Náttúrufræðingurinn - 1983, Page 18
veitinganefnd Alþingis studdi það ætíð
að hann fengi að starfa á stofnuninni
eins lengi og kraftar entust.
Þegar Ingimar réðst að stofnuninni
lágu fyrir mikil óunnin gögn varðandi
þorsk hér við land, sem Arna Friðriks-
syni hafði ekki unnist tími til að vinna
úr, þrátt fyrir alkunna elju sína og
atorku. Það féll í minn hlut að kenna
Ingimari að lesa aldur á þorski, en ég
varð fljótlega að hætta því vegna ann-
arra verkefna varðandi rannsóknir
þessar.
Ingimar varð brátt mjög vel að sér í
að greina aldur fiska og hálærðir er-
lendir fiskifræðingar sendu honum
sýnishorn til ákvörðunar, enda var
hann á sínum tíma með færustu
mönnum á þessu sviði.
Ekki er vafamál, að þekking okkar
á þorskstofninum og áhrifum veiðanna
á hann, var mjög þýðingarmikill þátt-
ur í baráttu okkar fyrir stækkun fisk-
veiðilögsögunnar og þar með auknum
áhrifum okkar á stjórnun þessara
mála, en eins og að ofan getur gegna
aldursákvarðanir veigamiklu hlutverki
við mat okkar á stærð fiskistofna.
Ég held að óhætt sé að segja að
vísindaleg gögn okkar varðandi nauð-
syn þess að draga úr sókninni í ís-
lenska þorskstofninn, hafi verið mun
betri en andstæðinga okkar og að það
hafi ráðið miklu um útkomuna.
Þrátt fyrir lýjandi starf við aldursá-
kvarðanir varði Ingimar flestum frí-
stundum sínum til rannsókna á hugð-
arefnum sínum. Hann var hinn sanni
náttúrufræðingur, og hafði jafnmikla
ánægju af sjálfstæðum athugunum og
að miðla öðrum af fróðleik sínum.
Ekki var þó prófunum fyrir að fara,
því hæsta gráða hans á menntabraut-
inni var gagnfræðapróf á Akureyri
árið 1913.
Mér var það mikil ánægja að láta
Ingimari í té alla þá aðstöðu til eigin
rannsókna er stofnunin gat veitt. Ég veit
það persónulega að allt var þetta starf
unnið eftir venjulega vinnutíma, á
kvöldin, um helgar eða í sumarleyfum.
Hafrannsóknastofnun á Ingimari
Óskarssyni miklar þakkir að gjalda
fyrir starf hans við stofnunina. Vinnu-
semi hans, dómgreind og vísindaleg
nákvæmni voru öðrum til fyrirmyndar,
ekki síður en prúðmannleg og yfirveg-
uð framkoma. Aldrei bar skugga á
samvinnu okkar og vináttu í þá þrjá
áratugi er við störfuðum saman. Slíks
manns er gott að minnast.
Jón Jónsson
12