Heima er bezt - 01.01.1961, Blaðsíða 35
Guðrún frá Lundi
ÞRÍTUGASTI OG SJÖUNDI HLUTI
„Finnst þér þetta kannske ekki þrifaleg umgengni
að henda reiðtygjunum á hlaðið og binda klárinn við
steininn í stað þess að láta flytja hann í haga. Svona
eru öll hennar verk,“ sagði Kristján gremjulega.
„Vertu viss, hún hefur verið að flýta sér inn til að
hita kaffið handa okkur. Það verður notalegt að hressa
sig á því.“
„Það svíkur þig ekki sú hressing,“ sagði Kristján.
, Litli vökudrengurinn, sem fenginn var til að passa
túnið yfir nóttina, kom fram í bæjardyrnar og tók við
'hestunum. Það var Valborg sem hafði útvegað hann
með þeim sldlmálum að hann færi heim til sín um fóta-
ferðartíma og kæmi ekki fyrr en seint á kvöldin svo
ekki var hægt að hafa mikið gagn af honum á daginn,
en hann passaði vel túnið litla skinnið. Það angaði móti
þeim kaffilyktin þegar þeir Voru búnir að bera ullina
inn í skemmu og læsa henni. Öðruvísi gekk ekki Krist-
jan frá. Hartmann tók söðul Asdísar og hengdi hann
inn með hnökkunum. Það var ekki ofgert fyrir kaffið,
sem hann vissi að beið þeirra.
Hann hnippti í son sinn. „Hvað sagði ég þér.“
En það var þá Valborg, sem var með rjúkandi kaffi
og heitar lummur inni í búrinu.
„Það eru engin vandræði að hafa svona húskonu,
sem bíður með kaffi handa manni þó.hánótt sé,“ sagði
Kristján. „Líklega verður það mesta happið mitt á
þessari jörð að fá þig á heimilið.“
„Ég hef aldrei vanizt öðru en rúningsfólkið fengi
kaffi þegar það kemur heim. En hún ætlaði nú varla að
þiggja það bústýran eða hvað ég á að nefna hana.“
„Ég vildi bara að þú værir svona þrjátíu árum yngri
þá skyldir þú hafa orðið bústýran hérna,“ sagði Hart-
mann og stýfði lummurnar úr hnefa ánægjulegur á
svip. „Það er einskis að vænta af Arndísi, vesalingnum.
Hún hefur alltaf heilsulaus garmur verið. Mér þykir
mikið ef hún heldur það út, að hugsa um strákinn,
hann er að verða svoddan drymbi, litla greyið.“
„Það var meira ólánið að Geirlaug vildi ekki flytja
með okkur. Þá hefði það gengið fyrir okkur. Asdís er
öíl við útiverkin, en þau eru líka mikil eða finnst þér
það ekki, Valborg mín?“
„Jú, hún er dugleg, mikil ósköp, en hún veit líka af
því,“ svaraði Valborg.
Ásdís var svipmikil og talaði fátt morguninn eftir.
Gamla konan spurði hana hvernig Geirlaug sín hefði
það, hvort það væri ekki farið að fjölga kringum hana.
Þá hnussaði í henni: „Hún hefur það sjálfsagt ekki
mjög „amalegt“, sefur allan sólarhringinn nema þegar
hún mjólkar kýrnar og kemur þeim út og inn fyrir
hliðið, og svo að ldappa kettinum. Það er víst ekki
hægt að láta sér líða betur.“
„Ójá, ósköp á hún gott að geta hvílt sig. Hún var
líka oft þreytt í vetur og líklega oftar. Ég vildi óska
að ég hefði það svona rólegt,“ sagði gamla konan.
„Það er nú ekki hægt að segja að þú vinnir míkið,“
sagði Ásdís.
„Það er alltof mikið handa mér. Ég finn hvað mér
líður,“ sagði gamla konan armæðulega.
„Þið hafið þó vónandi hnoðað brauðið og bakað það
í gær, þó ég gleymdi að tala um það,“ sagði Ásdís.
„Hún hefur nú líklega hugsað fyrir því hún Valborg,
þvílíkt lán að fá hana.“
„Það verður líklega að fara að taka saman móinn og
taðið og hreinsa túnið, þykist ég vita, þó ekki sé minnzt
á það. Þá er langbezt að Valborg hreinsi svo hún geti
verið þér hjálpleg í bænum. Eða finnst þér það ekki?“
sagði Ásdís.
„Ég verð ekki ein í bænum og ég veit að Kristján
ætlar mér það ekki,“ kveinaði gamla konan. „Valborg
hefur alltaf nóg að gera innanbæjar, það er óþarfi að
ætla henni utanbæjarverk, nema hún fer með kaffið til
ykkar eins og þegar þið voruð að taka upp.“
„Ég anza nú ekki svona löguðu, að ætla sér að hafa
tvær'manneskjur í bænum. Það verður þá eins og á
Hofi, en slíkt líð ég nú ekki, skal ég láta þig vita,“
sagði Ásdís.
Valborg kom inn rétt í þessu og greip prjónana sína
ofan af hillu og settist á rúm sitt, brá bandinu um
fingurinn og fór að prjóna.
. „Ætlar þú að hafa á prjónum í allt sumar?“ spurði
Ásdís.
Heima er bezt 27