Morgunblaðið - 13.11.2007, Blaðsíða 20
20 ÞRIÐJUDAGUR 13. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING/BÆKUR
AUGLJÓST er að Einar Kárason
hefur ekki sett sig í alltof háfleygar
stellingar í skemmtisögunum sem
skipa hans nýjasta smásagnasafn,
Endurfundir. Í raun mætti kannski
segja að áreynsluleysi sé hér í fyr-
irrúmi, a.m.k. virðast kröfurnar
sem gerðar eru til lesanda sjaldan
vera meiri en svo að þeim sé hægt
að fullnægja með glotti eða brosi
þegar brandarinn sem höfundur
segir er til lykta leiddur.
Bókin hefur að geyma sextán
misjafnlega langar sögur, allar eru
þær sagðar í fyrstu persónu en í
sumum tilvikum virðist vera um
minningarbrot höfundar að ræða.
Frásagnirnar eru þó í grundvall-
aratriðum keimlíkar bæði hvað
varðar efnistök og frásagnartón.
Flestar segja sögunar frá körlum
sem bregðast á skondinn hátt við
vandræðalegum kringumstæðum,
en tónninn er kumpánlegur og stíll-
inn talmálskenndur og bein-
skeyttur á máta sem lesendur Ein-
ars þekkja vel. En karlar í
vandræðum mynda sem sagt þema-
tískt net bókarinnar, hér gefur að
líta karla í vandræðum með sjálfa
sig, drykkjuna, „kellingar“, tengda-
fjölskylduna, og svo framvegis.
Vandræðin eru margskonar og sög-
urnar mætti flestar skilgreina sem
gamansögur en húmorinn er stund-
um á heldur lágu plani. Í „Herra-
garðinum“ lýsir sögumaður til að
mynda bagalegri reynslu af tengda-
fjölskyldu sinni og hvernig róttæk
hugmynd um sambýli systkina og
maka leiddi til þess að hjónabandið
fór í vaskinn. Sögumaður er í
hefndarhug þegar kemur að sölu
síns hluta í sameigninni og finnst
því tilvalið að láta hann renna til
dæmds morðingja sem þannig
lendir inni á gafli hjá gömlu
tengdafjölskyldunni. Sagan er svo
sem haganlega smíðuð en hefur lít-
ið umfram þessi endalok fram að
færa, sniðugheit sem rista ekki
mjög djúpt og eru í þokkabót ekki
jafn sniðug og kann að virðast í
fyrstu.
Hins vegar má segja að ýmislegt
liggi undir þessum sögum af vand-
ræðalegum körlum og körlum í
vandræðum. Þegar litið er yfir
samanlagða sagnaflóru bókarinnar
birtist lesanda mynd af karl-
mennsku í kreppu, sögurnar eru í
raun röð mynda af mönnum sem
eiga erfitt með að tjá sig, vinna úr
tilfinningum sínum, nú eða bara
vera til í samfélagi við konur. Það
er í þessu samhengi sem e.t.v. má
reyna að skýra eitt af furðulegri
söguframlögum bókarinnar. Það er
stuttur þáttur um Bítlana sem virð-
ist sagður frá sjónarhorni Paul
McCartney (nema mér skjátlist í
bítlafræðunum, en hér veltur nokk-
uð á þeim þar sem persónurnar
koma ekki fram undir nafni) og
snýst um áhrif Yoko Ono á sam-
heldni hljómsveitarmeðlima. Hér er
unnið úr hefðbundinni söguskoðun
sem áfellist Yoko og ásakar um
spellvirki á drengjasveitinni frá
Liverpool. En þótt sagan sé sjálf
kannski ekki mikill bógur má segja
að innkoma þessa alræmdasta
kvenvargs 20. aldar poppsögu
bregði dálítilli birtu á samheng-
ið.Yoko og hennar líkar reynast
nefnilega vera víða í bókinni, sjá
má votta fyrir henni í ýmsum upp-
vöðslusömum kvensum og „kven-
legum“ gildum sem sögumenn
þurfa að glíma við.
Afraksturinn í bók þessari er
heldur rýr að mínu mati, maður sér
vel grilla í þann góða sagnamann
sem Einar Kárason getur verið en
sögurnar sem hér birtast eru flest-
ar of endurtekningasamar og til-
komulitlar að upplagi til að safnið
geti talist eftirminnilegt.
