Náttúrufræðingurinn - 1955, Blaðsíða 28
136
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
annars eðlis. Þeir geta ekki frummælt þyngdina, heldur aðeins mælt
breytingar á henni frá einum stað til annars. Þeir eru venjulega í eðli
sínu eins konar gormvikt með einu ékveðnu lóði í; gormurinn lengist
þá að sama skapi, sem þyngdin vex. Breytingar má mæla, eins og
áður segir, upp á y100 úr milligal, og þá nákvæmni hefur sá mælir,
sem hér er til og mest hefur verið notaður hér á landi.
Þegar landmælingar danska herforingjaráðsins voru að hefjast hér
í byrjun aldarinnar, voru m. a. gerðar pendúlmælingar í mælistöð
við Skólavörðuna í Reykjavik. Þær hafa nú aðeins sögulegt gildi sem
fyrstu þyngdarmælingar hér á landi, en staðurinn hefur síðan verið
notaður sem miðstöð þyngdarmælinga hér. Við þann stað eru allir
aðrir mælistaðir hér tengdir með samanburðarmælingum. Skóla-
varðan hefur hins vegar verið tengd við Paris, sem bæði er sjálf 1.
flokks pendúlstöð og jafnframt er tengd með samanburðarmælum við
aðrar meginstöðvar i Evrópu, svo sem Potsdam og London. Skóla-
varðan og þar með aðrir mælistaðir hér eru þannig tengdir við
vönduðustu frummælingar á þyngdinni, sem til eru.
NOKKRAR MEGINNIÐURSTÖÐUR ÞYNGDAR-
MÆLINGA. FLOTJAFNVÆGI
Hugsum okkur tvo mælistaði, annan á skipi úti á meginhafi, hinn
inni á meginlandi og í sömu hæð yfir sjó. Þá mætti búast við miklum
mun á þyngdinni; undir skipinu virðist vera miklu minna efni en
undir meginlandsstöðinni. Segjum að hafið sé 4000 m djúpt, þá
virðist munurinn vera sá, að á móti 4000 m lagi af sjó með eðlis-
þunga 1,03 undir skipinu komi jafnþykkt lag með eðlisþunga bergs,
t. d. 2,7, undir meginlandsstöðinni. Neðan við 4 km dýpi mundum
við ætla, að væri sama efnið á báðum stöðunum. Á þessum forsendum
ætti þyngdin að vera 280 milligal meiri á meginlandinu en á hafinu.
En megin niðurstaða þyngdarmælinga er sú, að þyngdin, miðað
við sömu hæð, t. d. hafflöt, er í öllu verulegu eins á höfum og megin-
löndum. Sú ágizkun, að sama efni sé neðan við 4 km dýpi á báðum
stöðunum er röng; undir hafinu hlýtur að vera þyngra efni en á
sama dýpi undir meginlandinu. Heildarefnismagnið er hið sama undir
báðum svæðunum, en svæði með þungum lögum liggja lægra en hin
— „sökkva dýpra“. Þetta minnir á það, að fljótandi skip ristir dýpra
hlaðið en óhlaðið. Ljóst verður þetta einnig, ef við tökum dæmi af
korkplötu, sem flýtur á vatni. Yfirborð hennar rís upp fyrir vatns-