Stúdentablaðið - 01.12.1968, Blaðsíða 40
sem ísland hafi þegar tekið í sínar hendur meðferð allra sinna
mála, enda hafi Danmörk ekki getað farið með þau mál þá um
hríð. Enn fremur er því lýst yfir, að af íslands hálfu verði ekki
um að ræða endurnýjun á sambandssáttmálanum við Danmörku,
þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært að ganga frá formlegum
sambandsslitum vegna ríkjandi ástands, enda verði því ekki
frestað lengur en til styrjaldarloka að ganga frá formlegum sam-
bandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins. Enn var
ályktað að kjósa ríkisstjóra, og var Sveinn Björnsson kosinn
ríkisstjóri 17. júní 1941.
Um konungssambandið hafði ekki verið samið 1918. Meðan
sambandslögin voru í gildi, var samningslega tryggt, að það
stjórnarform skyldi haldast, enda var konungssambandið for-
senda og grundvöllur þeirra laga. Eftir brottfall sambandslag-
anna gátu íslendingar valið annað stjórnarform og þá með
breytingu á stjórnarskrá sinni. Með ályktun 17. maí 1941 lýsti
Alþingi yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað á ís-
landi jafnskjótt og sambandinu við Danmörku væri formlega
slitið.
Fyrsta ályktunin er vitaskuld gildismest þessara þriggja álykt-
ana frá lögfræðilegu sjónarmiði. Til greina kom að neyta rift-
unarréttar þá þegar vegna þess að Danmörku var ókleift að rækja
skyldur samkv. sambandssáttmálanum. Hér var hins vegar farin
sú leið að lýsa yfir því, að ísland hefði öðlazt fullan rétt til
sambandsslita, en þess réttar ekki neytt að svo komnu. Með því
var ratað rétt meðalhóf. Beðið var með formleg sambandsslit til
ársins 1944, eins og alkunna er, og voru skiptar skoðanir um þá
bið. Með ályktun Alþingis 25. febrúar 1944 var lýst niðurfell-
ingu dansk-íslenzkra sambandslaga, enda hlyti ályktunin sam-
þykki alþingiskjósenda í almennri atkvæðagreiðslu. Skyldi hún
taka gildi, er Alþingi samþykkti hana að nýju að aflokinni at-
kvæðagreiðslu. Frumvarp til stjórnskipunarlaga, þar sem því var
lýst, að ísland væri lýðveldi með þingbundinni stjórn og breyt-
ingar gerðar til samræmis við það, var síðan samþykkt á Alþingi.
Bæði þingsályktunin frá 25. febrúar og stjórnskipunarlögin voru
síðan lögð undir atkvæði kosningabærra manna 20.—23. maí
1944. Var þátttaka í kosningunum eindæma mikil eða 98,61%.
Guldu 97,35% þingsályktunartillögunni jákvæði, en 0,52% voru
á móti, og lýðveldisstjórnarskráin var samþykkt af 95,04% þeirra,
er þátt tóku í kosningunni. Alþingi samþykkti síðan að nýju
þingsályktunina og stjórnarskrána. Brautin var rudd til lýðveldis-
stofnunar. Sambandsmálinu var lokið með þeim glæsibrag, er
hæfði minningu hinna beztu sona íslenzkrar þjóðar, forvígis-
manna sjálfstæðisbaráttunnar.
III.
Sambandslögin ollu gagngerum þáttaskilum í sjálfstæðismál-
um íslendinga. Fram til gildistöku þeirra beittu menn geiri
sínum gegn Dönum og réttindi voru sótt í hendur þeirra. Með
sambandslögunum var fengin viðurkenning á fullveldinu og
brautin lögð til uppsagnar sambands við Dani eftir 1940, þótt
á henni væru farartálmar. Verkefni þeirra, sem voru helztu for-
vígismenn í sjálfstæðismálinu, hlaut nú að beinast að því að
brýna íslenzka þjóð á að halda vöku sinni og standa saman um
að neyta uppsagnarákvæðisins og stofna lýðveldi á íslandi.
