Náttúrufræðingurinn - 1962, Síða 27
NÁTTÚRUFRÆÐIN GURINN
121
blágrenitré, sem eru yfir meter á hæð. Gamla rauðgrenið á Hall-
ormsstað hefur borið þroskað fræ a. m. k. einu sinni, ef ekki oftar.
Stafafura á sama stað, sem gróðursett var 1940, hefur borið þroskað
fræ nokkrum sinnum. Sú fura er frá Smithers í British Columbia,
en sá staður er nærri 600 metra yfir sjó. Fjallafuran á Grund og
við Þingvöll hefur borið þroskað fræ nokkrum sinnum og sáð sér
sjálf. Sitkagreni í Múlakoti og Hveragerði, sem er nú um 25 ára,
hefur hvort tveggja borið fræ nokkrum sinnum, og hafa plöntur
verið aldar upp af því. Þá hefur og síbiriska lerkið frá Arkangelsk
borið þroskað fræ einu sinni, svo sem áður er getið, og ennfremur
alaskaöspin í Múlakoti.
Melgresi og lúpina.
En það eru ekki einungis tré, sem reynd hafa verið hér frá þess-
um stöðum og öðrum, heldur og fjöldi runna og jurta og nokkur
grös. Of langt væri að telja það allt saman upp, en til fróðleiks
má nefna tvennt. Annað er melgresistegundin Elymus mollis, Hult.,
sem tekin var í Collegefirði í Alaska skammt norðan við 61.
breiddarbauginn árið 1945. Þessi tegund þrífst ágætlega hér. Blómg-
un og kornþroski er samtímis innlenda melgresinu, en tegundin
er nokkru stórvaxnari en hin innlenda, með breiðari og mýkri
blöð.
Samtímis var flutt hingað lúpínutegundin Lupinus nootkatensis,
Donn, sem vex um allan suðurhluta Alaska. Hún var tekin á
sama stað. Hér eru ekki til neinar sambærilegar innlendar plönt-
ur, svo að ekkert er að miða við annað en blómgunartíma og fræ-
þroska, auk vaxtar. Lúpínan byrjar að blómgast um mánaðamótin
maí og júní og fyrstu fræin þroskast í lok júlí. Lúpínan ber fræ á
hverju ári og stendur fræfallið yfir allt fram í september. Plantan
sáir sér ört af sjálfsdáðum, einkum á mela og gróðurlaus lönd.
Dæmi eru til að lúpínan hafi breiðst út um melkolla, þar sem
engin innlend planta hafði nokkra möguleika til að nema land.
Blaðvöxtur og rótarvöxtur plöntunnar er miklu meiri en venjulegt
er á íslenzkum jurtum, og þar sem plantan vinnur köfnunarefni
úr lofti samtímis því að rætur hennar fara djúpt í jörð, er ekki
vafi á, að hér er um mikla nytjajurt að ræða fyrir uppgræðslu eyddra
landa, en það er önnur saga og utan við efni þessarar ritsmíðar.