Heima er bezt - 01.01.1957, Side 20

Heima er bezt - 01.01.1957, Side 20
DULSKYNJANIR og DULSAGNIR FURÐUSÝN. , orjð 1891 fluttist faðir minn, Sören Einarsson, frá Björgum í Köldukinn í Suður-Þingeyjar- sýslu að Saltvík, sem er skammt sunnan við Húsavík. Faðir minn fékk ekki alla jörðina, Saltvík, til ábúð- ar. Mótbýlismaður hans var Sigurður Jónsson, sem nú 1944 — þegar þetta er skrifað — er bóndi á Máná á Tjörnesi og hefur búið þar um 40 ára skeið. Hann var þá liðlega tvítugur maður og bjó með móður sinni, Ingibjörgu Erlendsdóttur. Voru þau tvö á því heimili. Ekki man ég hvernig jörðin skiptist til ábúðar milli föður míns og Sigurðar, enda kemur það ekki þessu máli við. Sjálfsagt þótti að afla sjófanga í Saltvík á þeim ár- um. En faðir minn og Sigurður áttu ekkert, sem til sjósóknar þurfti, og urðu því að leita til annarra með allt þessháttar. Næsti bær norðan við Saltvík — eini bærinn milli hennar og Húsavíkur — er Kaldbakur; þar bjó þá Jósías Rafnsson, afi Karls Kristjánssonar, oddvita í Húsavík.1) Jósías var ágætismaður, greiðvikinn og hjálpfús, svo af bar þar um slóðir. Hann var sjómaður góður og selaskytta með afbrigðum. Átti hann jnargt, er til sjó- sóknar heyrði. Til hans leituðu áðurnefndir Saltvíkur- bændur venjulega með þess háttar, því hann bætti úr hvers manns þörf, ef unnt var, og það var eins og hann ætti alltaf úrræði til þess að hjálpa. Sunnudag einn milli fráfærna og sláttar 1891 voru faðir minn og Sigurður búnir að fá loforð hjá Jósíasi í Kaldbak um að hann lánaði þeim bát og fyrirdráttar- net. Ætluðu þeir að draga fyrir silung meðfram fjör- unum. Ef vel veiddist, hugsuðu þeir sér að fara með silung til Húsavíkur og selja hann sjómönnum þar til beitu. Á Húsavík var þá varla um aðra beitu að ræða, svo snemma á sumrinu, en silung úr sjó, ám eða vötn- um. Mig minnir að bændurnir legðu af stað að heiman í þessa veiðiför um klukkan fimm síðdegis þennan sumar- dag. Fóru þeir á hestum. Annars ætluðu þeir að taka bátinn og netið í svo- nefndum Gvendarbás, sem var aðallendingarstaður frá Kaldbak. Ég var á tíunda árinu og átti að gæta kvíánna þetta kvöld og koma þeim í hús til mjalta, þegar tími var til þess kominn. Þetta gerði ég. 1) Núverandi alþingismanns. Sigurbjörg Friðbjarnardóttir, stjúpa mín, mjólkaði ærnar, en ég hjálpaði henni með því að halda í þær á meðan hún mjólkaði. Þannig var skipað húsum í Saltvík, að bærinn stóð sem næst í miðju túni og sneri dyrum móti vestri að sjónum. Syðst var dálítil stofa með lofti yfir og þil- stafni að hlaði, þar næst bæjardyr allstórar og nyrst stór skemma, hvort tveggja með myndarlegum þil- stöfnum, sem sneru að hlaðinu. Á bak við þessi hús kom búr og eldhús, en þar fyrir aftan baðstofa, og við norðurstafn hennar fjósið. Bæjarlækurinn rann skammt frá suðurhlið stofunnar. Suðvestur frá hlaðinu féll hann í bunu. Þar var vatn tekið í fötur til heimilisnota. Við lækinn, neðan bun- unnar, var venja að láta allt sjófang til aðgerðar, þegar komið var heim með það. Túninu hallaði lítið eitt móti vestri, og voru pen- ingshúsin efst á túninu við túngarðinn. Eitt þeirra húsa var hesthús allstórt. Það sneri frá norðri til suðurs. Dyr þess voru á vesturhlið við norðurstafninn. Hesthúsið var notað sem kvíar þetta sumar. Ærnar voru mjólkaðar í því. Hurðin tekin af hjörunum og lögð á hliðina þvert fyrir dyrnar að innanverðu, svo birta fengist við mjaltirnar. Samkvæmt gamalli venju voru ærnar mjólkaðar tvisv- ar á hverju máli og fyrri og seinni mjölt ekki látnar fara saman, af því að seinni mjöltin þótti betri. Þegar stjúpa mín hafði lokið fyrri mjöltinni þetta sunnudagskvöld og var að hafa ílátaskipti innarlega í húsinu, fór ég fram í dyrnar til þess að líta út af bams- legri forvitni. Úr dyrunum blasti við mér bakhlið bæjarins, og þar var ekkert kvikt að sjá. En allt í einu sé ég, að faðir minn kemur framundan bænum, gengur suðvestur frá hlaðinu í átt til lækjarins og teymir hrossið, Sokku sína, með hnakknum og stórum langsekk á, er Sigurður átti. Ég kalla strax til stjúpu minnar og segi: „Pabbi er kominn heim.“! Hún trúir víst varla, en kemur fram í dyrnar og sér hið sama og ég. Við stöndum þarna í húsdyrunum og sjáum pabba teyma Sokku á blettinn þar sem venja er að láta sjó- fangið. Hann stanzar þar, lætur tauminn falla, gengur aftur með honum okkar megin, snýr baki að okkur, tekur undir langsekkinn og steypir honum yfir hnakk- inn af hrossinu. Sýndist okkur að talsvert mundi vera í sekknum af einhverri veiði. Að þessu búnu tekur pabbi beizlistauminn á ný og teymir hrossið til baka. Horfð- um við bæði á þetta allt, þar til hann og Sokka hurfu heim á hlaðið, sem bæjarhúsin skyggðu á. 18 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.