Morgunblaðið - 29.11.2007, Blaðsíða 4
4 FIMMTUDAGUR 29. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
DREIFING nýrrar gerðar debet-
korta sem innihalda örgjörva með
rafrænum skilríkjum hefst fljót-
lega á næsta ári. Reiknað er með
að ári síðar verði allir handhafar
debetkorta komnir með nýju gerð-
ina í hendur. Um er að ræða sam-
starfsverkefni fjármálaráðuneyt-
isins, fyrir hönd ríkisins, og
Auðkennis, fyrir hönd banka og
sparisjóða.
Bergsveinn Þórarinsson, fram-
kvæmdastjóri innleiðingar nýju
kortanna, sagði þau gegna tví-
þættu hlutverki. Annars vegar
sem debetkort til notkunar í við-
skiptum og hins vegar sem raf-
rænt skilríki til auðkenningar og
undirritunar. Skilríkin verður
hægt að nota til undirritunar
samninga í gegnum netið, til að
auðkenna sig inn á lokuð vefsvæði
eins og heimabanka, þjónustusíður
fyrirtækja og sveitarfélaga,
menntastofnana o.fl. Þá er kortinu
stungið í kortalesara sem tengdur
er tölvunni og verður dreift með
kortunum. Nýrri gerðir tölva eru
margar með slíka lesara sem stað-
albúnað.
Rafrænu skilríkin á nýju debet-
kortunum munu með tíð og tíma
leysa auðkennislykla banka og
sparisjóða af hólmi. Bergsveinn
sagði að fjármálastofnanirnar
væru að hefja útgáfu nýrra debet-
korta með fjármálavirkni sem
kennd er við EMV. Slíkar örflögur
eru m.a. komnar á kreditkortin.
Örflagan á debetkortunum er öfl-
ugri og getur því bæði geymt skil-
ríkin sem og greiðsluvirkni debet-
kortsins. Hún er einnig öruggari
en eldri gerðir og er mun örðugra
að afrita upplýsingar af örgjörvum
en segulröndum korta. Bergsveinn
sagði að neytendur ættu ekki að
bera neinn beinan kostnað af inn-
leiðingu kortanna. Samstarf rík-
isins við banka og sparisjóði trygg-
ir að kortin nái mjög almennri
dreifingu.
Á kynningarfundi í gær um nýju
kortin kom m.a. fram að útgáfa
rafrænna skilríkja hófst í Eistlandi
árið 2002. Þau voru fyrst notuð þar
í sveitarstjórnarkosningum 2005
og fyrstu rafrænu þingkosning-
arnar í heiminum fóru fram í Eist-
landi fyrr á þessu ári.
Ný debetkort eru rafræn skilríki
Nota má kortin
við undirritun
samninga á netinu
Rafræn skilríki Nýju debetkortunum fylgja sérstakir kortalesarar.
Einnig eru margar tölvugerðir með innbyggða kortalesara.
ÚTSENDINGAR hófust formlega á
kínversku sjónvarpsstöðinni CCTV
9 hérlendis í gær. Af því tilefni tók
Zhang Keyuan, sendiherra Kína, á
móti gestum og kveikti á útsend-
ingu stöðvarinnar. CCTV 9 er send
út á ensku og fæst fyrst og fremst
við fréttaflutning, en einnig er
fjallað um menningu og samfélag
Kína.
Kínverska sendiráðið, sem hafði
frumkvæði að útsendingunum, von-
ast til að með þeim öðlist Íslend-
ingar dýpri skilning á kínversku
samfélagi og menningu.
Ólafur Egilsson, formaður Kín-
versk-íslenska menningarfélagsins
og fyrrv. sendiherra í Kína, segir
mikilvægt að þessar útsendingar
séu hafnar. Menningar- og stjórn-
málasamband landanna hafi aldrei
verið betra og vonast hann jafn-
framt til að útsendingarnar stuðli að
enn betri skilningi milli þjóðanna.
CCTV 9 er hægt að nálgast í áskrift
á Digital-Ísland útsendingarkerfi
Vodafone í Reykjavík og nágrenni.
