Náttúrufræðingurinn - 1940, Síða 100
92
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
lag þarna í brekkunni hefir liðið sá tími, sem þurfti til að mynda
10—12 cm þykkt lag af algerlega fúinni þurrlendismold. Hve
langur tími það er veit ég ekki, en ég geri ráð fyrir, að það séu
nokkur hundruð ára.
Hraunmylsnulagið hlýtur að vera jafngamalt hrauninu, sem
runnið hefir eftir gljúfrinu. Getur þetta lag ekki hafa mynd-
azt á annan veg en þann, að glóandi hraunleðjan hefir runnið
yfir hylji eða polla í gljúfrinu, og hefir þá gufuþrýstingurinn
orðið svo mikill, að nokkuð af hraunleðjunni hefir þyrlazt hátt
í loft upp og fallið niður yfir allstórt svæði í brekkunni, og lag-
ið orðið þykkast næst þessu „gosi“, en því þynnra sem fjær dró.
Mér vitanlega hefir enginn reynt að ákveða aldur hraunanna
í Mývatnssveit, Laxárdal og Aðaldal, en ég held, að allt mæli
með því, að þau hljóti að vera eldri en frá landnámstíð. Það
held ég sé óhugsandi, að þetta mikla öskulag á Norðurlandi:
„hvíta leirlagið“ sé frá sama eldgosi og því, sem eyddi Þjórs-
árdal. Og illa gengur mér að skilja, að það sé rétt athugun, að
þetta öskulag hafi fundizt órótað ofan á gólfskán í hústóft í
Svarfaðardal, nema ef þar skyldi vera leifar af byggingu
manna, sem komið hefðu til Islands löngu áður en Norðmenn
hófu hér landnám. Er það að vísu hugsanlegt.
En hver, sem efast um, að rétt sé athugað eða rétt skýrt frá
því, sem að framan greinir, getur sjálfur gert sömu athuganir.
Áskell Snorrason.