Náttúrufræðingurinn - 1989, Blaðsíða 17
eríku. Þegar rætt er um regnskóga í
þessari grein er hins vegar eingöngu
átt við regnskóga hitabeltisins.
Ævafornir skógar í stöðugu umhverfi?
Samkvæmt hefðbundnum hug-
myndum manna um regnskóga, eru
þeir ævafornir og einkennast framar
öðru af stöðugu og lítt sveiflukenndu
umhverfi, hvort sem stöðugleikinn er
mældur á jarðfræðilegum tímaskala
eða vistfræðilegum, t.d. yfir nokkra
áratugi. Þannig var talið að á meðan
fimbulvetur ísalda umbyltu eða þurrk-
uðu út líf á norðurhveli, hefðu regn-
skógarnir staðið í stóískri ró og talið
var að sögu þeirra mætti rekja óslitið
aftur um hundruð þúsunda eða jafnvel
tugmilljónir ára. Með auknum rann-
sóknum hefur komið í ljós að þessi
mynd af regnskógunum sem ævaforn-
um og lítt undirorpnum sveiflum er
ekki alls kostar rétt.
Á síðustu ísöld kólnaði í hitabelti
eins og annars staðar á jörðinni.
Rannsóknir á skógarmörkum í Equa-
dor á síðasta skeiði ísaldar benda til
þess að meðalárshiti hafi þá verið
a.m.k. 4,5 °C lægri en nú (Liu og Col-
invaux 1985). En ísöld fylgdu einnig
aðrar breytingar á veðurfari; samfara
kólnuninni varð loftslag þurrara en
áður. Útbreiðsla skóga dróst því ekki
aðeins saman vegna kulda, heldur
einnig vegna þurrara loftslags. Eink-
um er talið að þessa hafi gætt í Suður-
Ameríku og Afríku. Til dæmis hafa
frjógreiningar úr jarðvegi frá norður-
hluta Guatemala sýnt að þar sem nú
vex sígrænn hitabeltisskógur voru
þurrar gresjur með dreifðum runnum
á ísöld (sjá Lewin 1984). Loftslag
þornaði mun minna í Asíu þar sem út-
hafsáhrif voru þar meiri en í Suður-
Ameríku og Afríku. Þó hljóta miklu
stærri landflæmi að hafa borið svip af
meginlandsloftslagi en nú. Sjávarstaða
var allt að 180 m lægri en nú er og eyj-
ar Indónesíu (s.s. Súmatra, Borneó,
Java, Celebes og Balí) voru þá hluti af
meginlandi Suðaustur-Asíu, sem var
þar af leiðandi miklu stærra en það er
nú. Trúlega hefur Indónesía skilist frá
og greinst í eyjar fyrir um 8.500 til
10.000 árum.
Hvað Suður-Ameríku snertir, hefur
komið í ljós að fjölbreytni tegunda er
mjög misskipt innan Amasonskógar-
ins og nokkur svæði virðast vera
miklu tegundaauðugri en skógurinn í
heild. Telja margir líklegt að þetta séu
svæði þar sem loftslag þornaði lítið
eða ekkert á síðustu ísöld, og þar hafi
því orðið eftir „regnskógaeyjar“ með-
an skógurinn hopaði vegna þurrka
annars staðar (Myers 1986). Tilgátur
eru um að út frá þessum eyjum hafi
skógurinn síðan breiðst eftir Iok ísaldar.
Útbreiðsla regnskóga í Afríku dróst
trúlega mikið saman á síðustu ísöld,
enda eru þeir ekki jafn fjölbreyttir að
tegundum og skógar Asíu og Suður-
Ameríku. Flestir vísindamenn telja
skógana í Suðaustur-Asíu elsta og að
þeir hafi orðið fyrir tiltölulega lítilli
röskun vegna þurrara loftslags á ísöld.
Ef til vill hafa sumir hlutar Suðaustur-
Asíu borið skóg, einhvers konar regn-
skóg, óslitið í 70 milljón ár (Myers
1980). Þeir skógar gætu því verið elstu
landvistkerfi jarðar.
GRÓSKA OG FJÖLBREYTNI
Regnskógar hitabeltis eru tegunda-
auðugustu og fjölbreyttustu vistkerfi
jarðar. Þótt þeir þekji aðeins um
6-7% þurrlendis, lifir líklega í þeim
um eða yfir helmingur allra tegunda
lífvera (Myers 1986). Þeir eru einnig
gróskumestu vistkerfi jarðar og ná
meiri lífþyngd (þ.e. massa lifandi
vera) á flatareiningu lands en nokkurt
annað vistkerfi. Lífþyngd láglendis-
skóganna hefur verið áætluð 35 - 60
11