Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 18

Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 18
mig. Samt kemst ég á fætur með stuðningi einhvers. Loks þekki ég manninn, sem hjá mér er. Það er Kristján, og hann er að spyrja, hvað fyrir mig hafi komið. Eg segi honum, að liðið hafi yfir mig. Eg átti vanda fyrir aðsvifum af þessu tagi fram eftir aldri. Smátt og smátt tók hugsun mín að skýrast, en hjartslátturinn var lengi að jafna sig. Ég titraði allur, en er ég hafði náð mér okkurn veginn, tók Kristján að segja mér frá förum þeirra félaga. Það var hann, sem ég hafði séð uppi á borginni, og hann sagðist hafa séð mig vestur á hraun- inu, og einnig til hinna tveggja, er rofaði til. En svo gekk þreifandi él yfir. Síðan hvarf allt í renningskófið. Halda þeir síðan allir áfram, unz þeir koma þangað, sem við áttum að hittast. En þá vantaði mig. Biðu þeir svo um hríð, en skildist svo að lokum, að eitthvað meira en lítið myndi hafa tafið mig, og sendu svo Kristján af stað að leita að mér. Var þá að mestu leyti fennt yfir mig, en hann sá stafinn minn standa upp úr fönninni og fann mig því strax. Kristján tók nú af mér baggann og bar hann það, sem eftir var til félaga okkar. Ég átti mjög bágt með að ganga fyrst í stað, en smáhresstist, og er ég kom til félaga okk- ar, var ég orðinn góður til gangs, en verk hafði ég enn fyrir hjartanu. Þarna voru nokkur hross saman komin, og voru nú pjönkur okkar settar á þau og síðan haldið af stað aust- ur að Sæluhúsi, en leitað samt eitthvað á leiðinni. Við skildum hestana eftir fyrir austan Nýjahraun í góðu mellandi hjá nokkrum hrossum, sem þar voru fyrir. Og þarna voru hrossin frá Kálfaströnd. Um kvöidið komum við að Sæluhúsinu og fengum okkur að borða og hituðum okkur kaffi. Áin var á ís (Jökulsá á Fjöllum) og var ákveðið að fara austur að Grímsstöðum og gista þar um nóttina. Um kvöldið var orðið sæmilegt veður, allbjart, en hvasst á vestan með dálitlum renningi. Á Grímsstöðum áttum við góða nótt. Morguninn eftir var ég orðinn vel hress, enda veitti ekki af því. Við áttum langa göngu og erfiða fyrir höndum. í birtingu um morguninn 26. febrúar lögðum við af stað frá Grímsstöðum og vestur á öræfin. Veður var bjart, en mikið frost og suðvestan stinnings kaldi og ágætt skíðafæri, svo að okkur skilaði vel vestur Fjöllin. Það var ákveðið að smala allt svæðið fyrir austan Nýja- hraun þennan dag og fara síðan heim daginn eftir, ef við fyndum alla þá hesta, sem við áttum að koma með. Þegar að Sæluhúsinu kom, fengum við okkur bita af nesti okkar og stungum í vasa okkar, en hitt skildum við eftir og einnig yfirhafnir okkar, svo að við yrðum sem allra léttastir á göngunni. Síðan var skipt liði og smalað allan daginn og hestar taldir og teknir frá þeir, sem heim áttu að fara. En er við komum saman um kvöldið, varð þess vart, að jörpu hryssuna frá Baldursheimi vantaði, en það þótti okkur verst af öllu, því að hún var holdaminnst af öllum hross- unum. Við ákváðum því að leita hennar daginn eftir, þó að við annars hefðum ætlað okkur heim þann dag. Eftir þennan leitardag var svo ákveðið að heimsækja Sigurð bónda í Hólsseli og gista þar. Tókum við síðan stefnu þangað og komum að Hólsseli seint um kvöldið, þreyttir og þyrstir eftir erfiðan dag og árangurslausan.1) Stórhríðarbylurinn. Hinn 27. febrúar 1908 mun vera einn sá minnisstæð- asti dagur, sem ég hef lifað. Og engum okkar datt í hug, er við fórum frá Hólsseli um morguninn vestur á öræf- in, að það ætti fyrir okkur að liggja að berjast við þann langversta stórhríðarbyl, sem gengið hafði yfir Norður- land um langa hríð og olli tjóni á mönnum og skepnum. En þetta lá þó fyrir okkur þennan sama dag, og skal nú sú saga sögð, eins og ég man hana bezt enn í dag. Það var ekki orðið bjart af degi, er við lögðum af stað frá Hólsseli vestur á Fjöllin í leit að þeirri jörpu Svo var um talað, að við kæmum aftur að Hólsseli um kvöldið. Veður var hið sama og undanfarna daga, bjart með stinningskalda á suðvestan. Nú var ætlunin að fara yfir allt sama svæðið og daginn áður og jafnvel enn víð- ar, ef tími ynnist til. Ekki var fullbjart orðið, er við komum að Sæluhúsinu. Töfðum við þar lítið, nema á meðan við vorum að ná okkur í nestisbita, sem við þurft- um að hafa með okkur. Síðan var haldið af stað. Við Benedikt fórum suðvestur á Fjöll, en þeir Sigfinnur og Kristján ætluðu að leita meðfram Nýjahrauni, og á- kváðum við að hittast aftur á svipuðum slóðum og dag- inn áður. Nú var haldið út á Fjöllin enn á ný, og leið dagur fram að hádegi. En þá vorum við Bensi komnir á á- kvöíðunarstað og biðum þar eftir hinum, en þeir komu ekki. Okkur kólnaði fljótt, því að við vorum sveittir af göngunni. En nú tók að draga til tíðinda. Sáum við nú kolsvartan. þokubakka koma upp fyrir sjóndeildarhring í norðri, og virtist vera allmikill asi á honum, tættust brúnirnar á honum sundur af miklum stormi, og var okkur ljóst, að innan skamms myndi verða komin iðulaus stórhríð. Við sáum brátt, að gagnslaust myndi vera fyrir okkur að dveljast þarna lengur, því að nú var aðeins tímaspurs- mál, hvenær veðrið næði suður, á öræfin. Lögðum við nú af stað í áttina til Sæluhússins, og vorum þess vissir, að hinir myndu brátt gera slíkt hið sama. Enn var vind- urinn á suðvestan, en brátt myndi hann verða að láta í minni pokann fyrir Norðra konungi. Við hröðuðum nú göngunni sem mest við máttum, og um kltrkkan tvö vorum við komnir heim að húsi, en ekki þeir Sigfinnur og Kristján. Hríðarbakkinn hækkaði óðfluga, og við óttuðumst, að félagar okkar myndu ekki koma nógu snemma í húsaskjól, áður en hríðin skylli á. En rétt fyrir klukkan þrjú renndu þeir sér heim að hús- inu, og var þá byrjað að hríða, en komið logn. En nú var ekki til setunnar boðið, því að heim að Hólsseli ætluðum við um kvöldið. 1) Hryssan jarpa fannst ekki fyrr en nokkru síðar, er veður batnaði og farið var í aðra göngu. Komst hún þá heim heil á húfi. 166 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.