Morgunblaðið - 24.02.2008, Blaðsíða 24
lífshlaup
24 SUNNUDAGUR 24. FEBRÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ
því blasti við að Höskuldur færi til
æfinga hjá KA. Þeir lögðu líka gjörva
hönd á plóginn í þeim efnum vinir
hans Kristján Gestsson og Ívar
Bjarklind. Næstu árin hverfðist allt
hans líf um fótbolta og handbolta.
„Það voru ekki bara íþróttirnar
sjálfar, heldur ekki síður félags-
skapurinn. Mörgum af mínum bestu
vinum kynntist ég í kringum fótbolt-
ann eða handboltann. Má þar nefna
aldavini mína Birgi Rafn Friðriksson,
Guðmund Þór Guðmundsson og Ás-
geir Ólafsson. Auðvitað hafa margir
bæst í hópinn en þessir menn hafa
verið mínir bestu vinir frá sjö eða
átta ára aldri sem ég tel nokkuð sér-
stakt.“
Foreldrar Höskuldar studdu
dyggilega við bakið á syni sínum í
íþróttaiðkuninni og séra Þórhallur
missti helst ekki af kappleik sem
hann tók þátt í. Klerkur var líka
frægur fyrir að lifa sig inn í leikinn og
hikaði ekki við að láta dómarann
heyra það ef honum fannst á KA-liðið
hallað. Einu sinni þótti dómaranum
nóg um. „Ætli ég hafi ekki verið í
fjórða flokki í fótbolta og það fór ekk-
ert á milli mála að pabbi var í áhorf-
endastæðunum að fylgjast með.
Skyndilega stöðvaði dómarinn leik-
inn, gekk hröðum skrefum að áhorf-
endum og sagði hátt og snjallt: „Nú
þegir þú, séra Þórhallur!“ Síðan hélt
leikurinn áfram eins og ekkert hefði í
skorist. Það var mikill stuðningur að
hafa pabba meðal áhorfenda og ég
svipaðist alltaf um eftir honum.“
Íþróttaæfingar rákust iðulega á
sunnudagaskólann og síðar ferming-
arfræðsluna og tók Höskuldur efnið
fram yfir andann. „Pabbi lét þetta
eftir mér en ég man að hann spurði
mig einu sinni hvernig hann ætti að
fá börn til að koma í sunnudagaskól-
ann ef hans eigin sonur mætti ekki.
Hann lét mér þó valið eftir. Pabbi var
mjög skilningsríkur maður.“
Rauf ættarhefðina
Menntaskólinn á Akureyri var
stofnaður á Möðruvöllum og ætt
Höskuldar hafði meira og minna
stundað þar nám. Eftir grunnskóla-
próf sá hann því sæng sína upp-
reidda. Eftir fyrsta veturinn í MA tók
hann aftur á móti stóra ákvörðun.
„Ég rauf hefðina. Flestir vinir mínir
voru í Verkmenntaskólanum á Ak-
ureyri og mig langaði að verða þeim
samferða. Pabbi tók mig inn á skrif-
stofu og spurði beint út hvort mér
væri fúlasta alvara með þessu. Síðan
fór hann yfir málið, reifaði rökin með
og á móti. Á endanum sagði hann svo:
„Þú ræður þessu.“ Hann treysti mér
eins og alltaf en vildi bara tryggja að
ég væri alveg viss í minni sök.“
Það var heldur ekki eins og Hösk-
uldur væri í vondum höndum. „VMA
er frábær skóli og mér leið mjög vel
þar. Að vísu kláraði ég námið ekki al-
veg á venjulegum hraða en það er
önnur saga,“ segir hann og glottir við
tönn.
Íþróttirnar voru helsti tímaþjóf-
urinn á þessum árum en auk þess að
æfa fótbolta og handbolta af kappi
var Höskuldur í skák. Lengi leit út
fyrir að handboltinn yrði ofan á.
„Ég var farinn að æfa með meist-
araflokki KA sextán ára og fékk
skömmu síðar að spreyta mig með
ágætum árangri. Alfreð Gíslason var
með liðið á þessum tíma og metn-
aðurinn mikill. Ég tók því ákvörðun
um að hætta í fótboltanum.“
En sumt fer öðruvísi en ætlað er.
