Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 22
Salingsdalur.
Guðrún mælti: „Skjótt hefur þú ráðið þetta,“ og
fannst það á öllu, að henni þótti miður.
Kjartan bað hana að láta sér ekki mislíka þetta og
kvaðst gera vilja einhvern hlut annan, er henni líki vel.
Guðrún segist þá vilja fara utan með honum.
Eigi kvaðst Kjartan geta leyft það, en bað hana að
bíða sín á íslandi um þrjá vetur.
Guðrún kvaðst engu um það heita, og skildu þau
ósátt, og reið Kjartan heim í Hjarðarholt.
Kjartan var svo ástsæll af félögum sínum, að tíu vinir
hans og félagar úr Dölum fóru utan með honum „fyrir
ástar sakir“, eins og segir í Laxdælu svo fagurlega. Þeir
vildu ekki við Kjartan skiljast. Einn af þessum ungu
mönnum var Bolli fóstbróðir hans.
Þeir félagar sigldu út Borgarfjörð Iéttan byr og góðan.
Þeim byrjaði vel og komu að Noregi við Þrándheim.
Þá höfðu þau tíðindi gerzt í Noregi, að til ríkis var
kominn Ólafur konungur Tryggvason. — Höfðu þá
Norðmenn flestir látið skírast til kristinnar trúar.
í Noregi komst Kjartan í mikla kærleika hjá Ólafi
konungi og gerðist honum handgenginn.
Fræg er sagan um þeirra fyrsta fund, er þeir þreyttu
kappsundið. Gaf konungur Kjartani öll klæði nýskorin
af skarlati, það er litfögru, góðu efni.
Sögðu það menn, að þeir konungur og Kjartan væru
jafnmiklir menn á velli, er þeir gengu undir mál.
Um það er ekkert fram tekið í sögunni, hvort Kjartan
taldi sig heitbundinn Guðrúnu Ósvífursdóttur eður ei,
en vegna deilu konungs við íslendinga í sambandi við
kristniboðið, varð Kjartan lengur í Noregi en áætlað
var, og mat konungur Kjartan umfram aðra menn, og
töldu það sumir, að hann vildi gifta honum systur sína
Ingibjörgu.
Það sama sumar, sem konungur bannaði Kjartani að
fara til íslands, ákvað Bolli fóstbróðir hans heimför sína
til íslands og fékk leyfi konungs til þess.
Er Bolli var ferðbúinn, gekk hann til Kjartans frænda
síns og fóstbróður og mælti: „Nú er ég búinn til ferðar,
og myndi ég bíða jaín næsta vetur, ef að sumri væri
lauslegra um þína ferð en nú, en vér þykjumst hitt
skilja, að konungur vilji þig fyrir engan mun lausan
láta en höfum það fyrir satt, að þú munir fátt það, er
á íslandi er til skemmtanar, þá er þú situr á tali við
Ingibjörgu konungssystur.“
Kjartan svarar: „Haf ekki slíkt við, en bera skaltu
frændum vorum kveðju vora og svo vinum.“
Eftir það skiljast þeir Bolli og Kjartan.
Skömmu eftir að Bolli kom heim í Hjarðarholt, reið
hann til Lauga að skemmta sér. Var honum þar vel
fagnað. Guðrún Ósvífursdóttir spurði hann vandlega
um ferðir hans en því næst að Kjartani.
Bolli sagði léttilega frá ferðum sínum, „en það, er
kemur til Kjartans,“ mælti hann, „þá er það með mikl-
um ágætum að segja frá hans kosti, því að hann er við
hirð Ólafs konungs og metinn þar umfram hvern mann.
En ekki kemur mér að óvörum, þó að hans hafi hér í
landi litlar nytjar hina næstu vetur.“
Guðrún spyr þá Bolla, hvort nokkuð valdi þessu ann-
að en vinátta þeirra konungs.
Bolli segir þá, hvert orðtak manna var um Ingibjörgu
konungssystur og Kjartan, og sagði það mál manna, að
konungur myndi vilja gifta Kjartani systur sína.
Guðrún kvað það góð tíðindi, „en því aðeins er Kjart-
ani fullboðið, ef hann fær góða konu,“ og lét þá þegar
falla niður talið, gekk á brott og var allrauð.
Það var grunur manna, að henni þætti þessi tíðindi
ekki svo góð, sem hún lét vel yfir.
Bolli var heima í Hjarðarholti þetta sumar. Hann
kom oft til Lauga og sat á tali við Guðrúnu.
Eitt sinn spurði Bolli Guðrúnu, hversu hún myndi
svara, ef hann bæði hennar.
Þá svaraði Guðrún skjótt: „Ekki þarftu að slíku að
spyrja, Bolli. Engum manni mun ég giftast, meðan ég
spyr Kjartan á lífi.“
Bolli kvað hana mega bíða lengi mannlausa, ef hún
ætli að bíða Kjartans. Skiptust þau síðan á nokkrum
orðum, og þótti sinn veg hvoru.
Síðan ríður Bolli heim.
Litlu síðar talar Bolli við fóstra sinn Ólaf og segist
vilja fara að staðfesta ráð sitt og fá sér konu.
Ólafur spyr, hver það sé.
Bolli segir, að hann vilji biðja sér til handa Guðrúnar
Ósvífursdóttur, og „hún er nú frægust kvenna,“ segir
Bolli.
Ólafur tekur þessu máli dauflega og segir, hvert orð-
tak var á um kærleika með þeim Kjartani og Guðrúnu.
En Bolli sækir sitt mál fast, og þegar rætt var við
Ósvífur, þá var hann þess hvetjandi og þeir bræður
Guðrúnar.
Fer svo að lokum, að Guðrún gefur.samþykki sitt, og
var brúðkaup þeirra Bolla haldið að Laugum. En um
hug Guðrúnar Ósvífursdóttur vissi enginn.
170 Heima er bezt