Samvinnan - 01.12.1966, Blaðsíða 29
TH
eftir
HESTARNIR
En samt sem áður læðist Leifur á Framnesi yfir túnin,
þegar klukkan er að verða ellefu. Hann hefur losnað. Og
nú á hann stefnumót við litla stúlku. Hann skimar eftir
lágum, þar sem hægt væri að komast óséður um opna
landsvæðið hér milli býlanna, öslar grasið, þar sem þess
gerist þörf, hræddur við að verða séður, hræddur við það,
sem framundan er, en gengur þó sæll og fús á vit þess —
einsog þúsundir annarra pilta.
Áin niðar ofurlítið þarna neðra. Fyrir ofan Ytra-Nes
dunar fossinn. En dynurinn er kraftlaus og lágvær, það
er ekki einsog á vorin, þá er hann reiður. Þá hefur elfan
skapað landið, á óteljandi vorum.
Að fara um engin rétt fyrir slátt, eftir sólsetur, það er
einsog að koma inní bláan eld. Slikja leggst yfir augun,
maður sér það, sem maður sér ekki, hjartsláttur verður
undarlegur, og það er ekki loft, þetta, sem lykur um mann,
allt er það andardráttur frá einu brjósti.
Eftir einni lægðinni kemst Leifur í greniskóginn, lítur
í kringum sig, hér er enginn, sezt og ætlar að bíða. Innra
með sér býr hann til mynd, situr og horfir á hana til að
drepa tímann, einsog strákar eru vanir.
Kemur Fríða ekki? Hann hrekkur við, kemur hún ekki?
Og svo tekur hann á rás. Það er orðið svo áliðið, að hann
getur farið allra ferða sinna, fólk er háttað. Kemur Fríða
ekki? Hann minnist þess með ofurlítilli eftirsjá, sem hann
gerði henni í kvöld. Hann nemur staðar við bæinn á Ytra-
Nesi. Þetta á að verða hans bær. Þar eru lágreist hús og
lauftré. Það er fallegur bær. Svo gengur hann varkár yfir
að stóra verzlunarhúsinu, tekur sér stöðu bakvið tré í
garðinum, veit vel í hvaða rúðu á annarri hæð hann á að
kasta steini.
í þriðju tilraun kemur einhver í ljós bakvið rúðuna,
klikk, hann kastar, og andlitið tekur viðbragð. Svo stígur
hann til hliðar til að hún þarna uppi geti séð hann. Myrkr-
ið er bara rökkur.
Hann bíður bakvið tréð og ekki til ónýtis. Það marrar
ofurlítið í hurð, heyrist gengið um mölina, nú er það í
garðinum, nú á bakvið stikilsberjarunnann.
— Gleymdirðu því, Fríða?
— Nei, segir hún lágt.
— Og samt komstu ekki.
— Nei, ekki fyrst spilin hjá þessum flækingi eru fallegri!
segir hún og stappar fæti í jörðina fyrir framan hann.
— Elsku góða —
— Já, það sá ég nú í kvöld!
Hann andvarpar.
— Þú getur sjálfsagt ekki skilið það, Fríða, ég veit ekki,
hvernig ég á að koma orðum að því, svo þú fáir mynd af
því, en þegar ég get vogað einhverju og spilað hátt, þá er
einsog ég ráði mér ekki sjálfur. Ég get ekki stillt mig, þeg-
ar ég fæ tækifæri. En mér þykir alveg eins vænt um þig
fyrir því!
Hún starir á hann:
— Ertu ekki hræddur, þegar þetta kemur og — gríp-
ur þig?
Hann þrýstir hönd hennar með báðum sínum. — Jú, ég
er hræddur.
— Víf sagðist vel geta skilið það! Hana Iangaði til að
vera með sjálfa! —
— Já, það veit ég, segir hann myrkur, og svo strýkur
hann þessa konuhönd.
— Trúirðu ekki, að mér þyki vænt um þig?
— Jú, en —
— Er þér hætt að þykja vænt um mig?
— Nei, en —.
Nú tekur hann um báðar axlir hennar og horfir f augu
henni; þau eru full af því, sem hann var að leita að og
þráir.
— Og þá ætlarðu þrátt fyrir allt að vera stúlkan mín!
Hún leitar einhvers í andliti hans og segir seinast ótta-
slegin:
— Það er víst svo mikið hættuspil, Leifur.
— Þá spilum við það spil!
— Veiztu, að ég er hrædd við að byrja á því —.
Hann skeytir því engu, hann sækir á, heldur henni
fastri:
— En þú vilt? Já, þú verður! Fríða?
Hún segir inní vestisbarm hans:
— Já, það er bara það, sem ég vil —.
7
Sveinsson og hans fólk sækir heyskapinn af kappi.
Snemma morguns heyrist reiðilegt suð sláttuvélarinnar,
ljárinn glymur. Þegar líður að nóni hljóðnar; og smám
saman fyllist loftið angan frá nýslegnu, hálfþurru heyi.
Um miðjan daginn er algjör þögn. I skuggum að húsa-
baki liggja menn á skyrtunni. í flekkjunum tísta engi-
sprettur, og hunangsflugur suða. Blómastilkar gægjast
framúr heyinu hnakkakerrtir, en svo fara þeir að kinka
kolli, láta undan höfugum svefni, leggja höfuðin hver í
annars fang og sofna.
Síðari hluta dags þokast stór hlöss af heyi upp hlöðu-
brúna og Magga situr eða liggur á hlassinu. Kalli er hættur
að aka með á þann hátt. Hann gengur hugsi um, og
honum líður ekki vel, það er einsog andlitið verði lítið og
mjótt.
Mamma kemur kannski að honum sem hann stendur og
horfir á vegginn.
SAMVINNAN 29