Samvinnan - 01.12.1971, Side 64

Samvinnan - 01.12.1971, Side 64
Þær verða, segir höfundur, ætli þær að brjótast út úr sínu indæla fangelsi, að setja sér einhver þau framtíðarmarkmið, sem nái út fyrir ramma fjölskyldulífsins. Þær munu verða fullkomnari og betri mæður og eiginkonur, hafi þær sett sér markmið i þágu framtíðarinnar og náð þroska fullveðja einstaklings. Ekkert algilt svar Á meðan samfélagið gerir svo litlar kröfur til kvenna, sem raun ber vitni, verður hver einstök kona sjálf að fást við þessa spurningu; hún verður að finna lífi sínu nýtt form miðað við aðstæður og áhugasvið. Hún verður að sameina um- önnun sína á börnum og heimili öðrum verkefnum á breiðari mælikvarða, sem bendi fram á við. Að setja vandamálið fram er ekki sama og að leysa það, finna svar, en sé kona á annað borð farin að skoða hug sinn og spyrja sjálfa sig, hvað hún raunverulega vilji, þá fer hún einnig að bera sig að leita svarsins. Höfundur tilgreinir um- mæli fjölmargra kvenna, sem stóðu frammi fyrir þessum vanda. Þær óskuðu einhvers meira, vissu bara ekki alltaf hvers. Hún greinir frá för þeirra áleiðis til þess að fylla upp í þá eyðu, sem þeim fannst vera i lífi sínu. Hún kveður það hafa komið mjög skýrt fram í viðræðum sínum við hinar ólíkustu konur, að um leið og þær tóku aftur til, þar sem frá var horfið, annað hvort við eitthvert starf, iðkun fræðigreinar eða þær byrjuðu á einhverju nýju, þá var eins og þær næðu að fylla upp í fyrrgreinda eyðu í lífi sínu; hið nafnlausa vandamál þjakaði þær ekki lengur. Mestu máli skipti að inna af hendi nytsamt starf og sú kennd að tilheyra samfélaginu, hafa verk að vinna á sam- félagslegan mælikvarða. Þessum konum var það einnig sameiginlegt, að þær nutu heimilis síns, barna sinna og fjölskyldu- lífs i stórum rikara mæli, þegar þetta var ekki lengur miðpunktur tilverunnar, en líf þeirra hafði einnig öðlazt annað innihald. Það væri alltof einfalt að reyna að gefa einhverja allsherjar algilda lausn á þess- um vanda; slíkt algilt svar og einfalt er ekki til. Það getur verið löng braut og örðug, sem hver einstök kona verður að ganga, áður en hún finnur sitt svar. í fyrsta lagi verður hún skilyrðislaust að segja skilið við hina hefðbundnu ímynd fyrirmyndarhúsmóðurinnar og sleppa öllu patenti á heimilisstörfum, rétt eins og enginn annar gæti þar um fjallað. Þetta ber að sjálfsögðu ekki að skilja svo, að hún eigi að leggja heimili sitt fyrir róða, láta allt reka á reiðanum eða yfir- gefa mann og börn. Henni ber ekki að velja á milli hjónabands og persónulegs sjálfstæðis, en þannig setur þjóðsagan valið fram. Sannleikurinn er sá, að það er öldungis ekki eins örðugt og látið er í veðri vaka að sameina hjúskap og móð- erni öðrum skyldum eða ákveðnum mark- miðum, sem konan hefur e. t. v. gengizt á hönd fyrir lifstíð. Nauðsynin er fyrst og fremst sú að marka sér ákveðna braut, framtíðaráætlun fyrir allt lífið, en ekki eingöngu varðandi giftingu og barneignir. Hliðra sér hjá ábyrgð Vegna áhrifa þjóðsögunnar reynist konunum örðugast á leið sinni út úr pris- und húsmóðurstöðunnar að hætta á stökkið frá meinlausri, ábyrgðarlitilli á- hugamennsku á einhverju sviði til ábyrgðar atvinnumennskunnar. E. t. v. er hér einnig að verki of urskilj anlegur mannlegur ótti við það að duga ekki, þeg- ar keppa skal á grundvelli hæfninnar einnar, án þess að hafa kynferðið sér til afsökunar eða forréttinda. Þó að kona beinlínis verði að vinna sér til lífsfram- færis, finnur hún samt aðeins skýra sjálfsímynd með framlagi, sem hefur raunverulegt gildi á samfélagslegan mælikvarða, í starfi er nýtur þjóðfélags- legrar viðurkenningar sem gagnlegt og nauðsynlegt. Sú staðreynd, að starf er launað, felur meira i sér en beinharða greiðsluna; það þýðir vissa skuldbindingu. Það er einmitt óttinn við þessa skuld- bindingu, sem hefur fengið svo margar ágætlega hæfar og menntaðar konur til að flýja af hólmi, leita skjóls í hjóna- bandi og í hugarheimi, og gæla þar við tilhugsunina um það, hve langt þær hefðu getað náð á einu eða öðru sviði, ellegar þær stunda einhver þau störf, sem eru fjarri því að svara til getu þeirra. Þannig er líka hægt að víkja sér undan eigin vexti. Höfundur nefnir dæmi um tilhneigingu kvenna til að skjóta sér und- an því að taka að sér verkefni, sem geri verulegar kröfur til þeirra. T. d. hafi kon- ur í kvennasamtökum stjórnmálaflokka þá áráttu að draga sig í hlé frá störfum, sem