Sumarið 1992 ákvað Höskuldur að
taka fram takkaskóna og leika með
félögum sínum í 2. flokki. Því lauk
með þeim ósköpum að hann fótbrotn-
aði og var meira og minna frá keppni
í heilt ár.
Þegar Höskuldur náði heilsu á ný
var landslagið gjörbreytt. KA hafði
fallið niður í fyrstu deild í fótbolt-
anum og tekin hafði verið ákvörðun
um að byggja upp nýtt lið skipað
heimamönnum. „Þetta var gríðarlega
spennandi verkefni sem margir góðir
vinir mínir og efnilegir strákar tóku
þátt í, svo sem Ívar Bjarklind, Þor-
valdur Makan Sigbjörnsson, Þórhall-
ur Hinriksson og Sigþór Júlíusson.
Ég einhenti mér því í þetta með þeim
og lék aldrei handbolta framar.“
Höskuldur lék í sex ár með meist-
araflokki KA og segir það hafa verið
mjög skemmtilegan tíma. „Við vorum
alltaf „alveg að fara upp“ en gerðum
það aldrei. Eftir á að hyggja vorum
við kannski of agalausir, gengum
ekki nógu hægt um gleðinnar dyr,“
segir hann sposkur á svip.
Það fór þó svo að Höskuldur
spreytti sig í efstu deild en sumarið
1999 gekk hann í raðir Fram. Lék ell-
efu leiki fyrir félagið og gerði í þeim
tvö mörk. Ásgeir heitinn Elíasson
þjálfaði Fram á þessum tíma og varð
þeim Höskuldi vel til vina. Léku með-
al annars nokkrum sinnum saman
golf. „Ásgeir var ekki bara frábær
þjálfari heldur líka frábær náungi.“
Fimm sinnum undir hnífinn
Þegar hér er komið sögu var Hösk-
uldur á bólakafi í erfiðu laganámi og
fann að þetta tvennt fór ekki saman. Í
stað þess að leggja skóna alfarið á
hilluna tók hann sig aftur á móti til
ásamt nokkrum félögum sínum að
norðan og endurreisti knatt-
spyrnudeild Gróttu á Seltjarnarnesi
sumarið 2000. Liðið var skráð til
keppni í neðstu deild og sáu menn
fram á létt og skemmtilegt sumar.
Það fór á annan veg. Í æfingaleik
gegn KA fyrir mótið sleit Höskuldur
krossband í hné. Draumurinn var úti.
Hann þjálfaði þó lið Gróttu út sum-
arið. Látum árangurinn liggja milli
hluta.
Höskuldur gekkst undir hvorki
fleiri né færri en fimm aðgerðir
vegna meiðslanna og hefur ekki borið
sitt barr síðan. „Það var fyrst í fyrra
að ég byrjaði að spila reglulega aftur.
Ég er einu sinni í viku með gömlum
félögum hér fyrir sunnan og svo fæ
ég að vera í góðum félagsskap sem
heitir „Helgi magri“ með gömlum
kempum á borð við Halldór Áskels-
son og Siguróla „Mola“ Kristjánsson
og Eggert Sigmundsson þegar ég er
fyrir norðan. Ég smellpassa inn í
þann hóp. Andlega getan er á yf-
irsnúningi en líkaminn ekki lengur til
staðar,“ segir hann og hlær. Gott
keppnisskap hverfur aldrei.
Höskuldur hugsar þó ekki með
söknuði til sparkáranna. „Þetta var
orðið gott. Það var gaman meðan á
því stóð en í dag er afar erfitt að sam-
eina fótbolta í efstu deild og krefjandi
nám eða starf.
Ég tala nú ekki um starfið sem ég
gegni í dag. Auðvitað fæ ég stundum
sterka löngun til að spila fótbolta en
hún líður hratt hjá þar sem ég veit að
líkaminn ræður ekki við það.“
Þórey, eiginkona Höskuldar, er
viðskiptafræðingur að mennt og
starfar hjá Landsbankanum. Þau
kynntust á Akureyri árið 1992. „Ég
fór yfir lækinn og náði mér í Þórs-
ara,“ rifjar Höskuldur upp glettinn.
„Ég sé svo sannarlega ekki eftir því.
