Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 35

Heima er bezt - 01.05.1959, Blaðsíða 35
HEIMA___________ BÓKAHILLAN Pálmi Hannesson: Frá óbyggðum. Reykjavík 1958. Menningarsjóður. I þessu bindi eru landslýsingar, ferðaþættir og dagbókabrot. Meiri hlutinn hefur verið prentaður áður á víð og dreif, en dag- bókarbrotin hafa ekki birzt fyrr. Jón Eyþórsson hefur búið bókina til prentunar. Pálmi Hannesson hafði óvenjulega skynjun á landi, ef svo mætti að orði kveða. Ef hann hafði augum litið, þótt ekki væri nema á hraðri ferð, eitthvert landssvæði, var sem mynd þess með hverjum drætti væri mörkuð óafmáanlega í huga hans. En þó drukknaði hann aldrei í smáatriðum. Þessi óvanalega gáfa kom honum að góðu haldi þegar hann síðar samdi lýsingar af lands- hlutum eða sagði ferðasögu. Hver dráttur í svipmynd landsins stígur þar fram ferskur og lifandi, og svo lá honum íslenzkt mál á tungu, að ætíð voru honum tiltæk hin snjöllustu orð, sem féllu að efninu. Af þessum sökum eru margar lýsingar hans nú þegar orðnar sígildar bókmenntir. Þar fer saman glöggskyggni og þekk- ing náttúrufræðingsins og orðhagleikur rithöfundarins. Allar ritgerðirnar í þessari bók eru með þessum einkennum höfundarins, en beztar þeirra þykja mér þó lýsingarnar af Land- mannaleið og Borgarfirði. Hins vegar er mestan nýjan fróðleik að fá úr frásögninni af Brúaröræfum. Það er með söknuði, sem ég fletti blöðum þessarar bókar. Sökn- uði yfir því, að ekki skuli vera von fleiri slíkra. En jafnframt rifj- ast upp óteljandi ánægjustundir frá sameiginlegum ferðalögum í skauti íslenzkra óbyggða. Þær stundir verða aftur nýjar við lest- urinn. Ég er þess fullviss, að Pálmi Hannesson vissi öllum sam- tíðarmönnum sínum meira um land vort og náttúru þess. Hann var hverjum manni skyggnari á þá hluti og snjallari í frásögn. Þessi bók gefur sýnishorn alls þessa. Barði Guðmundsson: Höfundur Njálu. Reykjavík 1958. Menningarsjóður. Þegar Barði Guðmundsson setti fyrst fram skoðanir sínar um höfund Njálu, vöktu þær meiri athygli almennings en títt var um ritgerðir af þvi tagi. Olli því annars vegar hin nýstárlega hug- kvæmni höfundar, sérkennileg starfsaðferð og óvenjulega ljós og skemmtileg framsetning. Eins og kunnugt er, entist honum ekki aldur til að gera grein skoðana sinna í samfelldu riti, en greinum hans um þetta efni hefur verið safnað hér í eina bók, sem þeir Skúli Þórðarson og Stefán Pétursson hafa búið til prentunar. Skrifar Stefán alllangan formála um Njáluskoðun Barða Guð- mundssonar, og tekur hann þar afdráttarlausa afstöðu með kenn- ingum Barða um það, hvernig Njála sé til orðin, og að höfundur hennar sé Þorvarður Þórarinsson. Enda þótt Barði Guðmundsson færi fram mörg rök fyrir máli sínu og allur málflutningur hans sé hinn bezti, er ég samt hrædd- ur um, að fleirum fari líkt og mér, að þeir láti ekki sannfærast. En það er heldur ekki aðalatriðið. Hitt er meira um vert, að höf- undurinn gefur lesandanum innsýn í sögu Sturlungaaldarinnar og afstöðu manna og málefna á þeim tíma. Sá skilningur er áreið- anlega miklum mun réttari en áður hefur verið almennt skoðað og léttir vissulega lestur Sturlungu. Má þar t. d. nefna öll skipti þeirra Þorvarðs Þórarinssonar og Þorgils skarða, sem þarna koma fram í æði frábrugðnu