Innsýn í
kínverskt
samfélag
Kínversk sjónvarpsstöð komin í loftið á Íslandi
Morgunblaðið/Sverrir
Eftirvænting Zhang Keyuan kveikti á sjónvarpinu í kínverska sendiráðinu í gær að viðstöddum gestum.
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur
elva@mbl.is
„ÞAÐ voru allir undrandi,“ segir
Sigurbjörg Ármannsdóttir, for-
maður MS-félagsins, um viðbrögð
fulltrúa nor-
rænna MS-fé-
laga á aðal-
fundi í
Stokkhólmi
fyrr í mánuðin-
um, við þeirri
staðreynd að
enn sé ekki far-
ið að bjóða fólki
með MS hér á
landi að nota
nýja lyfið
Tysabri.
Lyfið var fyrst notað fyrir
nokkrum árum en tekið úr notkun
eftir að hættuleg aukaverkun kom
í ljós. Frá því í fyrra hefur Tysabri
verið notað með góðum árangri í
Evrópu.
Sigurbjörg segir að á fundinum
hafi MS-félögin borið saman bæk-
ur sínar. „Við erum sorglega langt
á eftir,“ segir Sigurbjörg. Á öllum
hinum Norðurlöndunum sé farið að
nota Tysabri með góðum árangri.
T.d. sé um eitt og hálft ár síðan far-
ið var að nota það í Svíþjóð.
Baráttan fyrir aðgengi að lyfinu
hefur þó ekki verið þrautalaus á
Norðurlöndunum. Í áskorun sem
samþykkt var á fundi MS-félag-
anna í Stokkhólmi segir að alls
staðar hafi þurft að berjast hart
fyrir því að koma meðferð með
Tysabri á gott ról. Staða mála sé
enn víða óviðunandi. Á Íslandi hafi
enginn fengið lyfið enn sem komið
er og í Finnlandi sé fólki aðeins
boðið upp á hálfs árs meðferð.
Sigurbjörg segir að áskorunin
hafi verið send Norrænu ráðherra-
nefndinni, en Halldór Ásgrímsson
er framkvæmdastjóri hennar. „Það
var beðið um fund með honum sem
tveir eða þrír fulltrúar frá Íslandi
og Noregi munu fara á,“ segir hún.
Þar verði gerð grein fyrir málinu
og óskað eftir því að farið verði að
lögum um réttindi sjúklinga.
Um 330 manns með MS
Um 330 manns á Íslandi eru með
MS. Sigurbjörg segir að talið sé að
um 15-20% sem prófa muni
Tysabri muni ekki þola það og aðr-
ir kunni að nota önnur lyf. Því megi
ætla að um 50-60 manns muni not-
að Tysabri að jafnaði. Það sé erfitt
fyrir fólk að vita af meðferð sem
gagnist en ekki er í boði hérna.
„Við höfum ekki tíma [til að bíða],“
segir Sigurbjörg. Margir hafi beðið
lengi án vonar.
Góður árangur af Tysabri
á hinum Norðurlöndunum
Á FUNDI valnefndar
Grafarvogssóknar 27.
nóvember sl. var séra
Guðrún Karlsdóttir,
sóknarprestur í Svíþjóð,
valin til að gegna emb-
ætti prests í Grafar-
vogsprestakalli.
Guðrún lauk guð-
fræðiprófi frá HÍ árið
2000. Hún hefur verið
búsett í Svíþjóð síðast-
liðin átta ár og var vígð til prests 11. jan-
úar 2004 í dómkirkjunni í Gautaborg. Guð-
rún hefur starfað sem prestur á
Gautaborgarsvæðinu frá vígslu.
Séra Guðrún hefur víðtæka og áralanga
reynslu á sviði barna- og æskulýðsstarfs í
Þjóðkirkjunni áður en hún hélt utan sem
og í sænsku kirkjunni. Guðrún hefur jafn-
framt góða reynslu af starfi með eldri
borgurum. Eiginmaður Guðrúnar er Ein-
ar Sveinbjörnsson, prófessor í rafmagns-
verkfræði, og eiga þau tvö börn.
Séra Anna Sigríður Pálsdóttir, sem
gegnt hefur starfi prests í Grafarvogs-
söfnuði síðastliðin tíu ár, var valin prestur
í Dómkirkjuprestakalli nú í haust.
