Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 31
ræskti sig erfiðlega. — Alltaf var það móðirin, sem átti
hug og hjarta barnsins en faðirinn traustið.
Þeir mættu maddömu Karen á þilfarinu.
„Ykkur lá mikið á, að geta ekki beðið eftir okkur,“
sagði Kristján og reyndi að bæla niður gremjuna. „Ég
hefði snúið við heim, ef drengurinn hefði viljað það,
en hann getur ekki verið annars staðar en hjá mömmu,
blessaður drengurinn.“
„Jæja, varstu að hugsa um það að láta konuna fara
fatalausa og taka frá henni barnið. Það var göfugur
hugsunarháttur,“ sagði hún, og honum fannst augu
hennar skjóta neistum. „Þú hefur ekki getað ímyndað
þér að hún þyrfti að fara að komast í rúmið. Þó að
veðrið sé gott, þá er kvöldsvalinn kominn.“
„Hvar er Rósa?“ spurði hann hranalega. „Ég fæ þó
líklega að kveðja hana. Þú vilt kannske gæta að drengn-
um, að hann fari ekki í sjóinn, á meðan ég fer niður.“
„Það er víst engin hætta á að hann geri það,“ svaraði
hún köld og róleg.
Þá kom Lauga í Þúfum upp á þilfarið: „Nú, þarna
ertu, Kristján, Rósu langar til að tala við þig í einrúmi,“
sagði hún.
„Þú vilt kannske vera svo góð að fylgja mér til
hennar. Ekki veit ég, hvar þið hafið holað henni niður.“
„Já, auðvitað ætlaði ég að gera það, maður,“ svaraði
hún.
Þau fylgdust að niður stigann. Hún fylgdi honum að
káetudyrunum: „Þarna er hún,“ sagði Lauga.
Já, þarna lá hún í þröngri koju, sem minnti hræðilega
á líkkistu, náföl og með aftur augun. Kristján skelfdist,
þegar hann sá Rósu á ný, og færði sig nær henni.
„Ég er hérna, góða mín,“ sagði hann óstyrkri röddu.
„Ertu ekki mikið veikari en þú varst í morgun? Mér
sýnist þú svo hræðilega föl.“
„Ég hef víst ekki verið mjög blómleg undanfarnar
vikur,“ sagði hún. „En mér finnst ég vera svo hugmikil
og vongóð, fyrst ég er lcomin til mömmu. Nú veit ég,
að allt verður eins og áður á milli okkar.“
„Hefur eitthvað ekki verið eins og það átti að vera á
milli ykkar?“ spurði hann.
Hún svaraði þessu ekki en sagði: „Ég þarf að tala svo
margt við þig, Kristján, mikið meira en tími vinnst til,“
og svo bætti hún við: „Það má víst búast við því, að við
sjáumst ekki strax. Kannske aldrei framar, og líklega
get ég ekki skrifað þér heldur.“
„Talaðu ekki svona, Rósa. Ég þoli ekki að hlusta á
það og get ekki hugsað til þess. Þetta hlýtur að vera
einhver ímyndun úr móður þinni. Læknirinn hefði
verið búinn að segja mér það, ef eitthvað væri hættu-
legt á ferðum. Kannske hefur móðir þín fundið upp á
þessu til að ná þér og barninu burtu frá mér.“
„Upp á hverju?“ spurði hún. „Nei, það hefur hún
ekki gert, en’mér hefur sjálfri dottið það í hug. Mér
fannst það grunsamlegt, að mér skyldi ekki geta skánað
eins og öllum öðrum.“
„Því talaðirðu aldrei um það við mig?“
„Það hefði lítið þýtt. Þú gazt aldrei skilið, hvað ég
var veik. Hefur víst haldið, að það væri móðursýki, sem
að mér gengi.“
Hann ræskti sig erfiðlega: „Geturðu fyrirgefið mér
skilningsleysið og ónærgætnina, elsku Rósa mín? Ég á
svo bágt með að umgangast veikt fólk. Við megum ekki
skilja sem óvinir.“
Hún rétti hendurnar til hans. Hann beygði sig niður,
svo að hún gæti lagt þær utan um hálsinn á honum, og
hvíslaði: „Ég ætla að gleyma öllu nema því, sem gott var
í sambúðinni. Vertu sæll, vinur. Þú færð drenginn, þeg-
ar ég... “
Hann gat ekki þolað að hún botnaði þessa setningu.
„Hvað var það, sem þú ætlaðir að segja við mig?“
greip hann fram í.
„Það var svo margt. Kannske get ég skrifað þér. Þú
fargar ekki orgelinu og lætur engan snerta það, fyrr en
Jón litli er búinn að læra að þekkja nótur, og skepn-
urnar mínar máttu heldur ekki selja.“
„Það kemur varla til þess að ég fari að selja skepn-
urnar. Þú kemur heim aftur. Þá verður allt betra en það
hefur verið, og þá bíður orgelið eftir þér og skepn-
urnar líka.“ Hann kyssti hana tvo kossa á ennið.
— Hann þorir ekki að kveðja mig almennilega, hugs-
aði hún og losaði handleggina af hálsi hans.
Þá var hurðin opnuð, og Jón litli hentist inn á gólfið.
Amma hans stóð í dyrunum: „Hann þoldi ekki lengri
bið að sjá mömmu sína,“ sagði hún.
Kristján kvaddi nú drenginn. — Síðar fannst honum
að hann hefði gert það allt of fljótfærnislega.
„Hvert ertu að fara, pabbi?“ spurði nú Jón litli.
„Ég er að fara heim með hestana, góði minn. Langar
þig ekki til að verða samferða?“-
„Því getur ekki Sveinki farið heim með hestana, þá
gætir þú farið með okkur. En ég kem heim á morgun,“
sagði Jón litli. „Ég má til með að vera hjá mömmu,
fyrst hún er veik.“
Kristján rétti Karenu höndina þegjandi og flýtti sér
upp á þilfar. Honum var svo þungt um andardrátt, að
honum fannst hann vera að kafna. — Hann vissi varla
af sér, fyrr en hann var búinn að taka hestana úr rétt-
inni, kominn á bak og reið í einum spretti heim melana.
Veðrið var eins og áður, rigningarsalli í hljóðlausu
næturhúminu. Kristján hefði heldur kosið að fá svalandi
golu á móti sér, til að kæla andlit sitt.
— Nú yrði strákurinn sjálfsagt sofnaður, þegar hann
kæmi heim, svo að hann gæti ekki flutt hestana frá.
En drengurinn var úti í túnjaðrinum að bera seinustu
hrúgurnar af blettinum, sem honum hafði verið ætlað
að ljúka við í gærdag. — Ekki voru afköstin mikil, en
samt ólíkt skárra að hafa hann en ekki neinn. Margt
sporið fór hann þó kringum ærnar, greyið litla, þótt
hann gæti aldrei þekkt nokkra skepnu, ekki einu sinni
þær, sem mislitar voru. Mikill munur eða Mundi litli,
sem þekkti næstum allar ærnar með nöfnum eftir sauð-
burðarranglið.
Heima er bezt 179