Morgunblaðið - 17.04.2008, Page 35
sex, en nýfæddan son misstu þau.
Það urðu eiginlega tvær kynslóðir
barna. Þau eldri fóru að heiman í
framhaldsnám, yngri börnin voru
heima þannig að enn var nóg að gera.
Fóstursynir voru tveir.
Á sumrin eftir 1973 leyfðu þau sér
að ferðast pabbi og mamma og létu
mér heimilið eftir við mismiklar vin-
sældir litlu systkina minna. Barna-
börn fæddust og sum nutu uppeldis
ömmu og afa fyrstu árin.
Að loknu ævistarfi fluttu þau í
Hveragerði – og undu sér vel. Pabbi
dó árið 2000 og hafði árin á undan
ekki gengið heill til skógar. Mamma
bjó áfram á heimili sínu til æviloka.
Síðustu árin glímdi hún við erfiðan
lungnasjúkdóm. Með sinni ótrúlegu
seiglu og viljann að vopni átti hún
góða daga. Hún stóð ekki ein. Hún
átti marga að enda hafði hún unnið til
þess. Hún hélt góðu sambandi við
systkini sín og marga vini sína. Hún
hafði ótrúlegt tengslanet og frábæra
samskiptahæfileika. Mamma var afar
falleg og glæsileg kona og bar veik-
indi yngri ára ekki utan á sér.
Allir afkomendurnir voru henni
ástfólgnir. 12 þeirra sátu við dánar-
beð hennar – og við vissum að hún
fengi góða heimkomu.
Þessar ljóðlínur eftir Örn Arnar-
son kenndi hún mér sem barni þegar
hún lýsti sorg sinni við móðurmiss-
inn.
Þá vildi ég móðir mín,
að mildin þín,
svæfði mig svefninum langa …
Og kannski var það hún Imba
amma sem sótti sál dóttur sinnar með
honum Kjartani hennar.
Vertu kært kvödd mamma mín og
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Blessuð sé minning þín.
Þín dóttir
Ingibjörg Þorgerður (Imba).
Elsku amma.
Margar minningar koma í hugann
á þessari stundu og erfitt er að henda
reiður á þeim öllum. Allar stundirnar
sem ég átti með þér á Kolfreyjustað
þar sem við gerðum ýmislegt saman
og þú kenndir mér svo margt. Við
bökuðum, elduðum, lásum, spjölluð-
um saman ásamt því að vinna hin
ýmsu verk sem til féllu á heimilinu.
Þú sast aldrei auðum höndum en allt-
af hafðir þú tíma fyrir að spjalla við
litlu forvitnu stúlkuna sem var á
vappi í kringum þig.
Eitt af því sem mér fannst
skemmtilegt að gera með þér var að
taka á móti gestum á Kolfreyjustað.
Þú varst mjög gestrisin og gerðir allt
til að gestum liði vel hjá þér og tókst
það ætíð. Þá fékk ég að ganga um
beina og aðstoða þig. Það fannst mér
vera toppurinn á tilveru minni.
Eftir að ég átti börnin mín þá
hringdir þú reglulega til að fylgjast
með okkur og fá fréttir af okkur,
hvernig börnin hefðu það, hvort þau
döfnuðu ekki vel. Ég er mjög glöð
með síðustu samverustund okkar þar
sem þú hittir litla drenginn minn en
þú hafðir fylgst með honum reglulega
frá því hann fæddist.
Elsku amma mín ég veit að nú ertu
komin til afa og að nú líður ykkur vel
saman aftur á ný.
Takk fyrir allt sem þú kenndir
mér, takk fyrir allt sem þú sagðir mér
og takk fyrir að vera amma mín.
Þín,
Þórhildur.
Elsku amma. Við viljum þakka þér
allar yndislegu minningarnar sem við
eigum um þig. Alltaf var heimilið þitt
opið fyrir okkur og fyrir sum okkar
var það eins og okkar annað heimili.
Þú varst alltaf með allt á hreinu um
fjölskylduna þína, hafðir alltaf fréttir
að færa þegar við hittumst, eða
heyrðum í þér, barnabörnin og lang-
ömmubörnin voru svo greinilega í
uppáhaldi hjá þér. Þú varst alltaf svo
fín og flott og passaðir vel að allt í
kringum þig væri hreint og fínt. Það
verður erfitt að keyra fram hjá
Hveragerði núna og ekki geta komið
við í Kambahrauninu og sjá þig sitj-
andi við eldhúsborðið með gleraugun
á nefinu að lesa Moggann og heyra
góðlátlegt malið í vélinni þinni, að fá
ekki að sjá brosið sem færðist yfir
andlitið á þér þegar við komum við,
sérstaklega þegar Viktoría Líf, lang-
ömmubarnið þitt, var með í för.
