Náttúrufræðingurinn - 1997, Blaðsíða 64
skoðanabræður hans báru mendelmorgan-
ista þungum sökum - kenningar þeirra
samræmdust hvorki díalektískri efnis-
hyggju né darwinisma og skiluðu í ofaná-
lag litlum hagnýtum árangri.
Hermann Muller sat fundinn og lagði
áherslu á litningarannsóknir og þann ár-
angur sem þær hefðu skilað. Meðal ann-
arra fundarmanna sem héldu uppi vörnum
fyrir mendelska erfðafræði var Vavilov.
Hann sætti þar harðri gagnrýni fyrir lítinn
hagnýtan árangur í plöntukynbótum en
svaraði með því að allar framfarir í jurta-
kynbótum í Rússlandi styddust við hug-
myndir hefðbundinnar erfðafræði, hvað
sem gagnrýnendurnir segðu. Eftir fundinn
var staða Vavilovs samt mjög ótrygg þótt
nokkur ár liðu áður en honum væri endan-
lega velt úr sessi.
A næstu árum herti Lysenko enn sókn
sína gegn mendelmorganistunum og boð-
aði meðal annars að kynþáttakenningar
nasista mætti rekja beint til hugmynda
þeirra. Hann krafðist þess að bannað yrði
að halda falskenningum vestrænnar erfða-
fræði að nemendum í sovéskum mennta-
stofnunum.
A fundi í Landbúnaðarakademíu Leníns
í Moskvu 1948 laust enn saman fylkingum
Lysenkos og erfðafræðinga af gamla skól-
anum. Meðal annars bar Lysenko á and-
stæðinga sína að þeir hel'ðu brugðist þjóð
sinni á örlagastundu, lokað sig inni í ffla-
beinsturnum fræða sinna við fánýt störf
eins og talningu á hlutfalli afbrigða ban-
anaflugna, meðan michurinlíffræðingarnir
hefðu hjálpað bændum að auka uppsker-
una og stuðlað með því að sigri yfir inn-
rásarherjum nasista.
í fundarlok tilkynnti Lysenko að
miðstjórn Kommúnistaflokks Sovétríkj-
anna hefði ákveðið að michurinlíffræðin
væri rétt stefna í erfðafræði, sem beita
skyldi við rannsóknir og kenna í skólum
landsins. Létu andstæðingar hans þá af
gagnrýninni, enda var hún orðin tilgangs-
laus og auk þess hættuleg. Viðbrögðum
fundarmanna var svo lýst í Prövdu:
„Fundarmenn fögnuðu tilkynningu forsetans
[Lysenkos]: Þeir risu sem einn maður úr sætum
og hylltu lengi og ákaft miðstjórn flokks Leníns
og Stalíns, fögnuðu hinum vitra leiðtoga og
læriföður sovétþjóðanna, mesta fræðimanni
vorra tíma, félaga Stalín..." (Gardner 1957,
bls. 145.)
Lysenko var sýndur margs konar sómi.
Hann var sæmdur Lenínorðunni, hlaut í
tvígang æðstu verðlaun Stalíns og var um
skeið varaforseti Æðstaráðs Sovétríkjanna.
Allar erfðafræðirannsóknir og plöntukyn-
bætur í rannsóknastofnunum og á sam-
yrkjubúum skyldu vera í samræmi við
fræði hans, sem voru auk þess kennd í
öllum skólum Sovétríkjanna. Hins vegar
virðist hafa gengið illa að innleiða
michurinlíffræði í háskóla og vísinda-
stofnanir á áhrifasvæði Rússa í Austur-
Evrópu.
Einn þáttur í kenningum Lysenkos og
fylgismanna hans var að einstaklingar
sömu tegundar kepptu ekki innbyrðis.
Þetta bitnaði meðal annars á skógrækt.
Árið 1948 voru uppi áform um ræktun víð-
áttumikilla nytjaskóga í Síberíu. í sam-
ræmi við kenninguna var fræjum einnar
trjátegundar sáð mjög þétt. Var talið að
veikari plönturnar myndu veita hinum
sterkari stuðning og að lokum stæðu að-
eins sterk tré eftir og hóflega þétt. Eins og
við mátti búast varð útkoman hins vegar sú
að plönturnar kæfðu hver aðra og drápust.
Staðhæfingar Lysenkos urðu því fárán-
legri sem hann öðlaðist meiri völd. Frá því
er greint í Encyclopædia Britannica að á
árunum 1948 til 1953, þegar segja má að
Lysenko hafi verið alvaldur í sovéskri
líffræði, hafi hann haldið því fram að hægt
væri að láta hveitigras bera rúgkorn ef rétt
umhverfi væri valið. Þetta er, samkvæmt
sömu heimild, „álíka trúlegt og að hundar
sem lil'a í villtri náttúru ali af sér refi“.
■ HALLAR UNDAN FÆTI
Eftir lát Stalíns 1953 dró úr stuðningi
stjórnvalda við Lysenko. Krústsjov veittist
harðlega að honum í ræðu 1954 og síðar
varð hann víðar l’yrir opinberu aðkasti.
110