Menntamál - 01.10.1953, Blaðsíða 40
106
MENNTAMÁL
hætta við förina. Hinir fjórir sigldu fyrst til Noregs með öðrum skóla-
félögum sínum og slógust svo i för hinna rosknu kennara í Kaup-
mannahöfn.
Þótt viðstaðan væri ekki löng í Danmörku og skólar komnir á
lokasprettinn, kynntumst við þar ýmsu markverðu í skólamálum og
athyglisverðu fyrir okkur. Að þessu sinni verður það ekki rakið frekar,
en kannske vinnst tækifæri til að minnast á sumt af því síðar. Fæstir
þátttakenda í þessari utanför höfðu „siglt" fyrr, enda var það að öðru
jöfnu látið ráða vali manna í förina. Hér var því margt nýstárlegt að
sjá og girnilegt til fróðleiks. Ég fullyrði líka, að tíminn var vel notað-
ur, til að skoða söfn, skóla, kirkjur og aðra menningarstaði, en á þess-
um sviðum er arfur fortíðarinnar mikill í Danmörku.
Þessir nítján fararlangar þekktust næsta lítið, þegar siglt var úr
höfn í Reykjavík. En samstilltari, geðþekkari og glaðværari förunauta
gæti ég aldrei kosið mér. Sá er dómurinn að fararlokum.