Morgunblaðið - 15.05.2008, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 15.05.2008, Blaðsíða 18
18 FIMMTUDAGUR 15. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ MENNING Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is ENDURKAST er yfirskrift sýningar sem opnuð verður í Þjóðminjasafninu kl. 17 á morgun. Þar verða ljósmyndir eftir átta ljósmyndara úr nýstofnuðu félagi þeirra: Félagi íslenskra sam- tímaljósmyndara. Sýningarstjórar eru Þorbjörg B. Gunnarsdóttir og Inga Lára Baldvinsdóttir. Inga Lára segir sýninguna helgaða listrænni ljósmyndun. Ljósmyndararnir átta eru Bára Kristinsdóttir, Bragi Þ. Jós- efsson, Einar Falur Ingólfsson, Ívar Brynjólfsson, Katrín Elvarsdóttir, Pétur Thomsen, Spessi og Þórdís Erla Ásgeirsdóttir. Aðspurð um bakgrunninn og hug- myndina að sýningunni, segir Inga Lára að það fyrsta sem sameini lista- mennina sé sú staðreynd að þeir eru ljósmyndarar. „Þetta eru ljósmynd- arar sem sinna listsköpun, en ekki listamenn sem taka ljósmyndir við myndlistarsköpun. Þetta er mikill orðaleikur á íslensku. Innan þessa ramma er fólk svo að gera mjög ólíka hluti,“ segir Inga Lára og tekur nokkur dæmi: „Bragi Þór Jósepsson var fyrir til- viljun að taka myndir á Keflavíkur- flugvelli eftir að herinn var nýfarinn. Hann ákvað þá að fara í heimilda- vinnu þar, meðan svæðið var allt tómt og áður en farið var að nota það undir annað. Hann er með seríu af vell- inum. Pétur Thomsen dvaldi fyrir nokkr- um árum á eyju við Pétursborg í Rússlandi. Hann sýnir umhverf- ismyndir þaðan. Eitt verkið sker sig alveg frá hin- um. Það er verk Einars Fals, mjög persónulegt, og sýnir föður hans á dánarbeði. Þetta eru ólíkar mynda- syrpur og ekki um það að ræða að ljósmyndararnir vinni út frá sameig- inlegum hugmyndum.“ Yfirleitt ekkert fólk En hvað segja myndirnar okkur um listræna ljósmyndun á Íslandi í dag? Inga Lára er spurð að því hvað hún lesi um það úr verkunum á sýn- ingunni. „Það sem mér finnst ein- kenna þessa samtímaljósmyndara er, að það er yfirleitt ekkert fólk í þeirra myndum. Þau eru ekki að mynda samfélagið eða samfélagsþróunina, nema þá umgjörðina úr fjarlægð. Þetta eru ekki heimildaljósmyndir, þótt slíkar myndir geti alveg verið byggðar á listrænum grunni. Þá er þetta líka að vissu leyti landamæralaus list. Ef við vissum ekki að þetta væru Íslendingar, þá gætu þessar myndir verið teknar af ljósmyndurum hvar sem er í Vestur- Evrópu.“ Inga Lára áréttar að ljósmynd- urunum í hópnum hafi fundist ljós- myndin sem myndlist eiga undir högg að sækja. Hún nefnir þó viðtöl við listamennina sem hafa verið í Les- bók í vetur, þar sem þeir hafi viðrað sýn sína á eigin ljósmyndun og stöðu listrænnar ljósmyndunar á Íslandi. Samtímis opnar sýning franska ljósmyndarans Thomas Humery, Í þokunni, með myndum sem hann hef- ur tekið á Íslandi á síðustu árum. Málþing á laugardag Á laugardaginn kl. 11–17 verður efnt til málþings í tengslum við sýn- inguna, um íslenska samtíma- ljósmyndun og viðfangsefnið reifað frá ýmsum hliðum. Inga Lára tekur dæmi: „Sigurjón Baldur Haf- steinsson mannfræðingur er einn frummælenda. Hann ræðir stöðu fréttaljósmyndunar í dag. Það verður að segjast eins og er að staða hennar hefur versnað til muna ef horft er tíu ár aftur í tímann. Í þá daga sá fólk til dæmis mun oftar stærri ljós- myndagreinar í Morgunblaðinu en er í dag. Ég man eftir myndröðum þar sem ljósmyndarar Morgunblaðsins tóku fyrir ákveðin efni og fylgdu til dæmis hjartaþega eftir eða unnu ljós- myndaverkefni erlendis. Þetta var gríðarlega öflug samtímaljósmyndun og sterk,“ segir Inga Lára. Eru þetta Íslendingar? Aðrir fyrirlesarar eru Annette Rosengren safnvörður við Nordiska Museet í Stokkhólmi sem fjallar um verkefni sem er unnið af áhuga- ljósmyndurum, -rithöfundum og söfnum; Linda Ásdísardóttir ís- lenskufræðingur og safnvörður sem varpar fram spurningunni: Eru þetta Íslendingar? Hún ber saman ljós- myndabækurnar Íslendingar með ljósmyndum Sigurgeirs Sigurjóns- sonar og Rætur rúntsins eftir hol- lenska ljósmyndarann Rob Hornstra. Persónusköpun beggja ljósmyndara byggist á tengingu manns við um- hverfi sitt og Linda veltir því fyrir sér hvað gerist þegar náttúran er afmáð úr persónuleika Íslendings. Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur kallar erindi sitt: Heimilisleysi og bú- ferlaflutningar og spyr hver staða ljósmyndarinnar sé innan íslenskrar sjónlistasögu. Hjálmar Sveinsson út- varpsmaður skoðar landið og sam- félagið eins og það endurspeglast í ljósmyndabókum, en í lokin segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminja- vörður frá fyrstu verkefnaráðningu Þjóðminjasafns Íslands í samtíma- ljósmyndun. Það er Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafninu sem stendur að sýningunni og málþinginu í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en hvort tveggja er liður í Listahátíð í Reykjavík. Listahátíð í Reykjavík | Íslenskir samtímaljósmyndarar í Þjóðminjasafninu Þetta eru ljósmyndarar sem sinna listsköpun Beita Mynd eftir Báru Kristinsdóttur. Simulacra Mynd eftir Katrínu Elvarsdóttur. Il y a Úr myndröð Péturs Thomsens frá Kronstadt í Rússlandi.Í TILEFNI af sýningu ljósmynd- aranna átta í Þjóðminjasafninu kemur út vegleg sýningarbók með myndum þeirra og viðtölum sem Sigrún Sigurðardóttir sagnfræð- ingur tók við þá. Viðtölin hafa birst í Lesbók Morgunblaðsins í vetur, en ritstjórar bókarinnar eru Inga Lára Baldvinsdóttir og Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir. Inngang ritar Hjálmar Sveinsson. Bók með mynd- um og viðtölum ÉG hef lengi verið talsmaður þess að Vesper eftir Rachmaninoff væri flutt hér á landi, enda eitthvert fegursta kórverk sögunnar. Tónleikar í Hall- grímskirkju mánudaginn 12. maí voru því kærkomnir, en þar flutti Mótettukór kirkjunnar verkið í heild sinni. Er það í fyrsta sinn sem ég heyri tónlistina í lifandi flutningi á Ís- landi. Hljómeyki frumflutti hana reyndar hérlendis í desember sl. en því miður missti ég af því; gaman hefði verið að bera þá túlkun saman við tónleikana nú. Rachmaninoff byggði Vesper að miklu leyti á gömlum sálmalögum eða kirkjutóni, en laglínur í verkinu sem hann sjálfur samdi eru einnig sterklega í anda rússnesku rétttrún- aðarkirkjunnar. Engu að síður var hann fyrst og síðast síðrómantíker og það vill stundum gleymast þegar Vesper er flutt. Ég hef heyrt all- nokkrar upptökur af verkinu þar sem einhvers konar tilfinningadofinn helgislepjudrungi svífur yfir vötn- unum, en það gerir tónlistina auðvit- að karakterlausa, jafnvel leiðinlega. Fyrir utan þetta er Vesper ekki auðveld tónlist í flutningi, tæknilega séð. Sumt í kórhlutanum er ein- staklega flókið og má lítið bregða út af til að útkoman bjagist. Auk þess þarf óvanalega djúpan bassa í suma kaflana og slíkir menn eru ekki á hverju strái. Það er því einkar ánægjulegt að geta sagt frá því að söngur Mót- ettukórsins kom undursamlega vel út undir nákvæmri, en tilfinn- ingaþrunginni stjórn Harðar Áskels- sonar. Söngurinn var í senn tær og kraftmikill, bæði fagurlega inn- hverfur og gæddur sprengikrafti. Jafnvægið hélst ávallt á milli ástríðu- þrungins trúarhita og nostalgískrar endurómunar hefða frá fyrri öldum. Aðeins innblásinn stjórnandi á borð við Hörð er fær um að galdra slíkan hljóm út úr kórnum. Á tónleikunum var verkið fleygað með tónlesi, sem var að mestu í hönd- unum á Vladimir Miller bassa. Tón- lesið kom ágætlega út og setti músík- ina í rétt samhengi. Segja má um Miller að hann sé ofurbassi, hann hefur óvanalega djúpa rödd, og skap- aði hún einstæða stemningu í kirkj- unni. Bassaröddin var líka óspart notuð í sjálfu verkinu. Reyndar man ég ekki eftir öllum þessum bassalínum í þeim upptökum sem ég hef heyrt, en þegar haft er í huga að Rachmaninoff sjálfur og nokkrir kollegar hans úr píanódeildinni skreyttu oft hinar og þessar tónsmíðar með aukaáttundum í bassa fyrirgefst það auðveldlega. Miller stóð sig í öllu falli með mikilli prýði og átti stóran þátt í því hve flutningurinn á verkinu var í heild magnaður. Aðrir einsöngvarar voru Nebojsa Colic tenór og Auður Guðjohnsen alt. Colic hefur safaríka, bjarta rödd sem hæfir vel tónlist af þessum toga. Hins vegar gætti nokkurs taugaóstyrks í söng hans, sem olli því að hann var ekki alltaf hreinn. Auður söng aftur á móti sérlega fallega og skilaði sínu litla hlutverki með sóma. Í það heila voru þetta glæsilegir tónleikar, og er aðstandendum hér með þakkað fyrir að leyfa íslenskum tónlistarunnendum að heyra svona snilldarlega tónlist í vönduðum, lif- andi flutningi. Það er tækifæri sem því miður gefst ekki oft. Og þó: Hljómeyki mun flytja Ve- sper eftir Rachmaninoff í Skálholti í sumar, svo kannski maður eigi eftir að heyra þessa himnesku tónsmíð oft í framtíðinni. Já, vonandi! Ofurbassi í Hallgrímskirkju Jónas Sen TÓNLIST Hallgrímskirkja Vesper eftir Rachmaninoff í flutningi Mótettukórs Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar. Einsöngvarar: Vla- dimir Miller, Nebojsa Colic og Auður Guð- johnsen. Mánudagur 12. maí. Kórtónleikarbbbbm

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.