Heima er bezt - 01.01.1961, Blaðsíða 28
og allt annar maður. Feimnin hvarf skyndilega, mér
fannst ég geta allt, og ég verð svo innilega kaldur fyrir
öllu.
— Eg byrjaði þegar að dansa, að vísu var ég ekki
sérlega laginn í fyrstu, en það lagaðist furðu fljótt, því
nú skorti mig ekki áræðið. Jón veitti mér óspart af
sínu ágæta feimnis-meðali, og ég skemmti mér vel. Sag-
an endurtók sig stöðugt. Við félagarnir sóttum hverja
skemmtun sem við gátum, oft í fjarlægar sveitir, og
létum enga vegalengd aftra okkur. Jón átti alltaf nóg
áfengi handa okkur báðum, og ég varð brátt sólginn í
að dansa undir áhrifum þess. Foreldrum mínum líkaði
miður þessi mikla skemmtanafíkn, sem allt í einu var
komin í mig, en þau létu mig ráða í því efni sem öðru.
— Einn sunnudagsmorgun eftir dansleik vakti móð-
ir mín mig af þungum drykkjumannssvefni og færði
mér morgunkaffið, en hún hefur víst fengið grun um
það, í hvaða ástandi ég var, þegar ég sofnaði, því hún
sagði við mig, og ég gleymi aldrei skelfingarhreimnum
í rödd hennar:
— Guð hjálpi þér, Bjössi minn, ertu virkilega farinn
að drekka áfengi.
— Það er ekkert, blessuð hafðu engar áhyggjur út
af því, svaraði ég og hló kæruleysislega.
— Jæja, góði minn, það er gott, ef ég þarf engar
áhyggjur að hafa þess vegna, sagði hún stillilega og
gekk á burt.
— Sumri var tekið að halla, og kaupavinnunni senn
lokið hjá Jóni. Þá var það eitt sinn, er við vorum að
koma saman af dansleik, báðir þéttkenndir, að Jón
spurði mig, hvort ég hefði aldrei farið neitt að heiman.
Ég sagði honum, eins og satt var, að ég hefði alltaf
verið heima hjá foreldrum mínum. Hann varð alveg
undrandi.
— Blessaður, þú mátt ekki grafa þig svona lifandi,
sagði hann. — Þú átt að drífa þig til borgarinnar, fá
þér þar góða atvinnu og njóta lífsins, meðan þú ert
ungur. Ég skal útvega þér vinnu, og svo leigjum við
herbergi saman og kaupum okkur fæði á fínni matsölu.
— Ég svaraði þessu lítið í fyrstu, en Jón tók þá að
lýsa fyrir mér dásemdum borgarlífsins af svo mikilli
mælsku og eldmóði, að ég blátt áfram hreifst af hon-
um. Jú, víst væri það óneitanlega gaman að fá sér vel-
launaða atvinnu yfir veturinn og njóta lífsins, eins og
Jón komst að orði. Pabbi hlaut að geta hirt einn um
skepnur okkar vetrarmánuðina, svo kæmi ég heim aft-
ur með vorinu og hjálpaði honum til við heyskapinn
að sumrinu.
— í þeirri vímu sem þá var yfir mér, varð ég alveg
gagntekinn af þeirri hugmynd vinar míns, að ég yfir-
gæfi æskustöðvarnar og kannaði lífið á nýjum braut-
um, og við Jón bundum það fastmælum að verða sam-
an í borginni næsta vetur. Hann lofaði að útvega mér
atvinnu og húsnæði eins og sjálfum sér, og ég sá fram-
tíðina í glæsilegri hillingu.
— Skömmu síðar sagði ég foreldrum mínum frá því,
^ð ég ætlaði að fara að heiman í vetur. Þau svöruðu því
aðeins, að ég skyldi vera sjálfráður, en ég fann sársauka
þeirra í þögninni. Síðan kvaddi ég æskustöðvarnar á
fögrum haustdegi og fór til borgarinnar. Jón stóð við
loforð sín. Hann útvegaði mér vinnu, og við leigðum
saman herbergi, og svo byrjuðum við að njóta lífsins
fyrir alvöru. Við sóttum einhverja skemmtun flest
kvöld vikunnar og fórum alltaf á dansleik um hverja
ihelgi.
— Eftir því sem Jón sagði mér, þótti það ekki við-
eigandi í borginni, að ungir menn færu út að skemmta
sér án þess að bjóða stúlku með sér. Og ekki stóð á
því, að við félagarnir fengjum stúlkur til fylgdar við
okkur. Jón, vinur minn, vísaði mér veginn í því efni
sem öðru og kenndi mér sínar listir. F.n brátt tók viku-
kaupið að hrökkva skammt. Ég reyndi í fyrstu að
standa í skilum með greiðslu á fæði og húsnæði að
mínum hluta, en svo fór að lokum, að ég hætti að geta
staðið reglulega í skilum. Mestallt sem við félagarnir
unnum fyrir í ágætri atvinnu, fór í áfengi og skemmt-
anir, og ég var á hraðri ferð niður á við, niður í hyl-
dýpi spillingarinnar, blindaður af nautnalífi, sem hlaut
að enda með skelfingu, ef því héldi áfram.
— Og svo kom þetta hræðilegasta af því öllu. Guð
minn góður! Ég veit ekki enn, hvernig það gerðist. Við
Jón vorum að skemmta okkur, báðir orðnir mikið
drukknir, en alveg peningalausir. Það var nótt, og öll-
um skemmtistöðum hafði verið lokað. Við reikuðum
fram og aftur um göturnar, og okkur vantaði þessa
stundina aðeins peninga. Við komum að stóru húsi, og
þar nam Jón staðar og ég líka. Húsið var harðlokað,
en Jón vissi að þar inni voru nægir peningar, og hann
sagði mér, hvernig ætti að fara að því að ná í þá.
— Svo var það víst ég, sem framkvæmdi verknaðinn,
en það er allt svo óljóst fyrir mér, hvernig þetta gerðist.
Ég var eins og dautt verkfæri, sem lét stjórnast af illum
anda. Ég náði í peningana, ekki veit ég hve mikla upp-
hæð, og afhenti Jóni þá alla. Hann tók síðan bíl á
leigu, og við héldum áfram að skemmta okkur.
— Kvöldið eftir vorum við svo orðnir gestir lög-
reglunnar, sakaðir um innbrot og peningaþjófnað. Jón
bar alla sökina á mig, og ég meðgekk framburð hans,
án þess að reyna að skýra málið mér í hag. Ég var orð-
inn afbrotamaður, stimplaður þjófur, og mér þá sama,
þótt ég bæri refsinguna fyrir okkur Jón báða. — Hann
var þegar látinn laus, en ég hafnaði hér.
Fanginn þagnar. Frásögn hans er lokið. Frú Eygló
hefur hlustað þögul, en nú rís hún á fætur og segir: —
Því miður eiga víst fleiri svipaða sögu, Bjössi minn. En
nú er þessum þætti lokið hjá þér, og nú byrjar þú
nýtt líf.
— Heldur þú að ég geti það, Eygló?
— Já, vinur minn. Þú veizt að Guð er kærleikur, og
Jesús sagði: — Ég er kominn til að leita hinna týndu og
frelsa þá.
— Fanginn virðir frú Eygló fvrir sér um stund. Þessi
unga, yndislega kona var eitt sinn bezti æskufélagi hans
og fermingarsystir, en svo skildu leiðir þeirra. Hún
reyndist fermingarheiti sínu trú og gekk hinn rétta veg
lífsins, en hann tók öfuga stefnu, missti þegar sjónir á
20 Heima er bezt