Minningarnar eru margar sem hell-
ast yfir okkur núna, eins og þegar þú
komst til okkar út í eyjar til að halda
með okkur jól, þegar þú bjóst hjá
okkur á Seljaveginum meðan afi var
veikur og var á Landspítalanum, við
dáðumst að því hvað þú varst sterk
þá, þú varst hans, og okkar, stoð og
stytta.
Í vetur gat ég sagt með sanni:
Svart er yfir þessu ranni.
Sérhvert gleðibros í banni,
blasir næturauðnin við.
Drottinn, þá er döprum manni
dýrsta gjöfin sólskinið!
(Stefán frá Hvítadal)
Elsku amma, takk fyrir allt og allt,
við elskum þig.
Þín ömmubörn
Kjartan, Ragnar, Styrmir
og Jóhanna.
Elsku amma Dídí, mig langaði í fá-
einum orðum að fá að kveðja þig. Ég
kynntist þér fljótlega eftir að ég tók
saman við barnabarn þitt Kjartan og
urðum við fljótt góðar vinkonur.
Ég hafði alltaf gaman af heim-
sóknum mínum í Kambahraunið, þú
tókst alltaf vel á móti okkur og þú
varðst alltaf mjög glöð þegar Vikt-
oría Líf var með í för, litla langömm-
ustelpan sem þér þótti svo vænt um.
Þú hafðir frá miklu að segja og
fékk ég að heyra mikið frá Kol-
freyjustað sem þér leið afskaplega
vel á.
Einnig töluðum við oft saman í
síma og fékk ég iðulega þá spurn-
ingu hvort hún Viktoría Líf væri ekki
örugglega enn með fallega rauða
hárið sitt.
Ég fékk einnig þann heiður að
kynnast sr. Þorleifi manninum þín-
um sem dó árið 2000. Ég gleymi
aldrei fyrsta skiptinu sem ég hitti
hann, hann sat í stól í stofunni í
Kambahrauni og stóð upp til að
heilsa mér og ég hreinlega hélt að
hann ætlaði aldrei að hætta að
standa upp, svona stóran mann hafði
ég aldrei séð áður.
Ég kveð þig með söknuði og þakka
fyrir þær stundir sem við áttum
saman.
Kristín Eva.
Sæmdarkona er fallin frá, lífs-
reynd og hreinskiptin. Þórhildur eða
Dídí eins og við kölluðum hana var
ósérhlífin og einstaklega trúföst
kona. Við minnumst hennar með
kærleik í hjarta. Við töluðum saman
oft í viku í síma, Dídí vildi fá fréttir af
fjölskyldu og vinum. Við minnumst
ferðanna til Hveragerðis, hvíti
skeljasandurinn í skottinu frá Garð-
skaga en skeljasandurinn heillaði
Dídí frá barnæsku. Hvergi er hægt
að fá svona fallegan og hvítan sand,
sagði hún. Þegar hún bjó á Kol-
freyjustað sendum við henni sand
með báti. Mikið var gaman að geta
gert henni greiða, hún var alltaf
þakklát og lét í ljós tilfinningar sem
merluðu í hjarta hennar, sennilega
bernskuminningar úr Garðinum.
Á þriðjudags- og laugardags-
kvöldum heyrum við hjónin og sjáum
systur okkar í Kaliforníu í gegnum
tölvuna. Á fallegu þriðjudagskvöldi
síðasta sumar kom Dídí við í Garð-
inum ásamt Helgu dóttur sinni og
hitti systkini sín í Flösinni á Garð-
skagavita, stað sem henni þótti vænt
um. Glatt var á hjalla og tilfinninga-
þrungin stund ríkti þegar hún kom
við í Kríulandinu og sá Öllu og Svövu
systur sínar í tölvunni, hún gat talað
við þær, kvöldstund sem aldrei
gleymist, þvílík tækni. Mæt og
merkileg kona er farin, hetja sem
unni sínum. Elsku systir, við þökk-
um liðnar stundir, þú lifir í minning-
unni. Alla og Svava í Californiu biðja
fyrir samúðarkveðjur til aðstand-
enda, einnig Guðrún Eyjólfsdóttir í
Pennsylvaníu.
Hvíl þú í friði, kristna sál.
Eyjólfur Gíslason og fjölskylda.
Byrði betri
berr-at maðr brautu at
en sé mannvit mikit;
(Úr Hávamálum)
Þórhildur Gísladóttir, dyggur vin-
ur og félagi, er horfin af sjónarsvið-
inu, en ekki úr huga og hjarta okkar
sem áttum með henni samleið á
langri vegferð.
Við Þórhildur áttum báðar
bernsku okkar við ómælda víðáttu
hafs og himins sem mættust við sjón-
deildarhring í órafjarlægð frá lágri
strönd, sitthvorumegin við flóann
sem geymdi lífsbjörgina.
