Náttúrufræðingurinn - 1955, Blaðsíða 48
Guðmundur Kjartansson:
Fróðlegar jökulrákir
Inngangsorð.
Nú um átján ára skeið hef ég í sumarleyfum og öðrum tómstundum
mest fengizt við að rannsaka jökulminjar frá síðasta jökulskeiði ísald-
arinnar hér á landi. Ekki sízt hef ég gert mér far um að athuga
jökulrákir1) á klöppum. Öllum jarðfræðingum, sem eitthvað ferðuðust
hér á landi, höfðu verið þessi merki kunn, allt frá því er Norðmaður-
inn Theodor Kjerulf varð fyrstur til að lýsa þeim skilmerkilega og
skýra rétt uppruna þeirra um miðja síðastliðna öld2), en enginn hafði
athugað þau eins víða og Þorvaldur Thoroddsen. Á jarðfræðikorti
hans af Islandi, útgefnu 1901, er stefna jökulráka sýnd á 170 stöðum
samtals í öllum landshlutum.
Helgi Pjeturss sinnti meira jökulminjum milli laga niðri i berg-
grunninum en uppi á yfirborði. Uppgötvanir hans leiddu til nýs
skilnings á geysiþykkum myndunum fasts bergs víða um land. Jökul-
minjarnar í þeim bentu til, að þær væru ísaldarmyndanir (kvarterar,
en ekki tertíerar eins og áður var talið). En þær minjar eru frá hinum
fyrri jökulskeiðum ísaldarinnar, miklu eldri en þær, sem ég hef gert
mér að rannsóknarefni, og hafa því aðeins geymzt til vorra daga, að
hraunstorkur hafa lagzt yfir þær og innsiglað.
Ég tel einsætt, að þær jökulrákir, sem hér verður frá sagt og allar
eru ristar í núverandi yfirborð berggrunnsins, séu yfirleitt frá síðasta
jökulskeiði (örfárra hugsanlegra undantekninga verður siðar getið).
Þessi merki varðveitast ekki nógu vel á berri klöpp, til að ætlandi
sé, að þau séu frá næstsíðasta jökulskeiði. Það er þegar einsætt af
athugunum mínum, að þær jökulrákir, sem nú liggja berar eða aðeins
1) Hér og framvegis í þessari grein kalla ég för þau, sem jöklar hafa sorfið eða
rist í klöpp, (jökul)rákir í heild, en stórgervar rákir gróp og hinar smágervustu
rispur.
2) Th. Kjerulf: Bidrag til Islands geognostiske Fremstilling. Nyt Magazin for
Naturvidenskaben VII. Kria 1853.