Stúdentablaðið

Volume

Stúdentablaðið - 01.12.1968, Page 48

Stúdentablaðið - 01.12.1968, Page 48
Minningarorð GUÐMUNDUR THORODDSEN F. 1.2. 1887 D. 6.7. 1968 Guðmundur Thoroddsen, fyrrverandi prófessor í handlæknisfræði við Læknadeild Háskóla íslands, andaðist 6. júlí 1968, 81 árs að aldri. Með honum er genginn einn af fremstu mönnum og einn litríkasti persónuleiki íslenzkrar læknastéttar á fyrri helmingi þessarar aldar. Guðmundur fæddist á ísafiröi 1. febrúar 1887, sonur hjónanna Skúla sýslumanns og ritstjóra Jónssonar Thoroddsen og Theodóru Guðmunds- dóttur, prófasts að Breiðabólstað á Skógarströnd. Hann lauk námi við Latínuskólann í Reykjavík vorið 1905, en lagði síðan stund á læknisfræði- nám við Hafnarháskóla og lauk þaðan prófi vorið 1911. Að loknu próli starfaði hann við læknisstörf í Danmörku í þrjú ár, en í september 1914 var hann settur og síðar skipaður héraðslæknir í Húsavíkurlæknishéraði. Því embætti gegndi hann þó aðeins í tvö ár, en árið 1916 fór hann að nýju til Kaupmannahafnar og þá til framhaldsnáms. Á árunum 1916—1920 stundaði hann nám og starfaði á handlæknis- deildum Frederiksbergs spítala í Kaupmannahöfn og lagði þá einnig stund á kvensjúkdóma- og fæðingarfræði. Árið 1920 hvarf hann að nýju heim til íslands og hóf störf í Reykjavík, fyrst við almennar lækningar, en í janúar 1922 byrjaði hann að starfa við læknadeild háskólans sem kennari í handlæknisfræði í forföllum Guðmund- ar Magnússonar prófessors. Hinn 1. janúar 1923 var hann settur dósent í almennri sjúkdómafræði og réttarlæknisfræði við læknadeildina, og ann- aðist hann kennslu í þessum fræðum þar til í október 1926. Haustið 1924 tók hann við embætti Guðmundar Magnússonar sem pró- fessor í handlæknisfræði og yfirsetufræði við I-æknadeild Háskóla Islands. Hann var rektor háskólans árin 1926—1927. Fram til ársins 1931, eða þar til Landsspítalinn var fullbyggður, hafði Guðmundur starfsaðstöðu á Landakotsspítala, bæði við kennslu og fyrir sjúklinga sína. Er Landsspítalinn tók lil starfa í árslok 1930, var hann skipaður yfirlæknir handlæknisdeildar og fæðingardeildar Landsspítalans og jafnframt forstöðumaður Ljósmæðraskóla íslands. Gegndi hann þessum störfum öllum þar til í júní 1952, að hann lét af störfum sökum alduts. Hann hætti þó ekki að starfa sem læknir, þótt hann fengist lítið við skurðlækningar eftir þetta. Allt fram til dauðadags starfaði hann sem ráðgefandi skurðlæknir fyrir Kleppsspítalann. Árið 1952 var hann skipaður prófdómari við læknadeildina og gegndi því starfi þar til árið 1965, að hann fékk lausn frá því. Læknisævi Guðmundar hefur náð yfir mjög viðburðaríkt tímabil í þróun handlæknisfræðinnar. Þegar hann hóf starf, var handlæknisfræðin um það bil að vaxa úr grasi. Meiri háttar skurðaðgerðir, sem nú um áratugi hafa verið gerðar daglega, voru þá sjaldgæf afrek. Þróunin upp úr fyrri heims- styrjöldinni varð hins vegar mjög ör, og þrátt fyrir einangrunina frá stóru nágrönnunum, tókst okkar aðalskurðlæknum, þeim Guðmundi Thorodd- sen, Matthíasi Einarssyni og Halldóri Hansen, að halda vel í horfinu. Þeir munu, hvað allar algengar skurðaðgerðir snerti, í engu hafa verið eftirbátar hinna stóru erlendis. Þessir þrír læknar mótuðu handlæknis- fræðina í landinu á 30 ára tímabilinu frá 1920 til 1950, og er þáttur Guð- mundar þar stærstur, enda hafa flestir núverandi skurðlæknar landsins verið nemendur hans. Sem kennari var Guðmundur mjög eftirminnilegur. Hann hafði ágætt vald á efninu,. framsetning skýr, litrík, á stundum full kímni, en alltaf hógvær. Hin augljósa hæfni hans sem skurðlæknis og kennara, kímnigáfa, Ijúfmennska hans og látleysi, gerði það að verkum, að hann var uppáhald allra stúdenta, og munu mörg þau vináttutengsl milli kennara og nemenda hafa haldizt æ síðan. Guðmundur var mjög fær skurðlæknir og farsæll í starfi. Góð þekking, róleg yfirvegun og yfirveguð dirfska voru einkennandi þættir í starfi hans. Hann var mannþekkjari, en mildur í dómum um breyzkleika annarra. Hins vegar hafði hann glöggt auga fyrir hinu skoplega og listræna hæfileika til þess að koma því á framfæri, en gætti þess ávallt að stera engan. Við nemendur Guðmundar minnumst hans ekki aðeins sem kennara okkar og læknis. í minningunni geymist ekki síður ljúfmennið, húmorist- inn og listamaðurinn Guðmundur Thoroddsen. Snorri Hallgrimsson. 5TÚDENTABLAÐ 48

x

Stúdentablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Stúdentablaðið
https://timarit.is/publication/350

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.