Heima er bezt - 01.01.1957, Blaðsíða 26
þau. Fólkið mátti kallast sæmilega klætt og bar engin
merki vanlíðanar. Enda sagði leiðsögumaðurinn, að í
raun réttri væru engin eiginleg „slum“-hverfi til í
Washington.
Eitt af sérkennum Washington eru negrarnir. Talið
er að um þriðjungur borgarhúsa séu litaðir, og rengi
ég ekki þá sögu, því að í stórum hverfum sést þar varla
hvítur maður á ferli, og í strætisvögnum voru þar tíðum
um í miklum meirihluta. Starfslið á hótelum, bílstjórar
og þjónustulið veitingahúsa er að miklum meirihluta
svertingjar, og sums staðar nær hver maður. Fæ ég
ekki neitað því, að mér geðjaðist fremur illa að þessu
fyrst í stað, en brátt fór það í vana, og er frá leið hætti
maður að veita því sérstaka athygli.
Eins og lesa má af, blaðafregnum eru negrarnir sífellt
eitt af vandamálum Ameríkumanna, en eingöngu þó í
Suðurríkjunum. Var mikið um þau mál ritað daga þá,
er ég dvaldi í Washington, en þá voru skólar almennt
að byrja, og í sumum bæjum neituðu hinir hvítu borg-
arar að beygja sig fyrir lögum og dómi hæstaréttar
um sameiginlega skóla hvítra manna og svartra, eða
jafnvel um sameiginlega notkun sporvagna. Kom á
nokkrum stöðum til óeirða og uppþota af þessum sök-
um, svo að lögregla hlaut að skerast í leikinn. Oss, sem
við engin slík vandamál eigum að búa, veitir oft ervitt
að átta oss á þessum málum, og finnst mikið um þessar
deilur. En vert er að minnast þess, að blöðin ræða
nær eingöngu þá hlutina, sem miður fara í þessum efn-
um, en lítið sem ekkert er rætt um það, sem unnizt
hefur. Enginn blaðamaður ræðir um allan þann fjölda
skóla, þar sem hvítir menn og svartir sitja saman á skóla-
bekk í sátt og samlyndi, eins og vera ber. Kom ég í
nokkra slíka skóla, og fékk ekki séð, að þar væri nokkur
vandræði í ferðum af hvorugra hálfu. En öll mistök,
sem verða í þessum málum, verða vitanlega blaðamat-
ur, ekki einungis innan lands, heldur um heim allan, og
þá oftast heldur gert meira úr en minna. Ekki skal haldið
uppi vörnum fyrir þeim, sem halda vilja uppi mis-
rétti svartra manna og hvítra, og beita í því efni hvers-
kyns bolabrögðum. En jafnrangt er það, að dæma af-
stöðu þjóðarheildarinnar eftir þeim ofstækis- og of-
beldismönnum, því að miklu meiri hluti hennar vill
láta negra njóta fulls jafnréttis, eins og þegar á sér
stað víðast hvar. En hitt er vitanlega ljóst, að það tekur
langan tíma að sigrast til fulls á aldagömlum fordóm-
um og jafnvel fjandskap, þrátt fyrir góðan vilja stjórn-
arvalda og löggjafar. En fullvíst er það, að með hverju
ári sækist nokkuð ár. En engin lög fá breytt hugarfari
manna á svipstundu, en ætíð og alls staðar geta nokkrir
æsingamenn valdið furðumiklu tjóni, og er það ekk-
ert sérkenni á Ameríku, nema síður sé. En mörgum
borgara fer sjálfsagt líkt og konunni, sem blaðamaður
spurði að, hvað hún eiginlega hefði mest á móti sam-
skólum hvítra unglinga og svartra. Hún svaraði: „Mér
er það óbærileg tilhugsun að eignast þeldökk barna-
böm, en sameiginlegir skólar greiða mjög fyrir trúlof-
unum og giftingum negra og hvítra manna.“ Annars
eru menn vongóðir um, að þetta mál leysist áður en
langt líður. Háskólakennari einn sagði við mig, að vel
mætti svo fara, að þetta vandamál yrði úr sögunni fyr
en nokkurn varði, því að negrarnir vilja af heilum hug
verða fullgildir amerískir borgarar og tileinka sér
menningu og hætti samborgara sinna, og almennings-
álitið og löggjafarvaldið vinna markvíst að þvi, að hér
megi verða ein þjóð, án tillits til litar eða annars.
Að endingu var farið með okkur um eitt nýbyggðar-
hverfi utan við meginborgina. Allir amerískir bæir þenj-
ast mjög út. Fólkið flytur úr miðbæjunum og út fyrir
hin gömlu borgatakmörk, og þar rísa upp heilir borgar-
hlutar á örskömmum tíma. Eingöngu eru byggð ein-
býlishús, ein hæð með stórum garði umhverfis. Götur
eru breiðar, og umferðin er þar tiltölulega greið. Jafn-
skjótt og byggðin eykst, eru í hverju hverfi reist kirkj-
ur, samkomuhús og kvikmyndahús og annað það, sem
heyrir til félagslífi borgaranna. En í stað margra
dreifðra verzlana er í miðju hverfinu komið upp svo-
nefndum „Supermarket“. Þar eru ótal sölubúðir í einni
byggingu, og má í þeim kaupa allt milli himins og jarð-
ar. Húsmóðirin eða bóndinn þarf ekki að hlaupa langa
leið til að kaupa daglegar lífsnauðsynjar, heldur er þær
að fá á einum stað. Sjálfsafgreiðsla er alls staðar, þar
sem því verður við komið. Eg skoðaði þarna matvöru-
deildina, en þar var ekki einungis að fá allt matarkyns,
heldur einnig hreinlætis- og snyrtivörur, barnaleikföng,
blöð og bækur, eldsneyti, flest áhöld til daglegra þarfa
og hamingjan má vita hvað. Matvæli öll voru í snyrti-
legum umbúðum og í mismunandi stórum bögglum,
allt eftir hæfi hvers og eins. Hægt var að fá þar bæði
hráan mat og soðinn, og lifandi fiskar syntu þar í ker-
um, en einnig var þar ísaður fiskur og frystur o. s. frv.
Auglýsingaspjöld voru hvarvetna, til þess að leiðbeina
viðskiptamönnum um, hvar hvaðeina væri að finna, og
var það furðu létt, þótt búðin væri stór, og hundruð
manna þar inni að verzla. Kynntist ég seinna einni slíkri
búð betur vestur í Palo Alto, og sá þá af eigin reynslu
hvílíkt hagræði er að þeim. Þegar við ferðalangarnir
höfðum skoðað okkur um, eins og okkur lysti í „super-
market“, var ekið heimleiðis, enda var nú dagur kom-
inn að kvöldi.
Smithsonian Institution, aðalbyggingin.
24 Heima er bezt