ljósi því, sem í Sturlungu er. Auk þessa er bókin mjög skemmtileg aflestrar. Má þar til dæmis benda á kafl- ana Regn á Bláskógaheiði og Myndskerinn mikli á Valþjófsstað. Magnús Jónsson: Saga Islendinga, IX. bindi, síðari hluti. Reykjavík 1958. Menningarsjóður. Með þessu bindi er lokið framlagi Magnúsar Jónssonar til hinn- ar miklu íslandssögu Menningarsjóðs. Var bindið rétt komið úr prentsmiðjunni, er höfundur þess lézt. Bindi þetta fjallar um menningarmál Landshöfðingjatímabilsins 1874—1903, svo og vest- urferðir og Vestur-íslendinga. Er þar skemmst frá að segja, að hér er um að ræða bæði bráðskemmtilega og fróðlega bók. Þarna er greinargott yfirlit um menningarmál tímabilsins, svo sem heil- brigðismál, skóla, kirkjuna, söfn, getið fræðimanna, og loks er langur þáttur um skáld tímabilsins. Höfundur kemur víða við og er hispurslaus í dómum sínum en um leið sanngjarn. Þótt skoðanir verði ætíð skiptar um einstök atriði, hygg ég þó, að furðumargir muni vera höfundi sammála í dómum hans, og að hann finni þar vel, hvar þjóðarhjartað slær gagnvart listamönnum og menntastefnum á síðari hluta 19. aldarinnar. Hins vegar get ég ekki aðhyllzt dóminn um ritstörf Þorvalds Thoroddsens.. Það er eins konar hefð að tala um hann sem lélegan rithöfund, af því að hann heldur sig við jörðina og ritar mælt mál tilgerðarlaust. Þá virðist mér fullkuldalega rætt um skólastjórn Björns M. Ól- sens og uppþotið gegn honum. Kaflinn um Vestur-lslendinga er glöggur og greinargóður en víða helzti stuttorður. Enda þótt hægt sé að benda á eitthvað smávegis, sem betur mætti fara, þá ber fyrst af öllu að þakka ágætt rit, og áreiðanlega verða þeir fleiri en ég, sem sakna þess sárlega, að höfundur þess skyldi ekki frá upphafi eiga meiri þátt í Islandssögunni, jafn vel og honum hefur tekizt með þetta bindi. Bjami M. Gíslason: íslenzku handritin. Jónas Krist- jánsson þýddi. Reykjavík 1958. Menningarsjóður. Um margra ára skeið hefur Bjarni M. Gfslason staðið í fremstu víglínu í baráttunni fyrir endurheimt íslenzkra handrita úr dönsk- um bókasöfnum. Vér höfum að sönnu heyrt um þetta starf hans hér heima, en rit hans og ritgerðir um efnið hafa hins vegar verið lítt kunn, og er slíkt naumast vanzalaust. Það var því vel gert að gefa út þetta meginrit hans á íslenzku, svo að allir mættu sjá, bæði hverjar eru varnir Dana, og á hvern hátt málið er sótt af helzta baráttumanni Islendinga. Er þar skemmst að segja, að málflutningur Bjarna er rökfastur, laus við alla áreitni í garð Dana, en gefur hverjum sitt. Höfundur segir í skýrum dráttum meginsögu handritanna frá þeim tíma, að tekið var að safna þeim til útflutnings af hálfu danskra stjórnarvalda. Sýnir hann þar, hversu fjarri sanni sú staðhæfing er, að flutningur handritanna úr landi væri nokkur björgunarstarfsemi. Hann hrekur allan málflutning Dana svo rækilega, að þar stendur ekki steinn yfir steini. Framsetningin er ljós og útúrdúralaus og með þeim hætti, að lesandann fýsir stöðugt að heyra meira. En jafnframt því sem rit þetta er góður fróðleikur, er það áminning til vor allra um það, að standa vel á verði um rétt vorn í þessu máli og sækja fram með meiri áhuga en verið hefur að þessu. Heima er bezt 183

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.