Valin prestur
í Grafarvogi
Séra Guðrún
Karlsdóttir
GRÍMSEYINGAR hafa valið nafn á nýju
ferjuna. Hreppstjórinn Bjarni Magnússon
gekk ásamt sveitarstjórnarmanninum Al-
freð Garðarssyni með kosningakassa milli
húsa. Mjótt var á munum milli nafnanna
tveggja sem kosið var um. Drangur fékk
16 atkvæði en Sæfari bar sigur úr býtum
með 19 atkvæðum. Skip sem gekk til
Grímseyjar til margra ára hét einmitt
Drangur og eiga margir minningar frá því
skipi. Núverandi ferja heitir Sæfari og það
nafn mun prýða nýju ferjuna.
Sæfari skal
nýja ferjan heita
GEIR H. Haarde for-
sætisráðherra flytur
fyrirlestur á jólafundi
sænska viðskiptaráðs-
ins í Stokkhólmi í dag.
Fjallar Geir þar um
hvernig hægt sé að búa
til hagkerfi í fremstu
röð í heiminum. Í frétt
frá viðskiptaráðinu er
vísað til þess að Ísland
sé eitt ríkasta land heims ef miðað sé við
verga þjóðarframleiðslu á mann og efna-
hagskerfinu hafi verið umbylt á 15 árum.
Í gær fjallaði forsætisráðherra um þró-
un efnahagsmála á Íslandi í ávarpi á fundi
í Oxford Union, málfundafélagi stúdenta
við Oxford-háskóla.
Geir ræðir við
Svía um Ísland
Geir H. Haarde
TILBOÐ hafa verið opnuð hjá Vegagerð-
inni í nýbyggingu hringvegarins um
Hrútafjarðarbotn. Töluverðar breytingar
verða á legu vegarins og jafnframt verður
aflögð eina einbreiða brúin, sem nú er að
finna á hringveginum milli Reykjavíkur
og Akureyrar. Skagfirskir verktakar hf. á
Sauðárkróki áttu lægsta tilboðið, rúmar
163 milljónir króna, 74,7% af kostnaðar-
áætlun. Næstlægsta tilboðið átti Sigurjón
Hjartarson á Brjánsstöðum, tæpar 167
milljónir. Háfell ehf. í Reykjavík átti hæsta
tilboðið, tæpar 320 milljónir.
Skagfirðingar
buðu lægst
SKIPULAG Urriðaholts í Garðabæ hlaut 2.
sætið í lokaúrslitum alþjóðlegu lífsgæða-
verðlaunanna, LivCom, sem afhent voru í
London í vikunni, en þau eru veitt með
stuðningi Umhverfisstofnunar SÞ. Skipu-
lag Urriðaholts komst í lokaúrslit ásamt 18
öðrum verkefnum á sviði uppbyggingar
sem hafa sjálfbærni og umhverfisvitund að
leiðarljósi. Á vefsíðu LivCom er skipulag
Urriðaholts sagt vera hlið á milli borgar-
umhverfis og íslenskrar náttúru þar sem
Urriðavatn er í aðalhlutverki.
Urriðaholt
verðlaunað
SUMIR þeirra MS-sjúklinga sem munu fá Tysabri við sjúkdómi sínum
eru ekki á þeirri fyrirbyggjandi meðferð sem nú er fyrir hendi, að sögn
Hauks Hjaltasonar, taugalæknis á taugadeild Landspítala. Haukur seg-
ir ástæður þessa ýmsar, meðal annars að þau lyf hafi ekki dugað nægi-
lega eða sjúklingur ekki þolað lyfið.
Haukur segir að í dag séu til fjögur mismunandi lyf sem gefin eru
fólki með MS-sjúkdóminn í fyrirbyggjandi tilgangi. Þeir sjúklingar sem
eru á fyrirbyggjandi meðferð við MS eru nú um 140 talsins. Kostnaður
við þessi lyf sé á bilinu 1,3-1,7 milljónir króna á ári á hvern einstakling.
Á Tysabri af öðrum lyfjum
Sigurbjörg
Ármannsdóttir