Heima er bezt - 01.09.1964, Side 14

Heima er bezt - 01.09.1964, Side 14
Féð rekið norður yfir fannbreiðurnar á Eyvindarstaðaheiði. XI. Slys hafa fá orðið á Eyvindarstaðaheiði og það er engin sögn til um það að menn hafi farizt þar í smala- mennsku eða villu. Þetta er þeim mun einkennilegra sem kennileiti eru yfirleitt óljós á heiðinni og erfitt að rata um hana. Þá mun oft hafa verið leitað fjár á henni í tvísýnu og villigjörnu veðri og stundum í stórhríðum og fárviðri. Komið hefur fyrir að mjóu hafi munað, en ævinlega vel og giftusamlega til teldzt. Síðast nú í haust þegar um 20 gangnamenn urðu að yfirgefa heiðina í stórhríð og halda til byggða í botnlausri ófærð jafnt fyrir menn sem hesta. Einasta banaslys sem öruggar heimildir herma af Ey- vindarstaðaheiði varð ekki við fjárleit heldur í grasa- ferð. Það skeði á fyrri hluta aldarinnar sem leið og varð með þeim hætti að unglingspiltur ætlaði að vaða eftir eggjum út í tjarnarhólma. Eðja var í botni tjarnarinnar og svo djúp, að pilturinn sökk og drukknaði. Litlu munaði seint á öldinni sem leið að lítt harðnað- ur unglingspiltur týndist í hríðarveðri í haustleitum, en hans var saknað og leitað í tæka tíð og bjargað áður en slys hlauzt af. Þetta atvik mun hafa skeð haustið 1887, en þá brast skyndilega á norðanveður með iðulausri stórhríð. Hóp- ur gangnamanna var á leið frá svokölluðum Hraunlæk og að norðurrönd Hofsjökuls milli Vestari-Jökulsár og Ströngukvíslar. Vildi gangnaforinginn ekki snúa við, þrátt fyrir aftakaveður og hríð svo svarta að naumast sá út úr augum. En þegar hann áði að aflíðandi degi og tók að kanna lið sitt, varð hann þess var, að unglingspilt vantaði í hópinn. Hestar hans voru þó til staðar og þótti sýnt að pilturinn myndi ekki vera langt undan. Var hans leitað og fannst fljótlega, en þá var hann villtur orðinn og hélt úrleiðis. Það sem fyrir pilt hafði komið var það, að honum hafði orðið skjótt til brókar og fór afsíðis til að ganga örna sinna. Þegar hann stóð frá þeim erindum á fætur aftur hafði hann tapað áttum og vissi ógjörla hvert stefna skyldi. — Það sem verra var, var að hann gat ekki gyrt brækur sínar sökum kulda, sluppu þær niður fyrir þjóana og töfðu gönguna. Má segja að það hafi verið gifta hans, því fyrir bragðið fannst hann fljótar. Var hann þá kaldur orðinn og illa til reika og þeim mun fremur sem brækur hans voru fullar orðnar af snjó. Gyrtu félagar hans brækurnar og varð honum ekki meint af frekar. En þar munaði mjóu að gangnamaður á Eyvindarstaðaheiði hlyti ill og ömurleg örlög. XII. Sögulegust villa á Eyvindarstaðaheiði, sem sagnir herma, varð þó árið áður. Sú villa er jafnframt talin ein hin mesta þrekraun á allan hátt sem mennskur maður hefur af hendi leyst þar um slóðir fyrr og síðar. Tveir menn eru sendir í eftirleit um vetumætur, Helgi Björnsson frá Ánastöðum og Ágúst Sigfússon frá Brúnastöðum. Helgi 32 ára gamall, fullharðnað karl- menni, en Ágúst lítt þroskaður unglingur, aðeins 19 ára að aldri. Segir það af ferðum þeirra að þeir gistu í gangnakofa við Haugakvísl, áttu þar kalda nótt en skiptu með sér leit morguninn eftir. Ákváðu þeir að hittast á stað þeim sem Hraungarðshaus nefnist og halda síðan saman í Ströngukvíslarskála þar sem gisting var fyrirhuguð. Þeim auðnaðist þó ekki að hittast. Ágúst, sem var lítt reyndur til fjallaferða, tapaði áttum áður en lauk, sá vofur og ofsjónir í myrkrinu á næturnar, en reikaði um matarlaus og kaldur í kófi og hríð á daginn í sjö dægur samfleytt unz hann komst til byggða niður að Hofi í Vesturdal. Var hann þá ruglaður orðinn og hélt sig vera kominn til útilegumannabyggða. Um félaga hans, Helga, er það að segja, að hann varð miður sín þegar honum varð ljóst að Ágúst var týndur. Er gönguafrek hans talið frábært er hann leitaði félaga síns, örvinglaður maður, ekki sízt fyrir þær sakir að hann taldi sig bera ábyrgð á hinum óharðnaða unglingi. 326 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.