Þórhildur var þriðja elst fjórtán
barna foreldra sinna og fyrsta stúlk-
an í hópnum. Ég var elst fimmtán
barna foreldra minna. Aldrei hvarf
mér ættingi á æskuárum, en Þór-
hildur og stóri systkinahópurinn
hennar missti móður sína, þá öll inn-
an við fermingu. Elstu börnin þá
þrettán, tólf og ellefu ára. Þórhildur
ellefu ára. Hópurinn dreifðist á
bæina í kring. Í Garðinum bjó gott
fólk. Elstu börnin þrjú fengu að vera
hjá föður sínum, honum til halds og
trausts, enda dugleg og sjálfbjarga.
Þetta var á þeim árum þegar
berklarnir geisuðu um landið og
lögðu að velli ómældan fjölda æsku-
fólks og aldraðra. Gísli, faðir Þór-
hildar, reyndist sýktur og var sendur
á hæli þar sem hann var næstu tvo
tugi ára eða þangað til lyfin komu.
En það var ekki bara Gísli sem var
lagður inn. Nei, börnin hans tíndust
þangað eitt og eitt og voru ýmist úti
eða inni.
Þessu undarlega lífi kynntust allir
sem lentu á hælinu. Sundraði systk-
inahópurinn hennar Þórhildar háði
sína hörðu baráttu, en allir sem lifðu
komust vel til manns. Þórhildur
barðist lengst og harðast. Hennar
hlutverk var líka að halda hópnum
saman. Öll tengdust þau henni og sú
taug slitnaði aldrei, hversu dreifð
sem þau voru.
Á hælisárunum stóð Þórhildur í
fremstu víglínu í baráttu fyrir betra
lífi berklasjúklinga. Hún fyllti þann
hóp sem stofnaði SÍBS. Þetta var
glaður, bjartsýnn, óbugaður og
sterkur hópur sem hrósaði sigri í
harðri baráttu þegar Reykjalundur
reis frá grunni. Þar áttum við Þór-
hildur athvarf og endurhæfingu vísa
þegar í nauðir rak.
En Þórhildur átti fleiri líf. Þegar
Reykjalundur var risinn og Þórhild-
ur búin að ganga í gegn um rifja-
skurð og lungnapressu, svokallaða
höggningu, giftist hún séra Þorleifi
Kristmundssyni, prófasti á Kol-
freyjustað við Fáskrúðsfjörð. Þar
nutu þau hjónin lífsins í ríkum mæli.
„Engin börn Þórhildur mín, engin
börn, of mikið álag, of mikil áhætta.“
Þórhildur brosti þegar hún vitnaði í
þessi orð læknanna sem höfðu ann-
ast hana. Þau hjónin eignuðust fimm
börn, glæsileg og vel af Guði gerð.
Auk þess ólu þau upp tvö til viðbótar
auk allra barnanna sem áttu hjónin
að þegar nauðsyn krafði.
Þórhildur hafði meðal annars lært
kjólasaum og bjó að því þegar börnin
komu. Fatnaður þeirra bar af og allt
heimagert. Það hráefni sem barst
henni til matargerðar var vel nýtt og
veislukostur gjarnan á borðum hjá
prófastsfrúnni. Allar stundir á Kol-
freyjustað voru Þórhildi ómetanleg-
ar. Þar komst hún í snertingu við líf-
ið sjálft. Þórhildur elskaði lífið í allri
sinni mynd. „Sjáðu,“ sagði hún og
sýndi mér myndir úr æðarvarpinu.
„Við hjónin þurftum aldrei að fórna
lífi eða lóga dýri. Bara hlúa að lífinu
og njóta þess.“
Þagalt ok hugalt
skyldi þjóðans barn
ok vígdjarft vera;
glaðr ok reifr
skyli gumna hverr,
uns sinn bíðr bana.
(Úr Hávamálum)
Ég kveð Þórhildi vinkonu mína
með virðingu og þakklæti og sendi
öllum afkomendum hennar einlægar
samúðarkveðjur.
Rannveig Löve.
Sumar manneskjur hafa meiri
áhrif á mann en aðrir. Amma mín,
Þórhildur Gísladóttir, var ein þeirra.
Hún var mér afar kær og ég á eftir
að sakna hennar mikið.
Amma var lengst af prestsfrú á
Kolfreyjustað þar sem afi minn heit-
inn, Þorleifur Kjartan Kristmunds-
son, var prestur. Hún sinnti með
sóma stóru heimili þar sem ætíð var
líf og fjör. Á sumrin var mikill gesta-
gangur hjá þeim hjónum. Þegar
hvert rúm var skipað var tjaldað úti í
garði og við krakkarnir sváfum þar.