krefjast ábyrgðar, en gætu veitt þeim aukin áhrif innan síns flokks. Þær tak- marka sig við störf, sem ekki hafa neina sérstaka þýðingu miðað við pólitíska her- stjórnarlist, vilja ekki koma nærri sliku, leggja væntanlega ekki út í að reyna sig við karlmennina né heldur baráttuna gegn hvers kyns fordómum. Þá rekur hún einnig með nokkrum dæmum, hvernig beittasta vopn þjóðsög- unnar heldur mörgum konum frá virkri þátttöku á vettvangi þjóðlífsins í sam- ræmi við getu og áhuga, en þetta vopn er einmitt sú staðhæfing, að starf þeirra hljóti að hafa vanrækslu á börnum og heimili í för með sér. Margar þessara kvenna lifa svo lífi sínu með öfugum for- teiknum, ef svo má segja, eða svo tekin sé samlíking að láni frá íslenzku nóbels- skáldi: Það er eins og spiluð sé nóló á grandspil. Betty Friedan segir frá viðtali við konu nokkra, sem var í forustuliði í stjórn- málaflokki. Þar kom, að maður gekk und- ir manns hönd að sannfæra hana um, að erfiðleika dótturinnar í skólanum mætti rekja til pólitískrar starfsemi móðurinn- ar; hún væri af þeim sökum ekki alltaf í handraðanum og sinnti barninu ekki nóg. „Nú er ég búin að draga mig í hlé,“ sagði hún. „Það er víst öllum fyrir beztu, að ég sé heima við sem húsmóðir." í sömu andrá hringdi síminn og höfundur getur ekki á sér setið og fer að sperra eyrun. Þetta varð töluvert samtal, og þarna var aldeilis ekki verið að leggja á ráðin um basar eða kaffisölu, heldur snerist þetta um meiriháttar pólitíska herstjórnarlist innan vébanda Demókrataflokksins. Sið- an kom uppgjafa pólitíkusinn aftur fram í eldhús til að laga hádegismatinn og meðgekk, að nú fjarstýrði hún hinu póli- tíska framlagi sínu heiman úr eldhúsinu. Önnur kona, læknir að mennt, hætti við sinn praxís, þegar hún giftist kollega sínum, og helgaði sig algerlega heimili og barnauppeldi. Þegar yngsta barnið var komið á skólaaldur, var henni allri lokið, tók til á nýjan leik að hressa upp á kunn- áttu sína og hóf læknisstörf að nýju. Hún sagði eins og afsakandi, að það væri ekki svo auðvelt að bæla niður faglegan á- huga; hann leitaði út um síðir, en viður- kenndi um leið, að væri hún kölluð út í vitjanir á kvöldin, laumaðist hún út úr húsinu með svipaðri sektartilfinningu og væri hún að fara á leynilegt stefnumót. Samkvæmt þjóðsögunni hefur æðri menntun konum til handa varasamar, truflandi og allt að því neikvæðar af- leiðingar, en það er menntunin ein, fag- lega kunnáttan, sem hefur bjargað og getur bjargað konunum frá því að lokast innan hins þrönga sviðs og gefið þeim fyllra innihald í lífi sínu. Menntunin hef- ur því aðeins varasamar afleiðingar, að hún sé ekki notuð. Vandi hálfmenntaðra kvenna Þá kemur höfundur að því vandamáli, hvernig bezt megi gera konum kleift að taka upp þráðinn að nýju, halda áfram einhverju námi, tileinka sér nýja kunn- áttu á einhverju sviði eða endurnýja fyrri kunnáttu. Hún telur, að öll þau námskeið, sem skipulögð séu fyrir hús- mæður, komi hér að engu haldi, einfald- lega vegna þess að þar sé fremur miðað við dægrastyttingu en alvarlegt nám, sem geri þær samkeppnishæfar í atvinnulíf- inu. Þar sé sjaldnast krafizt þeirrar íhygli, einbeitingar og heimavinnu, sem allt alvarlegt nám útheimtir. Við því sé ekki búizt af húsmæðrum. Gagnvart þess- um vanda eru þær að sjálfsögðu stórum betur settar, sem fengu í æsku sinni for- smekkinn að alvarlegum námsvinnu- brögðum og e. t. v. kunna þá sæmilega til verka, þótt þær tækju námið í heild ekki nægilega alvarlega til þess að byggja áfram á þeim grunni eigið, sjálfstætt starfssvið. Vandinn er stórum meiri fyrir þær, sem hættu öllu námi á mjög ungum aldri, e. t. v. til þess að gifta sig, en hrökkva síðar á ævinni upp við nauðsyn þess að kunna eitthvað, og eru þá jafnvel í brýnni þörf fyrir vinnu utan heimilis. Þeim verð- ur stórum örðugra að fara þá að leggja til atlögu við þau verkefni, sem þær viku sér undan á æskudögum. Staðreyndin er engu að síður sú, að einungis reglulegt nám innan vébanda hinna ýmsu mennta- stofnana kemur að haldi til þess að fá einhvern þann kunnáttustimpil, sem tek- inn sé gildur úti í atvinnulífinu. Þar duga engin námskeið. Höfundur telur, að lítið sé gert af þjóðfélagsins hálfu til þess að skapa húsmæðrum hagstæð námsskilyrði, og hún bendir á nauðsyn þess að fram- kvæma viðtæka fræðsluáætlun, sem mið- ist við að leysa vanda þessara kvenna. 64

x

Samvinnan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.