Stúdentablaðið - 01.12.1968, Blaðsíða 43
FYRSTII
HATÍDAHÖLDIN
háskólann. Svo segir um þetta í árbókinni:
„Fól háskólaráð, sem ekki hafði á móti
þessu, rektor að ræða málið við stúdenta-
ráðið.“
Og hvernig fóru hdtíðahöldin fram þenn-
an dag?
Ég reyndi það sem ég gat að undirbúa
dagskrána með stúdentum, og hefur hún
að sumu leyti haldizt í svipuðu sniði fram
að þessu: ræða af svölum Alþingishússins
og síðdegisskemmtun, sem fyrst var haldin
í Nýja bíó, en frá 1940 í húsakynnum há-
skólans. Ræða mín var prentuð í Morgun-
blaðinu, en ég hef ekki nennt að leita að
henni. En hún gerði sitt gagn, því að all-
mikill mannfjöldi safnaðist þarna saman
og fólk gaf færi á sér að bjóða því happ-
drættismiða, sem ég skal víkja að seinna.
Salan gekk prýðilega.
Um skemmtunina í Nýja bíó skal ég að-
eins geta þess, að ég heimtaði að stúdenta-
skáldin kæmu þar fram og læsu úr ljóðum
sínum. Því var heldur dauflega tekið, en
ég var harður við strákana og lét þá ekki
komast upp með moðreyk. Þeir voru fjórir,
að því er ég man. Langfeimnastur var
Magnús Ásgeirsson, sem las þarna fyrstu
þýðingar sínar, og ætlaði alveg að hníga
niður uppi á pallinum. Þeir Gretar Ó. Fells
og Sveinbjörn Sigurjónsson báru sig karl-
mannlega í þessari eldraun. En sá, sem var
skörulegastur og með öllu laus við að biðja
afsökunar á sjálfum sér, var Sigurður Ein-
arsson. Af þessum fjórum skáldum hefur
Sveinbjörn sýnt ljóðagyðjunni minnsta
ástúð á fullorðinsárum. En samt er ekki
líklegt, að framlag hans til ljóðagerðar
gleymist, því að þýðing hans á Internation-
alen er sungin enn í dag og ekki horfur á,
að önnur komi í hennar stað.
Ég hef viljað minnast á þetta meðal ann-
ars vegna þess, að mér finnst skemmtunina
1. desember ætti að nota til þess að láta
almenning lieyra, hvað ungu stúdentarnir
hafi að selja í sumblið. Nú á dögum ætti
úr öllum þessum fjölda að vera úr nógu
að velja, og fólki mundi eða ætti að vera
forvitni á því að kynnast með þessu móti
einhverjum af þeim viðarteinungum í ald-
ingarði bókmenntanna, sem síðar kunna að
verða þar miklar eikur.
Hvað gerðu menn til að afla fjár?
Stúdentar efndu fyrir fjársöfnunina
vegna Garðs til happdrættis og fengu sem
vinninga listaverk að gjöf. Þeir gengu að
sölu happdrættismiðanna af reginkrafti, og
m. a. fór Ludvig hringferð um landið í
þeim erindum. Þó að þetta happdrætti og
fjáröflun stúdenta til Garðs væri smávaxið
í samanburði við háskólahappdrættið síðar,
má fullyrða, að án þess hefði Gatður ekki
komizt upp eða a. m. k. miklu seinna —
og má vel staðhæfa, að þetta framtak hafi
rutt brautina fyrir margt af því, sem síðar
hefur gerzt í málum Háskólans og verið í
stærra stíl.
Þess er skylt að geta, að í sjóðinn til
Garðs bárust ýmsar góðir gjafir, og má þar
ekki sízt minnast á, að Jón Sigurðsson frá
Kaldaðarnesi gaf útgáfurétt að snilldarþýð-
ingu sinni af Pan eftir Knút Hamsun.
Hvers konar stofnun var Mensa academ-
ica?
Mensa academica, sem var til húsa uppi
á lofti í suðurenda húss Sigfúsar Eymunds-
sonar á horni Lækjargötu og Austurstrætis,
varð miðstöð stúdentalífs, sem áður var
ekki til og aldrei hefur verið slík síðan né
verður þangað til stúdentar eignast félags-
heimili. En það hefur dregizt allt of lengi,
enda málið ekki sótt svo fast af stúdentum
sjálfum sem Garðmálið á sinni tíð. Mensa
var fyrst og fremst mötuneyti. Því var
stjórnað með ágætum og var fjölsótt, líka
nokkuð sótt af eldri stúdentum og margir
kennarar Háskólans komu þar við og við
að fá sér kaffibolla. Staðurinn var ákjósan-
legur og það mötuneyti, sem í seinni tíð
hefur verið á Garði, var ekki reist svo um
þjóðbraut þvera, að það hafi laðað til sín
aðra gesti en hið fasta lið.
Með það fé í höndum, sem safnazt hafði
1. desember 1922, þótti tímabært að kjósa
Garðnefnd til frekari framkvæmda og ráðs-
mennsku. Það var gert 3. desember, og var
Ludvig Guðmundsson kjörinn formaður
hennar, en Lárus H. Bjarnason fjár-
geymslumaður. En sú saga skal ekki lengra
rakin, Jjví að hér var einungis tilætlunin
að tala um upphaf þess, að 1. desember var
gerður að hátíðisdegi og stúdentar helguðu
sér hann.
43
STÚDENTABLAÐ