Margir menn lögðu mikið að mörkum í þessu skyni. Hér er
sérstök ástæða til að minnast á hinn mikla hlut íslenzkra stúd-
enta að þessu máli. Stúdentar við Háskóla íslands hafa látið
sér öðrum fremur annt um þetta mál og sérstaklega hafa þeir
sýnt 1. desember mikla ræktarsemi. Þeir hafa óslitið síðan 1921
staðið fyrir samkomum þennan dag með vekjandi ræðuhöldum
um sjálfstæðis-, þjóðernismál og menntamál (1. des. 1939 var
samkomuhald þó fellt niður vegna atburða þess dags). Þá hafa
þeir óslitið síðan 1924 gefið út Stúdentablað 1. desember, þar
sem greinar um sjálfstæðismálið hafa skipað veglegan sess. í
þessu efni er og maklegt að minnast ágætrar forystu Stúdenta-
félags Reykjavíkur, sem stóð að mörgum markverðum fundum
um málið. Hvatning íslenzkra stúdenta í þessu máli fyrr og
síðar verður seint ofmetin. Sú þjóðlega vakning og sú þjóðlega
samstaða, sem tókst á vordögum 1944 um lausn sambandsmálsins
verður jafnan talið eitt hið mesta stjórnmálaafrek íslenzkrar
þjóðar. Sú eining er sönnun þess, að íslenzk þjóð getur átt eina
sál, sundurlyndisfjandann er unnt að senda út á sextugt djúp,
þegar mest liggur við. Hornsteinar íslenzks lýðveldis eru hinn
bjargfasti þjóðarvilji, er fram kom í atkvæðagreiðslunni um
stofnun lýðveldis vorið 1944 — og enga undirstöðu á lýðveldi
sér traustari en svo einbeittan og óhvikulan þjóðarvilja, þ. e. a. s.
ef sjálfsákvörðunarréttur smáþjóða verður yfirleitt virtur í rosa-
fenginni veröld. Minningin um kosningarnar í maímánuði 1944
og lýðveldisstofnun 17. júní er okkur, sem þá höfðum nýlega
hlotið kosningarrétt, dýrmæt og raunar helg — við þann yl er
gott að orna sér. Fjöreggið, sem íslenzk þjóð fékk í hendur vorið
1944, verður ávallt að handleika svo, að ekki bresti, og er vand-
stýrt milli brims og boða í vályndum veðrum alþjóðastjórnmála.
Við menningarlega kjölfestu okkar og arfleifð, sögu, tungu og
bókmenntir, verðum við að leggja rækt og missa ekki sjónar
á hættum þeim, er steðja að þjóðerni okkar og sérstæðri menn-
ingu. Við verðum ávallt að vera skyggn á vanda þess og vegsemd
að vera íslendingar.
IV.
Baráttan fyrir stofnun háskóla á íslandi tengist sjálfstæðis-
málinu á athyglisverðan hátt. Voru þau mál svo samofin á ýms-
um stigum sjálfstæðisbaráttunnar, að naumast verður á milli
skilið. Forvígismenn í íslenzkri sjálfstæðisheimt brýndu menn
sífellt á því, að forsenda sjálfstæðis væri sú, að vel væri séð fyrir
menntun landsmanna, bæði á lægri og æðri skólastigum. Bar-
áttan fyrir stofnun háskóla verður því gildur þáttur sjálfstæðis-
málsins. Merkilegt er að virða íyrir sér, að stofnun háskóla í
Noregi árið 1811 var náinn undanfari þess sjálfstaaðis, er Noregur
hreppti 1814, með sama hætti og stofnun háskóla á íslandi var
undanfari fullveldisviðurkenningarinnar 1918. Þegar lítil þjóð
færist það stórvirki í fang að stofna háskóla, er það vottur þess,
að sú þjóð hafi vísindalegum mannafla á að skipa í landi sínu
og vísbending um, að hún hafi yfirleitt þroska og djörfung til
að verða sjálfráð mála sinna. Er þetta tilefni til margvíslegra
hugleiðinga, þótt ekki séu tök á að ræða það hér.
Þegar fullveldið gekk í garð fyrir hálfri öld, var Háskóli ís-
lands ungur að árum, starfsemi íaskrúðug og umgerð um hana
fátækleg. Allar byggingar skorti og háskólinn var hálfgildings
niðursetningur. Stúdentar voru tæplega 90, kennarar 24. Nú eru
stúdentar um 1300 og kennarar um 140. Við dagsbrún fullveldis-
tímabilsins ólu margir góðir íslendingar þá von, að háskólinn
myndi eflast á næstu árum, enda var þeim ljóst, að grundvöllur
sjálfstæðis væri öflugur háskóli, er yki mátt þjóðarinnar til
manndóms og menningar. Víst liefur háskólanum aukizt afl á
hálfri öld. Mörgum mun þó þykja þróunin hafa verið ugg"væn-
lega hægfara. Árið 1967 var 0,8% af ríkistekjum hér á landi
varið til háskólans sem kennslustofnunar, og 0,14% af Jrjóðar-
framleiðslu mun hafa runnið Ji>angað. Þessar fjárveitingar eru
vissulega of litlar, og háskólinn hefur búið við mikla kreppu
um húsnæði til kennslu og rannsókna og vegna félagsaðstöðu
stúdenta. Veltigróði styrjaldaráranna skilaði háskólanum lítilli
eftirtekju, og á tímal)ilinu eftir styrjöld hefur ekki heldur runnið
fjármagn til skólans, sem sambærilegt sé við það, sem gerzt hefur
í grannlöndum okkar. Starfssvið háskólans er enn bagalega
Jrröngt, ekki sízt þegar menn virða fyrir sér þá stórfelldu fjölgun
stúdenta, sem í vændum er. Varlega skyldu menn og treysta
STÚDENTABLAÐ
40