Eyja er stoð mín og stytta og heldur
mér við efnið geri ég mig líklegan til
að hlaupa fram úr mér.“
Pabbi minn er
framsóknarmaður!
Eins og fyrr segir hefur fjöl-
skyldan stækkað hratt síðustu árin.
„Börnin gefa lífi okkar mikla fyllingu.
Stelpurnar eru ótrúlega magnaðar.
Það er mjög gaman að spjalla við
þær. Ég spurði þá eldri um daginn
hvað mamma og pabbi gerðu. Hún
hugsaði sig um smástund en sagði
svo: „Mamma er alltaf á fundum og
pabbi er leikari.“ Leikari, spurði ég
hvumsa, hvar þá? „Í Þjóðleikhúsinu
eða á Alþingi eða eitthvað svoleiðis.“
Þetta var meinfyndið. Út á við segir
hún samt alltaf að pabbi sinn sé fram-
sóknarmaður.“
Þrátt fyrir að vera með lögheimili í
Reykjavík lítur Höskuldur svo á að
hann sé með tvöfalda búsetu. Hann
þarf nefnilega að ferðast mikið norð-
ur yfir heiðar til að sinna sínu kjör-
dæmi og á í örugg hús að venda hjá
móður sinni á Akureyri. „Það er ætl-
ast til að ég sé mikið í kjördæminu og
ég held ég geti fullyrt að ég hafi verið
þar eitthvað í hverri einustu viku síð-
an ég settist á þing. Þegar í ljós kom
að ég yrði með annan fótinn fyrir
norðan henti mamma leigjandanum
bara út,“ segir hann hlæjandi.
Faðir og hluti systkina Þóreyjar
eru líka búsett nyrðra, auk margra
vina þeirra skötuhjúa, þannig að fjöl-
skyldan reynir í heild að verja þar
eins miklum tíma og kostur er. „Stór-
fjölskyldan er mjög samheldin og
kemur til að mynda alltaf saman um
jól og páska. Að vísu búa báðar syst-
ur mínar í Reykjavík um þessar
mundir sem er hið allra besta mál.“
Missti föður sinn 22 ára
Stórt skarð var höggvið í fjölskyld-
una haustið 1995 þegar séra Þórhall-
ur andaðist, rétt tæplega 53 ára að
aldri. Banamein hans var hjartaáfall.
Fráfall hans kom á óvart en eftir á að
hyggja segir Höskuldur ýmis teikn
hafa verið á lofti um heilsubrest.
„Pabbi hafði fengið aðvörun og
nokkrum vikum áður en hann dó var
hann lagður inn á spítala til rann-
sókna. Læknarnir ráðlögðu honum
að hvíla sig en hann útskrifaði sig
sjálfur af spítalanum. Hafði engan
tíma til að vera veikur. Hann var vin-
sæll og góður prestur og fólk leitaði
fyrir vikið mikið til hans. Pabbi kunni
ekki að segja nei við fólk. Líklega
hefur það orðið honum að falli.“
Höskuldur segir föður sinn hafa
unnið alltof mikið. Nokkuð sem hann
hefur síðar reynt á eigin skinni. „Við
pabbi erum um margt líkir. Ef ég er
byrjaður á einhverju vil ég klára það,
sama hvað það kostar. Alveg eins og
hann. Ég minni mig hins vegar reglu-
lega á að forsenda þess að halda
heilsu er að hvílast vel á milli verka.“
Höskuldur segir fráfall föður síns
hafa haft djúpstæð áhrif á sig. „Ég
var ekki nema 22 ára og þetta var
mikið áfall. Hann var ekki bara góður
faðir heldur góður vinur líka. Ég gat
borið allt undir hann. Ég upplifi
ennþá að ég geti talað við hann, sér-
staklega þegar ég þarf að taka erf-
iðar ákvarðanir. Þá sest ég í hug-
anum inn á skrifstofu til hans og við
förum yfir málin, rökin með og á
móti. Þetta róar mig. Ég hugsa til
pabba á hverjum degi.“
Ætlaði að verða lögmaður
Höskuldur lauk lögfræðiprófi frá
Háskóla Íslands árið 2003 en um
hálfs árs skeið árið 2001 var hann við
nám í Evrópurétti og alþjóðlegum
einkamálarétti við Lundarháskóla í
Svíþjóð. Að loknu námi gegndi hann
starfi aðstoðarmanns dómara við
Héraðsdóm Reykjavíkur í tvö ár en
árið 2005 hóf hann störf sem lögmað-
ur á Mörkinni, lögmannsstofu. Þar
starfaði hann uns hann var kjörinn á
þing síðastliðið vor.
