Náttúrufræðingurinn - 1950, Page 7
SUNNLENZKA SÍLDIN í LJÓSI RANNSÓKNANNA
149
síld, enda mun þessi skýring einna gildust, þegar um hrygningar-
stofna er að ræða. Þess ber þó að geta, að rannsóknir Gunnars Roll-
efsens á norska þorskstofninum virðast leiða í ljós langæar stofn-
sveiflur, sem vart verða skýrðar með breytingum á styrk árganga, og
munu þær frekar eiga rót sína að rekja til þess, að sjálft útbreiðslu-
svæði tegundarinnar víkkar eða dregst saman, en um orsakir slíkra
sveiflna er mjög lítið kunnugt. Þó má ætla að hitabreytingar og
straumbreytingar samfara þeim á stórum hafsvæðum ráði hér
nokkru um.
Þar sem rannsóknum er skemmra á veg komið, hafa kenningar
um brigðular fiskigöngur verið ærið lífseigar. Hér á íslandi hafa
þær öll undanfarin ár verið efst á baugi í umræðum um norðurlands-
síldina, en grípa hefur þurft til nýrra skýringa á ári hverju, enda
liafa þær ekki samrýmzt reynslu og frekari rannsóknum. Mér er
heldur ekki kunnugt um, að göngukenningar hafi annarsstaðar skýrt
aflasveiflur um langt árabil til neinnar hlítar.
Mér virðist hins vegar einsætt, ef hliðsjón er tekin af reynslu fiski-
rannsóknanna síðasta áratuginn, að nærtækast er að leita skýringa á
stofnsveiflum í styrk árganganna, sem mynda aflann. og þær skýr-
ingar verði að prófa til hlítar, áður en seilzt er til tvíræðra og flók-
inna göngukenninga. Ég hef í sérstakri greinargerð.1 er ég sendi
forstjóra mínum, rannsóknarráði og samstarfsmönnum, rökstutt þá
skoðun, að síldarþunðin fyrir norðan land sé einkum að kenna
mörgum lélegum árgöngum í íslenzka síldarstofninum, sem klöktust
á árunum 1936—1943. Meginhluta norðurlandssíldarinnar tel ég af
íslenzkum uppruna, einkum þegar um mikla síldargengd er að ræða,
eins og árin 1940—1944. Hins vegar virðast mér líkur benda til, að
mikil breyting hafi orðið eftir árið 1947, og nær þá norsk síld yfir-
ráðum í stofninum.
Um þetta atriði munu skoðanir vera mjög skiptar, eins og sakir
standa, og aðhyllast margir fiskifræðingar þá skoðun Árna Friðriks-
sonar, að norðurlandssíldin sé norskur hrygningarstofn, nema óvera
(1—2%), sem tilheyri íslenzka síldarstofninum. Það væri of langt
mál að gera grein lyrir rökum mínum í þessu máli, enda leikur eng-
inn vafi á því, að þessi skoðanamunur mun skýrast við ýtarlegri
rannsóknir, og tel ég því ekki ástæðu til að gera þetta atriði að um-
ræðuefni að sinni. Hitt skulum við athuga nokkru nánar, hvernig
árgangastyrkurinn skýrir stofnsveiflur sunnlenzku síldarinnar.
]) Greinargerð um síldarrannsóknir dags. 3. apríl 1949.