Án fyrirhafnar voru töfraðar fram
dýrindisveitingar og oft var þéttset-
inn bekkurinn við matarborðið. Í
minningunni var alltaf sól og gott
veður á Kolfreyjustað, enda hvergi
betra að vera en þar.
Amma var einkar glæsileg kona,
hún minnti einna helst á kvikmynda-
stjörnu svo fögur var hún. Þegar ég
var lítil var ég dauðhrædd um að allir
piparsveinarnir í sveitinni væru
skotnir í henni, því þeir gáfu henni oft
fallegar gjafir. Amma hló þegar ég
bar þessar áhyggur mínar undir
hana, enda hvarflaði slík vitleysa ekki
að henni.
Amma var hæversk, einstaklega
góðhjörtuð og vildi öllum vel. Hún
var mjög barngóð og hændust börn
að henni. Ég man að amma skamm-
aði mig aldrei, ekki einu sinni ein ára-
mótin þegar ég missti logandi
stjörnuljós á stofuteppið svo það kom
brunagat á það. Amma fann bara
mottu og setti yfir brunagatið.
Æska hennar sjálfrar var ham-
ingjurík framan af þrátt fyrir fátækt
en þegar amma var aðeins 11 ára
missti hún móður sína. Það hafði mik-
il áhrif á hana og hún talaði oft um
hversu mikið áfall það var. Æsku-
heimili hennar leystist upp og við tók
tímabil erfiðleika en amma var þó
alltaf bjartsýn og gerði gott úr erf-
iðum aðstæðum. Amma veiktist ung
af berklum en náði sér á undraverðan
hátt eftir margra ára veikindi. Hún
gekk í gegnum erfiðar læknismeð-
ferðir en sagði sjálf að hún hefði gert
allt til að ná heilsu á ný. Það var ekki
að sjá á þessari glæsilegu konu að
hún hefði misst heilsuna ung að ár-
um. Hún var ávallt teinrétt og tign-
arleg. Þau afi kynntust síðan þegar
hún var orðin 25 ára. Þau sátu bak í
bak á dansleik og tóku tal saman.
Það endaði með hamingjusömu
hjónabandi.
Þegar afi lét af prestskap fluttu
þau amma til Hveragerðis og bjuggu
sér fallegt heimili. Afi lést fyrir tæp-
um átta árum og amma bjó ein eftir
það. Hún sýndi mikinn dugnað og
æðruleysi í eigin veikindum, gafst
aldrei upp þótt á móti blési.
Ég kveð ömmu mína með sorg í
hjarta. Blessuð sé minning hennar.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Sigríður Inga Sigurðardóttir.
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. APRÍL 2008 35
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir,
amma og systir,
KRISTÍN MARTEINSDÓTTIR,
Hafraholti 30,
Ísafirði,
sem lést laugardaginn 5. apríl, verður jarðsungin
frá Ísafjarðarkirkju laugardaginn 19. apríl kl. 14.00.
Minningarathöfn verður í Fríkirkjunni í Hafnarfirði
þann sama dag kl. 16.30.
Svanbjörn Tryggvason,
Brynjar Svanbjörnsson, Bára Berg Sævarsdóttir,
Marteinn Svanbjörnsson, Elín Hólm,
Tryggvi Svanbjörnsson,
Aron Svanbjörnsson,
barnabörn, systkini og fjölskyldur.
✝
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug
við andlát og útför ástkærrar sambýliskonu, móður,
tengdamóður, ömmu, dóttur, tengdadóttur, systur
og mágkonu,
SIGNÝJAR VILHJÁLMSDÓTTUR,
Laugarholti 3d,
Húsavík.
Sérstakar þakkir til starfsfólks Heilbrigðisstofnunar
Þingeyinga fyrir alúð og góða umönnun.
Jóhannes Jóhannesson,
Elísa Rún Heimisdóttir, Þorsteinn Pálmason Axfjörð,
Leifur Þór Heimisson, Lilja Randversdóttir,
Hilmar Henning Heimisson,
Kristófer Daði Axfjörð,
Sigrún Baldursdóttir, Vilhjálmur Jónasson,
Bára Hermannsdóttir, Jóhannes G. Jóhannesson,
systkini og aðrir ástvinir.
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir,
amma og langamma,
EINARÍNA MAGNÚSDÓTTIR,
áður til heimilis að Blikabraut 3,
Keflavík,
lést 10. apríl á hjúkrunarheimilinu Garðvangi.
Jarðsett verður frá Hvalsneskirkju, föstudaginn
18. apríl kl. 11.00.
Samúel Björnsson,
Guðbjörg Samúelsdóttir, Kristján Þórðarson,
Björn Samúelsson, Svanhildur Gunnarsdóttir,
Rósa Samúelsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.