Karlar í
vandræðum
Björn Þór Vilhjálmsson
BÆKUR
Smásögur
Eftir Einar Kárason,
Mál og menning. 2007. 165 bls.
Endurfundir
ÉG sá fyrst sýningu á verkum Jóns
Baldvinssonar einhverntímann á ní-
unda áratug síðustu aldar á göngum
Íslensku óperunnar. Þar voru ýmsar
furðufígúrur á striga, trúðar grænir
í framan. Ég minntist þessarar sýn-
ingar þegar ég skoðaði nýleg verk
Jóns sem nú hanga í sýningarrými
Listhúss Ófeigs. En þar eru ýmsar
furðufígúrur á striga, geimverur
grænar í framan.
Ég las í viðtali við listamanninn að
hann hefði áhuga á dulspeki. Sú
speki spannar vítt svið og fetar
marga ólíka vegi. Sumir dul-
spekimenn eru uppteknir af geim-
verum og áhrifum þeirra á jörðinni
og slíkt er viðfangsefni Jóns hjá
Ófeigi, „hefðbundnar“ portrett-
myndir af geimverum og far-
artækjum þeirra.
Væru þessi verk Jóns tekin fyrir í
dómsal hinna listrænu gilda mundi
verjandi Jóns vafalaust leggja út
með líflegt samspil lita og sértækt
viðfangsefni (það eru ekki margir
listamenn á níræðisaldri að mála
geimverur?). Sækjandinn mundi aft-
ur á móti ráðast að formrænu til-
breytingarleysi og ásaka listamann-
inn fyrir sparsemi á tæknilega getu
sína. Eflaust mundu þeir svo þræta
um önnur ákvæði, eða allt þangað til
að verjandinn léti tromp sitt af hendi
og setti verkin í listsögulegt sam-
hengi með því að benda á glettilegt
formrænt samtal á milli málverka
Jóns af fljúgandi diskum og ab-
straktmynda rússneska listamanns-
ins Kasimirs Malevich (1878-1935),
sem líkt og Jón aðhylltist dulspeki í
sína tíð nema hvað það voru stærð-
fræðivíddirnar sem kölluðu í stað
geimvera. Við slíku trompi hefði
sækjandi ekkert svar og réttlæt-
anlega mundi kviðdómur hinna list-
rænu gilda dæma sýninguna Jóni í
hag.
Grænir í framan: Úr dómsal hinna listrænu gilda
MYNDLIST
Listhús Ófeigs
Opið á verslunartíma. Sýningu lýkur 14.
nóvember. Aðgangur ókeypis.
Olíumálverk – Jón M. Baldvinsson
JBK Ransu
NÝJASTA verk Eyvindar P. Eiríks-
sonar, Glass, getur talist sér-
kennilegt fyrir margra
hluta sakir. Hönnun og
útlit bókarinnar vekur
strax spurningar þar
sem lesa má káputext-
ann sem áfellisdóm um
íslenska bókaútgef-
endur. „Glass – sagan
sem enginn þorði að
gefa út?“ er spurt (og
eiginlega haldið fram) í
upphafi. Því næst er
farið í gegnum bóka-
forlögin eitt af öðru og
vitnað í það sem virð-
ast vera höfnunarbréf
þeirra, og þar með gef-
ið til kynna að hand-
ritið hafi flakkað milli
helstu forlaga og alls staðar talist of
eldfimt til útgáfu. Að lokum er Ís-
land kennt við bananalýðveldi og
gefið í skyn að eins konar óopinber
ritskoðun sé við lýði. Og vart þarf að
geta þess að verkið birtist lesendum
útgefið af höfundi. Er mögulegt að
bókin sé svo gagnrýnin að ekkert
forlag fáist til að gefa hana út? Er
Eyvindur að afhjúpa „þjóðfélag
einkavinanna“, rífur höfundur hulu
hugmyndafræði og kaupmennsku af
veruleikanum?
