Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 29

Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 29
- þrengslum, þrýsti henni aðeins fastar að sér. Þessi fáu orð voru eins og hnífstunga í sakbitna sál hans. Svo að hún vissi þá, hvað fram undan var. Veikindi, dauði og gröf. — Þó hafði hún aldrei talað æðruorð, en þolað þegjandi skilningsleysi hans og ónærgætni. Hann tók hana á handlegg sinn og bar hana út á hlaðið. Hún var orðin fislétt. Hann fann tár hennar væta kinn sína. „Ég á eftir að kveðja hana Geirlaugu,“ sagði hún allt í einu. „Ekki má það gleymast." Hann bar hana inn aftur. Karen stóð við rúm Geirlaugar, sem grét með þung- um ekka. „Ef hún Geirlaug nær ekki þeirri heilsu, að þér finn- ist hún vinna fyrir mat sínum,“ sagði Karen, þegar Kristján kom inn, „þá tekur Stefán í Þúfum hana.“ Svo kvöddu mæðgurnar Geirlaugu. „Þú þarft engu að kvíða,“ sagði maddaman við hana. „Ég skal sjá um að þér líði sæmilega.“ Bleikur stóð á hlaðinu og reiðhestur Laugu. Konurnar ætluðu að ríða af stað á undan. Kristján lyfti konu sinni í söðulinn og rétti Laugu tauminn. „Hann verður sjálfsagt of viljugur fyrir hana.“ Þá þeyttist Gerða frá Garði heim á hlaðið. Hún var móð og másandi. „Ég má til með að kveðja hana Rósu mína,“ sagði hún og snaraðist að henni og margkyssti hana og þakk- aði henni fyrir allt gott og óskaði henni góðrar ferðar og góðs bata. Ekki er nú hægt að sjá að hún sé mjög hrædd við Rósu, hugsaði Kristján. Gat það verið, að móðir henn- ar væri að leika sér með svo hræðilega lygi, til þess að koma þeim mæðginunum burtu. Nei, það var óhugs- andi! Jón litli hoppaði rétt framan við hausinn á Bleik. Hann hrökk til hliðar, og Rósa var næstum hrokkin fram úr söðlinum, en Gerða kom henni til hjálpar. „Ja hvað er nú þetta?“ sagði Gerða. „Ef þú hefðir hrokkið af baki, þá hefði mátt segja, að fall væri farar- heill! Náttúrlega kemurðu til okkar aftur.“ Jóhanna og Bogga komu út á hlaðið til að kveðja húsmóður sína. Þær réttu henni hendina í kveðjuskyni, en hún kyssti þær báðar. Síðan riðu þær vinkonurnar úr hlaði. Vikapilturinn fór á undan ofan að hliðinu og teymdi reiðingshestinn. Jóhanna fór inn með Jón litla. Hann mátti ekki fara án þess að kveðja Geirlaugu. Kristján settist í hnakkinn og beið drengsins. Gerða rétti honum hann, eftir að hafa kysst hann á kinnina. „Þú hjálpar maddömunni á bak, Gerða mín,“ sagði Kristján. „Hún fór út í kirkjugarð en fer víst að koma bráðlega.“ Svo reið hann af stað. „Það eru þá allir farnir,“ sagði Karen, þegar hún kom aftur heim á hlaðið. Gerða heilsaði henni og þakkaði henni fyrir allt gott og gamalt: „Ætlið þið að fara með drenginn suður?“ spurði hún og horfði á eftir feðgunum. „Já, hann fer með okkur.“ „Það held ég Kristjáni þyki sárt. Honum þykir svo ósköp vænt um barnið. Það verður eyðilegt hér, þegar þau eru bæði farin,“ sagði nú Gerða. „Mikil ósköp eru að sjá það, hvað hún er orðin mögur, blessunin hún Rósa. Éíklega hefur yður ekki litizt á blikuna, þegar þér sáuð hana? Vissuð þér nokkuð um, að hún hafði verið veik?“ „Já, annars hefði ég ekki komið norður,“ svaraði Karen. „En það verð ég að segja, að mér datt aldrei í hug að aðkoman yrði eins ömurleg og raun varð á: Rósa upptærð í rúminu, en drengurinn eins og útigangs- hestur. Um heimilið ætla ég ekki að tala að öðru leyti.“ „Kristján auminginn hefur líka átt erfiða daga í vor. Þetta vinnufólk er svo lélegt. Það eru meiri vandræðin, hvað honum gengur illa að fá fólk, sem eitthvað getur,“ sagði Gerða. „Þarna kemur önnur manneskja, sem talar hlýlega á bak Kristjáni og talar um að ævi hans sé erfið,“ hugsaði Karen. Stefán í Þúfum hafði sagt það sama. „Það þarf enginn að hugsa sér að búa stórbúi, ef hann getur ekki búið svo að vinnufólki sínu, að það tolli hjá honum,“ sagði hún upphátt. „Það vona ég, að Rósa mín hafi ekki fengið það orð að hún væri slæm við hjú sín.“ „Nei, það er áreiðanlegt að hún fær almennings lof, sú kona,“ sagði Gerða. Hún horfði hissa á að mad- daman fór að klæða sig í reiðfötin, sem hún átti þegar hún bjó á Hofi. Karen sá þetta og brosti: „Svona er það, Þorgerður mín. Hér er ég komin í reiðfötin, sem ég bað Laugu mína að brenna, þegar ég kvaddi úti á Eyrinni seinast, því að ég ætlaði mér þá ekki að koma norður aftur. En nú er þetta skeð á einni viku.“ Svo gekk hún ennþá einu sinni inn til Geirlaugar áður en hún yfirgæfi heimilið. Gerða beið úti og hélt í taum- inn á hestinum. „Jæja, þá eru nú loksins afstaðnar kveðjurnar,“ sagði hún, þegar hún kom út. „Þér vilduð kannske vera svo vænar að líta inn til Geirlaugar. Hún er svo hrvgg, auminginn.“ Gerða hjálpaði maddömunni í söðulinn og fylgdi henni ofan að hliðinu, því að strákflónið hafði'látið það aftur og var farinn að bera af úti í túnjaðri. „Það er nú svona,“ malaði Gerða á leiðinni ofan eftir. „Afér verður aldrei öðruvísi en vel við Kristján. Það eru góðir partar í honum. Hann er náttúrlega vinnuharður, og svo er hann einn af þeim, sem ekki geta þolað að nokkur manneskja verði lasin. Heldur að það sé allt uppgerð. Hann er svo sem ekki sá eini, sem svo hugsar. Þeir eru svona fleiri, þessir heilsuskrokkar. Hann gat víst aldrei trúað því, að Rósa væri eins veik og hún hefur verið eftir útliti hennar að dæma. Eins gekk það þegar drengurinn var lasinn. Hún tók þau til sín, Rósu og drenginn, læknisfrúin, Þar voru þau, þangað til Heima er bezt 177

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.