Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 28

Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 28
GUÐRÚN FRÁ LUNDI SAUTJÁNDI HLUTI Maddaman gekk heimleiðis. Jón litli hoppaði við hlið hennar og sagði henni frá litla folaldinu, sem væri fætt frammi í Seldrögum. Það væri Grána hennar mömmu, sem ætti það. Hann ætlaði að fara með pabba til að sjá, hvað það væri fallegt, en fyrst færi hann þó með stóra skipinu til Reykjavíkur. Ójá, einhvern tíma var sú tíð, að ánægjulegt var að heyra, að lítil folöld bættust við skepnuhópinn, en það var orðið langt síðan! Skyldi það geta skeð, að hún ætti eftir að lifa slíkt upp aftur? — Mikið var nú jörðin hennar falleg, og mikið hafði þúfunum fækkað á þess- um sjö árum, sem Kristján hafði búið hér. Þarna niðri á hesthúsvellinum, þar sem áður var þúfnakargi, var nú komin stór og falleg slétta með bylgjandi grasi. Henni hlýnaði talsvert í hug til tengdasonar síns. Kristján kom skálmandi á eftir þeim. Hann yrði að raka sig og hafa fataskipti, því sjálfsagt þyrfti hann að fylgja ferðafólkinu úr hlaði. Skeð gat líka, að kerlingin heimtaði að hann færi alla leið til Reykjavíkur. — Það væri svo sem ekki óþægilegt að fara frá heimilinu, eins og þar var fáliðað núna! Þegar Kristján hafði rakað sig og skipt um föt, fór hann inn í hjónahúsið. Þar stóðu tvö koffort, rúmfata- poki og kassi, sem allt átti að flytjast burt. Þá mundi hann það, að hann hafði ekki lagt neinn reiðing á hest- inn, sem hann hafði þó ætlað að flytja á. Það hafði allt lent í því að jagast við kerlingarfíflið! Svo óvirðulega nefndi hann hana í huganum. Rósa stóð við rúmgaflinn, klædd í fallega kjólinn, sem hún hafði saumað handa sér fyrir jólin. Þá hafði hún verið svo falleg, þrýstin og blómleg. Nú var eins og kjóllinn væri hengdur á herðatré, og hún var föl eins og vofa. Hvernig gat hann hafa verið svona blindur, að sjá ekki, hvað hún var orðin torkennileg? — En Kristján reyndi að róa sjálfan sig með því, að Rósa hefði litið betur út í rúminu en á fótum. „Elsku Rósa mín,“ sagði hann óstyrkri röddu, „held- urðu að þú getir setið á hestbaki út á Eyrina? Ósköp er að sjá, hvað þú ert orðin mögur.“ „Ég reyni það,“ sagði hún lágt. „Mér finnst að ég muni geta allt, þegar mamma er komin.“ Karen benti á koffortin. „Nú má þetta fara út, Krist- ján. Ég held, að það hafi ekkert gleymzt. Sjálfur þarft þú ekki nema út á Eyrina. Það er læknir á skipinu og svo skipsjómfrúin, boðin og búin til alls. Þú átt nú sjálf- sagt ekki þægilegt með að fara lengra frá heimilinu." Hún talaði alltaf til hans eins og hún væri húsmóðir hans en ekki gestur á heimilinu. Kristján snaraðist út með koffortið og kassann og sótti svo hitt á eftir. — Nú var vikastrákurinn kominn heim, svo að hann gæti lagt reiðinginn á með honum og sótt fatapokann. Hann flýtti sér að binda koffortin. Síðan fór hann inn aftur. Nú var kona hans komin í kápu og með hvítt yfir- sjal um höfuðið. „Nú er ekkert eftir, nema við Lauga eigum eftir að smeygja okkur í reiðfötin,“ sagði maddaman. „Viltu ekki setjast hérna á meðan, góða mín?“ „Ég ætla að sjá orgelið mitt áður en ég fer,“ svaraði Rósa. Kristján fylgdi konu sinni fram í skrifstofuna. Hon- um sýndist augu hennar loga af sársauka, þegar hún renndi þeim urn hjónahúsið í síðasta sinn. Var hún svona veik, eða tók hún það svona nærri sér að fara frá honum? Marga ástríka stund höfðu þau lifað í þessu húsi. Maddaman minnti dóttur sína á að kveðja hana Geir- laugu. „Ég kem inn aftur,“ svaraði Rósa. Hún opnaði orgelið og studdi holdlausum fingrun- um á nóturnar. Þær gáfu frá sér ósköp veika tóna. Þetta er síðasta kveðjan frá henni, hugsaði Kristján. Hann tók hana í faðminn, því honum sýndist hún ætla að rjúka um koll, þegar hún lokaði orgelinu.. Hún grúfði andlitið undir vanga hans og sagði í lág- um, grátklökkum rómi: „Þú mátt ekki selja orgelið, Kristján, eða láta nokkurn snerta á því, fyrr en Jón litli er búinn að læra á það.“ Hann gat ekki komið upp nokkru orði fyrir and- 176 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.