Mér þykir ekki sýnt að svo sé, né
að bókinni hafi verið hafnað af ann-
arlegum ástæðum. En óhætt er að
segja að hún sé gagnrýnin, þar hefur
káputextinn lög að mæla. Höfundur
tekur til máls um málefni á borð við
eyðileggingu umhverfisins, fyr-
irtækjavæðingu fjölmiðla og sam-
félagsbrask af ýmsu tagi. Um allt
þetta er síðan fjallað í formi vís-
indaskáldsögu og má jafnvel segja
að Eyvindur skapi framtíðarsam-
félag þar sem hrakspár
samtímans hafa flestar
ræst og vel það. Þeir
sem eru heppnir og
auðugir búa undir gler-
hjúp þeim sem vísað er
til í titlinum og eru
þannig verndaðir fyrir
eftirköstum umhverfis-
slysa og reiði hinna
eignalausu, en utan
glersins lifa úrköst
samfélagsins í eins
konar geislavirkri eyði-
mörk. Þótt margt í
samfélagsmyndinni
komi lesendum kunn-
uglega fyrir sjónir er
framtíðarheimsmyndin
sterkasti þáttur bókarinnar. Þannig
nær bókin á köflum skemmtilegu
flugi þegar fjarstæðukenndri orð-
ræðu hins opinbera er lýst sem og
auglýsingaskruminu sem loðir við
hvern flöt lífsins inni í Glass. Hins
vegar er bókin þjökuð mjög af frá-
sagnarlegri deyfð og þvældri per-
sónusköpun, söguþráðurinn dettur
niður í hálfgert moð á löngum köfl-
um. Boðskapurinn er ótvíræður en
það er eins og frásögnina sjálfa vanti
þá sérstöku knýjandi þörf eða ákefð
sem fangar lesandann
Á hverfanda hveli
BÆKUR
Skáldsaga
Eftir Eyvind P. Eiríksson
EPE. Reykjavík. 2007. 206 bls.
Glass
Björn Þór Vilhjálmsson
Eyvindur P. Eiríksson
HÉR er á ferðinni önnur saka-
málasaga Fritz Más
Jörgenssonar sem út
kemur á árinu en sú
fyrri, Þrír dagar í
október, var fyrsta bók
höfundar. Við fylgjum
hópi rannsóknarlög-
reglumanna á slóð
kynferðisglæpamanns
sem leikur lausum
hala í Reykjavík. Um
er að ræða nauðgara
sem beitir fyrir sig
svefnlyfjum en hefur
nú stigið skrefinu
lengra og er farinn að
myrða. Eitt af sér-
kennum bókarinnar er
að veita annað slagið
innsýn í þankagang glæpamanns-
ins, skáletraðir kaflar eru sagðir
frá hans sjónarhorni, en lengst af á
það að vera ráðgáta hver hinn seki
er. Hópurinn sem er á slóð morð-
ingjans er kunnugur lesendum
glæpasagna, hér er um staðaltýpur
að ræða að einni persónu undan-
skilinni, en það er samkynhneigða
löggan Jónas. Með þessari persónu
er Fritz að reyna fyrir sér á
skemmtilegum slóðum en eins og
með svo margt í bókinni þá heppn-
ast höfundi ekki nægilega vel að
þróa möguleikana sem persónan
býður upp á til að hleypa nýju lífi í
þreytt umhverfi.
Þetta getur í raun talist helsta
einkenni bókarinnar, úrvinnslu
skortir fágun og hugmyndaauðgi.
Höfundurinn hefur ágætan skilning
á helstu frásagnarstefum og strúkt-
úr sakamálasagna (einkum svoköll-
uðum „police procedurals“, eða
bókum sem miðast við sjónarhorn
lögreglunnar og smá-
atriði rannsókn-
arinnar) en mistekst
að blása í þær lífi, og
sýnir á köflum glæp-
samlegar yfirsjónir
þegar kemur að
grundvallaratriðum
frásagnarlistarinnar.
Þannig hefur höf-
undur ekki nægilega
stjórn á sjónarhorni
sögunnar eða boð-
skiptamynstri hennar.
Dæmi um það eru
alltof tíðar skiptingar
milli persóna og klúð-
ur í meðhöndlun vit-
undarmiðju frásagn-
arinnar. En mér segir svo hugur að
enn alvarlegri í augum lesanda
muni reynast meðhöndlun höfundar
á sjálfu gangverki söguþráðarins,
en þar gera ýmis konar annmarkar
vart við sig sem draga mjög úr
lestraránægjunni. Höfundur hefur
ýmislegt skynsamlegt að segja um
kynferðisglæpi, og þá sérkennilegu
meðferð sem þeir hljóta í karlmið-
uðu réttarkerfinu, en í ljósi þess að
um skáldsögu en ekki aðsenda
grein í dagblað er að ræða er ein-
faldlega ekki nægilega vel að verki
staðið.
