Andvari - 01.06.1964, Page 5
SVEND KRAGH-JACOBSEN:
ANNA BORG
Á páskadag 1963 steig hin mikla leikkona Danmerkur, Anna Borg, upp í
flugvélina, sem átti að flytja hana um Osló til bernskuheimkynnis hennar, ís-
lands, þar sem skíra skyldi fyrsta sonarson hennar. Henni var léttir að hverfa
frá Kaupmannahöfn og leikhúsinu; upp á síðkastið höfðu aðstæður þar ekki
verið að óskum hennar, sem unni svo mjög list og heiðarleika. Hún hafði orðið
fyrir vonbrigðum og mætt skilningsleysi, sem hindraði hana í iðkun þeirrar
listar, er var henni lífið sjálft. En fyrir Önnu Borg var lífið einnig ástin til
eiginmannsins, barna sinna og fjölskyldu. Hjá henni var listamaðurinn og
persónuleikinn af einu efni, og af hjartahlýju sinni veitti hún óspart bæði sem
kona og listamaður. Island var ættjörð hennar, og um leið og hún lét öll
óþægindi að baki sér, kvaddi hún mann sinn, Poul Reumert, og ástvini sína —
eftir fáar stundir vænti hún endurfunda við son sinn og litla drenginn, sem
hún hlakkaði til að halda undir skírn. Þrátt fyrir allt gat hún lagt brosandi
af stað. — Þetta bjarta, hreina bros varð síðasta kveðja hennar til Danmerkur,
landsins, sem tók hana að sér og gerði hana að svo frábærri leikkonu, að engin
hjá oss getur fyllt skarðið eftir hana.
Anna Borg flaug frá okkur — 38 árum eftir að hún steig fyrst á land í
Kaupmannahöfn — og fluginu var beint til íslands, að eilífu burt frá leiksviði
þessa lífs. Utan við Osló hrapaði flugvélin. Allir fórust. Þennan kyrrláta helgi-
dag í Kaupmannahöfn olli fregnin ægilegum sársauka. Þó að of langt væri liðið
frá því Anna Borg hafði staðið á leiksviði Konunglega leikhússins, og þó að
þetta sama leikhús hefði farið illa með mikla hæfileika hennar seinni árin, var
hún þó ennþá ein sterkasta stoð þjóðleikhúss Danmerkur. Anna Borg bjó yfir
slíkri orku og skapstyrk, að hún hafði hvað eftir annað sigrazt á erfiðleikum,
sem hefðu stöðvað sérhvem annan á framabrautinni. Með takmarkalausum
dugnaði náði hún valdi á dönskunni, þegar hún var tekin kornung í leiklistarskóla
Konunglega leikhússins. Á fyrstu árum sínum í Danmörku vann hún sig út úr
þeim einmanaleik, sem hún hefur lýst svo átakanlega í endurminningagreinum
sínum. Hún varðveitti jafnvægið eftir umbrotin, sem urðu í sálarlífi hennar,