Vikan


Vikan - 19.09.1963, Blaðsíða 19

Vikan - 19.09.1963, Blaðsíða 19
og fylgjum við þeim síðari að málum. — Garðsbændur eru vel þekktir fyrir sitt fyrirmyndar fjárkyn, sem nefnt hefur verið Garðskynið. Meðan Starri fer til mjalta, röbbum við smástund við Björgvin og fáum að heyra hans sér- stöku skoðanir á ýmsum málum. ÞAÐ ERU PENINGAR I HVERJU SPORI. — Við erum nýbúin að fá rafmagn hingað frá Laxárvirkjuninni. Ekki er ég nú ýkja hrifinn af því, það er rándýrt. Áður en það kom höfðum við mótor. Annars er ég nokkuð stoltur, þetta er einstakt hér, sjáðu til, þetta er eins og danskur búgarður, húsin eru byggð í hálf- hring og mynda skeifu. Vegna þess hve stutt er milli húsa, varð lögnin mun ódýrari hér en víðast annars staðar og það eru peningar í hverju spori. BERUM ALDREI VATN í KIND. Hér berum við aldrei vatn í kind, brynnum fénu í lindinni hér neðanvið. Þessi útibrynning hefur mjög góð áhrif á féð. Vogarnir hér utanvið eru auðir allt árið. Kaldavermslið kemur undan hrauninu og hefur sama hitastig árið um kring. Hér er landið allt sundurrifið af gjám, suður og austur. Þessar gjár liggja allar frá suðvestri til norðausturs og svona er landið norður í Axarfjörð. Gjárnar hafa sem sagt stefnuna á Reykjanes. Hér sunnan við vatnið er landið eitt augnanet, alls staðar er vatn undir hrauninu, enda allar gjár fullar af vatni. Græni- lækur sem ekki er mjög vatnsmikill, er eini lækurinn sem rennur í Mývatn, svo einhversstaðar frá hlýtur vatnið að koma, sem Laxá flytur til sjávar. Norðan við vatnið er ótölulegur fjöldi tjarna. Einu sinni hefur landið sem Mývatn stendur á, verið alveg eins og umhverfið, eða mýraflákar og hraunbreiður. Það hefur líka verið skógi vaxið, það sanna trén sem enn þann dag í dag eru að koma í netin. Þau eru eins gild og trén í Ásbyrgi. Gaman hefði verið að eiga ljósmyndir af náttúruhamförum hér í sveit, frá upphafi, og geta séð þær breytingar, sem orðið hafa. DIMMUBORGIR MYNDAST. Ég hefi verið samtíða Dimmuborgum í fimmtíu ár, og tekið eftir því, að þær eru aldrei eins í dag og þær voru í gær. Mönnum ber ekki saman um myndun Dimmuborga, en ég tel að þær hafi myndazt við jarðsig. í einum hamförunum hefur landið sigið og klettarnir sem standa eins og gorkúlurætur á víð og dreif um svæðið, eru til orðnir vegna mismunandi bergþols. Aðalsönnun fyrir þessari skoðun tel ég þá að landið í kring er í sömu hæð og hæstu klettarnir á svæðinu. Þetta hefur verið eins og þegar kona hristir köku í ofni og kakan fellur. — Maður skyldi ekki alltaf syrgja þegar hraun rennur yfir gróið land. Það fallegasta á yfirborði jarðar er gróið hraun. Þó maður leggi geðillur upp í brunann, hlýtur maður að verða góður maður af þeirri fegurð sem þar er að finna. Ég hefi margreynt þetta sjálfur. Nýrunnið hraun er áburðarbingur og sá áburður er á við útlendan áburð, hvað gæði snertir. Hvar sem sandkorn festir í hrauninu myndast gróður. MELGRASSKÚFURINN HARÐI. Vilhjálmur Stefánsson segir að feitustu lönd jarðarinnar, séu þau sem liggja við heim- skautið, þar sé kjarnmest gras. Ég er ekki trúgirnismaður, en ég hefi staðið undrandi frammi fyrir melgrasinu, þar sem það hefur fest rætur í sandinum. Sandtaðan er kjarnmikið gras, ærnar eru á þriðja dægur að melta það. En þær eru vandlátar á það eins og annað fóður, en það fer mikið eftir fjárkyninu. Vandlætið virðist vera ættgengt. Hér í Garði standa óbornar ær í sandtöðunýgræðingnum á vorin, en bornar þyrstir þær og leita þá á ljúfara land. Hraunið er góður hagi og aldrei hefur það komið fyrir hjá okkur að fé hafi fennt hér í brunanum. NÚ ER ÉG FEIGUR. Það bezta sem maður gerir er að byggja. Ég byggði hrútakofa árið 1919 og hefi byggt eitthvað á hverju ári síðan. En nú er ég feigur, því að ég byrjaði að byggja hrútakofa í gær. Fyrsta árið sem ég bjó, heyjaði ég 90 vættir og átti ekki nóg hey handa kind- unum mínum. Ég beitti þeim því á Garðs- brunann, átti ekki annarra kosta völ. Það hefi ég gert síðan en fékk í fyrstu á mig glópsorð og lá undir hvers manns gleri, en samt átti ég vænstu lömbin á haustin. Ég var líka fyrstur í sveitinni til að gefa síldarmjöl. Mest græddi ég á því að af- neita þingeysku fé. Hér var hver blóðdropi af einum ærlegg. Átta hrúta hefi ég fengið frá Möðrudal. Fjárkynið hér í Garði hefur gengið frá föður til sonar, allt frá því Garður var byggður. Þorgrím- ur frá Baldursheimi, sem var langa, langa, langafi minn, byggði Garð um 1784, upp úr jörðinni Brjánsnesi sem stóð hér norð- an við, en hafði farið í eyði í móðuharð- indunum. GAMLIR, GÓÐIR DAGAR. Aldamótakynslóðin var bezta kynslóðin. Ég man ennþá eftir gömlu baðstofunni sem rifin var árið 1902. Að sitja barn á baðstofugólfinu og hlusta á blessað fólkið tala saman. Þá sló aldrei í brýnu, hvert orð var yfirvegað. Fólkið var að vakna og kasta huldufólkstrúnni. Og hlusta á sögurnar sagðar í rökkrinu á kvöldin eða rímur kveðnar og hver hönd vinnandi að tóskap eða netagerð. Reglufestan gaf heimilunum gildi, til dæmis var allt kúafóður tekið til og vigt- að á mörgnana, áður en dagsverk hófust. Og hlusta svo á brjálæðingana í dag, þetta eru taugaveiklaðir aumingjar! ★ VIKAN 38. tbl. — Jt)

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.