Krimmi á villigötum
BÆKUR
Skáldsaga
Eftir Fritz Má Jörgensson,
Skjaldborg. 2007. 237 bls.
Grunnar grafir
Fritz Már Jörgensson
Björn Þór Vilhjálmsson
Fljúgandi furðuhlutur Viðfangsefni Jóns er „hefðbundnar“ portrett-
myndir af geimverum og farartækjum þeirra.
LJÓÐABÓKIN Öskudagar eftir
Ara Jóhannesson hlaut Bókmennta-
verðlaun Tómasar Guðmundssonar
2007. Á kápu bókarinnar segir að
Ari sé með útgáfunni að efna loforð
sem hann gaf sjálfum sér ungur, að
sinna skáldskapnum í fyllingu tím-
ans, en Ari hefur í þrjátíu ár starfað
sem læknir.
Bókin skiptist í þrjá hluta. Í þeim
fyrsta, Sjáöldrum og silungum, og
þriðja, Þessar stundir, eru umfjöll-
unarefnin saga og náttúra, samtími
og borgarlíf. Þessir tveir hlutar
ramma svo inn annan hlutann sem
heitir Hvítur hamar og lýsir per-
sónulegri reynslu læknisins af heimi
sjúkrahússins og sam-
skiptum við sjúklinga.
Annar kaflinn er tví-
mælalaust sá áhuga-
verðasti. Ég man ekki
eftir mörgum ljóðum
eftir íslensk skáld sem
lýsa heiminum frá þessu
sjónarhorni. Hér eru
eins konar stemnings-
ljóð af bráðamóttökunni
og gjörgæsludeild, einn-
ig útleggingar á hlut-
verki eða hlutskipti
lækna sem setjast að í
störfunum, eins og segir
í ljóðinu Við, hlusta,
þreifa og sjúkdóms-
greina, ávísa betri heilsu og taka í
þúsund þakklátar hendur: „en
skynjuðum ekki það sama og þeir/
gengum ekki slóð þeirra eftir daln-
um/heyrðum aldrei krunkið í hrafn-
inum//fundum ekki súginn//fyrr en
dag nokkurn er/(okkur
til opinmynntrar undr-
unar)/við veiktumst
sjálfir//þá fundum við
og heyrðum allt!“
Bestu læknaljóðin
eru þó þau sem lýsa
samskiptum við sjúk-
linga þar sem „Svo mik-
ið veltur/á rauðum
vörum/gljáðum af
munnvatni/hjá hvítum
sloppum“ eins og segir í
ljóðinu Endurvinnsla,
en í undirtitli er vísað í
bandaríska ljóðskáldið
William Carlos Willi-
ams sem starfaði ein-
mitt sem læknir allan sinn skálda-
feril og orti um starf sitt.
Stundum eru þetta eins konar lífs-
viskuljóð eins og ljóðið Úrskurður
þar sem læknir sannfærir sjúkling
um að sjúkdómurinn sem hann ber
hafi í raun verið löngu tímabær. Í
sumum tilfellum geta sjúkdómar
sjálfsagt verið skilaboð um að tími
sé kominn til þess að breyta til,
minnka við sig, „draga saman lífið“
eins og segir í ljóðinu.
Ari yrkir áferðarfalleg ljóð. Hann
sækir talsvert í form- og málhefð ís-
lenskra síðmódernista. Segja má að
einmitt svona hafi verið ort í fimm-
tíu ár. Þetta eru opin ljóð, ort á svo-
lítið upphöfnu hversdagsmáli.
Myndmál er fágað og stundum
kunnuglegt. Samsetningar eins og
„hrímþögn“, „haustskógur“, „dauða-
djúpum“ og „morgunskær“ eru al-
gengar.
En það eru ekki mikil umbrot í
þessum ljóðum. Enginn háski. Sárin
eru gróin. Askan er sest og við
sjáum nett fótspor höfundarins í
sallanum.
Nett fótspor höfundarins í sallanum
Þröstur Helgason
Ari Jóhannesson
BÆKUR
Ljóð
Eftir Ara Jóhannesson,
Uppheimar, 2007, 82 bls.
Öskudagar