„Ég ætlaði að verða lögmaður en
get samt ekki neitað því að pólitíkin
blundaði í mér,“ segir Höskuldur
þegar til tals kemur hvort pólitík hafi
verið í hávegum höfð á æskuheimili
hans. „Pabbi var mjög pólitískur og
foreldrar mínir báðir enda þótt þau
störfuðu ekki á vettvangi stjórn-
málaflokks. Það var mikið rætt um
pólitík á heimilinu. Pabbi var í grunn-
inn mikill bóndi og saknaði alltaf
sveitarinnar og hins líkamlega erfiðis
þótt starfið á Akureyri ætti afar vel
við hann. Hann var mikill sam-
vinnumaður.“
Höskuldur rifjar upp að faðir hans
átti um tíma þrjá bíla í senn. Bronco
sem hann spaugaði með að hann not-
aði þegar hann jarðsöng sjálfstæðis-
menn; Volvo sem hann notaði þegar
framsóknar- og jafnaðarmenn voru
lagðir til hinstu hvílu og Volgu sem
séra Þórhallur ók við útfarir komm-
únista.
Volgan, sem komin var til ára
sinna, var þeirrar náttúru að flautan
fór af stað þegar síst skyldi, svo sem
ef bíllinn ók yfir ójöfnu á veginum.
Eina leiðin til að stöðva flautið var að
berja af alefli í stýrið. Það er
skemmst frá því að segja að í einni
líkfylgdinni byrjaði Volgan að þeyta
horn af miklum krafti. Fólki brá vita-
skuld í brún og missti svo alveg and-
litið þegar því var litið til baka og sá
að þar var sjálfur presturinn á ferð.
Það mun hafa verið sjón að sjá séra
Þórhall lumbra í ofboði á stýrinu í
aumingja Volgunni.
„Eftir þetta hætti pabbi að nota
Volguna og gaf mér hana. Raunar
þótti honum alltaf best að ég væri á
henni af bílunum þremur, þar sem
hún náði að hámarki 50 kílómetra
hraða á klukkustund og vó tvö tonn.
Það átti að vera útilokað að ég myndi
slasa mig,“ segir Höskuldur sposkur
á svip.
Alltaf verið framsóknarmaður
Sjálfur kveðst Höskuldur alltaf
hafa verið framsóknarmaður og um
tvítugt byrjaði hann að starfa fyrir
flokkinn nyrðra. Framsóknarflokk-
urinn á sterkar rætur á Akureyri og í
nærsveitum og var mjög öflugur á
þessum tíma. „Þarna er bara besta
fólkið!“ fullyrðir hann.
Höskuldur var áfram viðloðandi
starfið eftir að hann fór suður í laga-
nám og vorið 2003 tók hann að sér
starf kosningastjóra flokksins í Norð-
austurkjördæmi fyrir Alþingiskosn-
ingarnar. „Þetta var þriggja mánaða
törn og okkur gekk mjög vel. Feng-
Morgunblaðið/G.Rúnar
Fjölskyldan Höskuldur ásamt spúsu sinni, Þóreyju Árnadóttur viðskiptafræðingi, og börnunum þremur, Stein-
unni Glóeyju, Fanneyju Björgu og nýfæddum syni. „Börnin gefa lífi okkar mikla fyllingu,“ segir hann.
Í túninu heima Höskuldur ungur að árum á sögubólinu Möðruvöllum í
Hörgárdal. Þar óslt hann upp fram að níu ára aldri og þekkir hverja þúfu.
Barnapían Hundurinn Spori var
aldrei langt undan á æskuárunum.
» Skyndilega stöðvaði
dómarinn leikinn,
gekk hröðum skrefum
að áhorfendum og sagði
hátt og snjallt: „Nú þeg-
ir þú, séra Þórhallur!“
Knattspyrnumaðurinn Höskuldur í
herklæðum KA á Akureyri.