal vel til
þess vanda sem lengi skal standa“.
Nú sannast orð Benedikts um vand-
aðan og fallegan skóg. Adda hvatti
mig og Benny til að lyfta okkur upp
alla sunnudaga, til að fara í útreiðar-
túra um Miðfjörðinn og víðar. Ragn-
ar lánaði mér alltaf besta hestinn,
hann Hjalta sem var verðlaunahest-
ur frá Hólum í Hjaltadal. Og Benny
á Stóra-Brún sem amma hennar
Jenny átti. Og heimilishundurinn
Kola hljóp á eftir og fylgdist með.
Þetta gaf mér mikið, við Benny er-
um jafngömul og gátum talað mikið
saman. Adda stjórnaði þessu öllu,
Adda vildi bara að allir væru glaðir
og liði sem allra allra best í sveitinni.
Það var hennar takmark.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Blessuð sé minning yndislegrar
konu, Öddu frá Barkarstöðum.
Um leið og ég bið Ragnari guðs
blessunar votta ég börnum þeirra og
aðstandendum mína dýpstu samúð
Magnús Þórir Pétursson.
Það er komið vor. Farfuglarnir,
þessir vinir okkar, sem flytja boð-
skapinn um langa daga og bjartar
nætur, syngja sinn dýrðarsöng og
brumið á trjánum lætur á sér kræla
þótt kuli stundum á norðurslóð. Það
var í þessari umgjörð sem svilkona
mín, Adda á Barkarstöðum, kvaddi
okkar jarðlíf.
Ég trúi því að okkur öllum sé af-
mörkuð stund og jafnframt ætlað að
nýta hana vel. Það er mín skoðun að
Adda hafi gert það og hvergi dregið
af sér. Í veikindum hennar kom það
skýrt í ljós hvað hennar innri kraft-
ur var ótrúlega mikill. Það er líka
aðdáunarvert hvað Ragnar var
henni umhyggjusamur og óþreyt-
andi að sinna hennar þörfum. Það
getur verið okkur mörgum til eft-
irbreytni. Heimili þeirra hjóna hefur
einnig borið vitni um gagnkvæmt
traust og virðingu þeirra fyrir hvort
öðru.
Adda var heilsteypt kona, hafði
ákveðnar skoðanir og lét þær í ljósi
ef henni þótti ástæða til. Hún var fé-
lagslynd, hafði yndi af samskiptum
við fólk og sýndi einstaka ræktar-
semi gagnvart vinum og vanda-
mönnum. Afkomendahópurinn
þeirra Öddu og Ragnars er orðinn
stór og það er töluvert afrek að
halda nánum tengslum við allan
hópinn og þar eru börnin okkar ekki
undanskilin.
Samskipti okkar Barkar við þau
hjón eru orðin löng og eigum við
fjölskyldan stóran sjóð dýrmætra
minninga sem aldrei bar skugga á,
sjóð sem hvorki mölur né ryð fær
grandað.
Eftir að við fluttum hingað í sveit-
ina kom sér vel hve stutt var á milli
bæjanna, enda voru verkfæri lánuð
og aðstoðað við byggingar. Það var
sama hvers þurfti með, alltaf var
hægt að leita til þeirra hjóna og allt-
af leyst úr hverjum vanda.
Svo komu sumarfríin. Ekki vika á
Spáni eða Portúgal, kannski þrír
dagar á Vestfjörðum eða tveir dagar
til að fara Kjalveg. Börnunum og
nestinu var troðið í Land Rover-bíl-
ana og haldið af stað. Þessara daga
var beðið með óþreyju og enn lifa
minningarnar í hugum ferðalang-
anna.
Lengstu dagar ársins nálgast og
kvöldsólin varpar sínum dýrðlega
roða á byggðina okkar. Þá kemur
margt í hugann, fyrst og fremst
þakklæti fyrir að hafa átt samleið
með Öddu. Hún kenndi mér margt,
sem er mér mikils virði og vonandi
kem ég einhverju af því áfram.
Guð blessi minningu Öddu og
styrki Ragnar og alla fjölskylduna
þeirra.
Sólrún K. Þorvarðardóttir.
Útfararþjónustan ehf.
Stofnað 1990
Símar: 567 9110 & 893 8638
www.utfarir.is • runar@utfarir.is
Alhliða útfararþjónusta
Rúnar
Geirmundsson
Sigurður
Rúnarsson
Elís
Rúnarsson
Þorbergur
Þórðarson
✝
Hjartans þakkir fyrir hlýhug og auðsýnda samúð
við andlát og útför móður, okkar tengdamóður,
ömmu og langömmu,
GUÐLAUGAR GUNNARSDÓTTUR,
dvalarheimilinu Lundi,
Hellu.
Guð blessi ykkur öll.
Gunnar Karlsson, Ásgerður Þórðardóttir,
Guðrún D. Karlsdóttir, Sigurjón Magnússon,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, sonur og
bróðir,
GUNNAR TRYGGVI BERGSTEINSSON,
Fífulind 13,
Kópavogi,
verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju mánudaginn
21. maí kl. 13.00.
Valgerður Aðalsteinsdóttir,
Bergsteinn Gunnarsson,
Aðalsteinn Mar Gunnarsson,
Aðalbjörg Jónasdóttir,
Halla Bergsteinsdóttir,
Jónas Bergsteinsson,
Bjarni Bergsteinsson.
✝
Innilegar þakkir fyrir hlýhug og auðsýnda samúð
við andlát og útför eiginkonu minnar, móður okkar,
tengdamóður, ömmu og langömmu,
RÖGNU MARÍU SIGURÐARDÓTTUR,
Hrafnakletti 4,
Borgarnesi.
Sérstakar þakkir færum við hjúkrunarfólki á 11 E
Landspítala.
Baldur Sveinsson og fjölskyldur.
✝
Elskuleg móðir, tengdamóðir, systir, föðursystir,
mágkona og amma okkar,
KRISTJANA SIGURÐARDÓTTIR SIGURZ,
Skógarbæ,
áður Dunhaga 21, Reykjavík,
sem lést fimmtudaginn 10. maí, var kvödd í
kyrrþey, að eigin ósk miðvikudaginn 16. maí.
Færum hjúkrunarfólki og öðrum í Skógarbæ okkar
bestu þakkir fyrir frábæra umönnun og hlýju.
Guðrún Lárusdóttir Islandi, Christopher Bo Bramsen,
Richard S. Islandi, Nanna Islandi,
Áslaug Sigurz,
Skúli Eggert Sigurz, Ingunn Þ. Jóhannsdóttir,
Kittý Johansen og ömmubörn.
✝
Látin er
HALLDÓRA MARGRÉT HERMANNSDÓTTIR
frá Ysta-Mói í Fljótum,
til heimilis á
Hvanneyrarbraut 34,
Siglufirði.
Margrét Lára Friðriksdóttir, Arngrímur Jónsson,
Agnes Einarsdóttir,
Ævar Friðriksson, Hjördís Júlíusdóttir.