Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 5

Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 5
klárinn ráða ferðinni. Hann átti að vita hvar stansa skyldi, og það brást ekki. Og hann fylgdist alltaf með mér, hvað ég væri að gera. Hann stansaði við réttu húsin og allt gekk vel. Afskaplega þótti mér vænt um klárinn. Ég tók aldrei í tauminn, og á leiðinni heim herti hann stundum ferðina og fór á brokk, en áður en hann gerði það leit hann alltaf við til þess að sjá hvað mér liði. Mér þótti ósköp vænt um hann. Seinna fékk ég svo annan hest, en hann var ramm- fælinn og ég var alltaf hræddur við hann. Annars var ég oft í heyflutningum á hestvögnum með pabba, alveg frá því að ég var smápatti. Pabbi flutti líka sement í húsið í Hvammi á lánshestum. Ég man hvað mér þótti hart að mega aldrei setjast á hlassið, heldur varð ég að ganga, hvað þreyttur sem ég var. Mér þótti þó sem ekki mundi muna mikið um strákling eins og mig. En það var ekki við það komandi. Hesturinn hafði nóg með se- mentsækið. En einhvern tíma skyldi ég komast upp á eða upp í ökutækið. — Lærðirðu á Möðruvallabílinn? — Nei, það átti sér annan aðdraganda. Pabbi var mikill jarðabótamaður, og nú skyldi brjóta stórt stykki til ræktunar. Þúfnabaninn átti að vinna verkið, en einhvern veginn fannst föður mínum siðferðileg skylda sín að láta slá þennan karga áður en hann væri tættur, og ég var settur í sláttinn. Ég stóð þarna og barðist um dag eftir dag í helvítis þúfuhrauninu og hugsaði margt. Og ég ætlaði aldrei að geta stunið því upp við pabba, sem innra með mér hrærðist. En ég hafði tekið ákvörðun. Ég ætlaði að kaupa bíl. Pabbi tók þessari uppástungu vel, miklu betur en ég hafði þorað að vona. Kannski hefur hann viljað að Hallgilsstaðamenn væru ekki minni en þeir á Möðruvöll- um, og auðvitað sá hann í hendi sér að bíll var framtíðar- tæki. Guðmundur Rósinkarsson frá Kjarna eignaðist Chevrolet, módel 1928, og ég hafði augastað á honum. Ég var búinn að læra á bíl áður en ég tók próf, en ég var svo ungur, bara átján ára, að ég þurfti að fá undanþágu hjá sjálfum forsætisráðherra, Tryggva Þórhallssyni. Hann fór víst með samgöngumál líka. Ég lærði hjá Sigurbirni Þor- valdssyni, Bjössa Þorvaldar. Pabbi seldi mikið hey í bæ- inn, og nú var að nota bílinn, sem ég hafði keypt af Guðmundi Rósinkarssyni, til heyflutninganna. Hann var að vísu ekki nýr, en í ágætu lagi, en sá hængur var á að ég var enn próflaus. Vegur var þá orðinn góður til Akureyr- ar, en ég var sem sagt ekki búinn að fá undanþáguna, og vegurinn kollóttur af svelli og eftir því varasamur. Mikið var ég hræddur, því að ég var með háfermi á bílnum, en það kom ekkert fyrir mig, enda vandaði ég mig óskaplega, og ég held að ég hafi orðið góður bílstjóri af þessari ferð. Mér lærðist að fara með gát. Og hver heldurðu að hafi verið fyrsti maðurinn, sem ég mætti í bænum? Enginn annar en Bjössi Þorvaldar, kennarinn minn, og hann keyrði út fyrir bæinn á heimleiðinni, svo að ég lenti síður í vandræðum. Ég hef alltaf verið heppinn bílstjóri, og þetta man ég eins og það hefði gerst í gær, allt saman. Já, pabba líkaði vel að ég gerðist bílstjóri og bíleigandi en ekkert var hann þó metnaðargjarn, karlinn. — Ertu fæddur á Hallgilsstöðum? Jón St. Melstað og A Ibína Pétursdóttir. — Nei, ég fæddist á Svertingsstöðum í Kaupangssveit 17. október 1911. Móðir mín var Albína Pétursdóttir, en faðir minn Jón Stefánsson sem sig nefndi Melstað. Ég var 28 vikna, þegar við fluttumst í Hallgilsstaði,. Mér finnst ég muna eftir því. Heldurðu að það geti verið? Mig minnir eftir því, að faxið á hestinum kæmi framan í mig, þegar ég var reiddur yfir Eyjafjarðará. Hestarnir voru sundlagðir, það var ekki búið að brúa ána. En kannski er þessi minn- ing frá einhverri annarri ferð. Faðir minn keypti Hallgilsstaði af Pétri föður Guð- mundar Karls læknis. Þeir voru ekkert séstakt býli. Þar var gamall bær og ofurlítill túnkragi í kring, þýfður að mestu leyti. En eins og ég sagði, var pabbi duglegur við jarðabæturnar. Ég held hann hafi fengið verðlaun úr styrktarsjóði Kristjáns konungs IX. — Vildir þú verða bóndi? — Nei, aldrei, hvarflaði ekki að mér. En ég hirti skepnur á veturna og þótti gaman að því, mest sauðfé en einnig mjólkurkýr. Ég lagði mig fram um að gera vel við og beið í ofvæni eftir því að ásetningsmaðurinn kæmi að skoða hjá okkur. Það var Þorlákur Hallgrímsson á Reist- ará. Hann gaf mér oft góðan vitnisburð. Búpeningurinn var vel alinn, hornahlaup á gemlingunum og svoleiðis. Það þótti mér vænt um. Pabbi hvatti mig ekki til langskólanáms eins og Unndór heitinn, elsta bróður minn, en hann hvatti mig til að fara á búnaðarskóla. Það gerði ég þó ekki, en Stefán bróðir er búfræðingur. Ég ánetjaðist fljótt þessum bílum. Ég var svo sem að velta því fyrir mér hvað ég ætti að verða, en forlögin tóku í taumana og beindu mér á vissa krókaleið í bili. Eftir að hafa ofkælst við að keyra í kalsa- veðri, það var engin upphitun í bílnum, fékk ég brjóst- himnubólgu upp úr mislingum og lá heilt sumar. Jónas Rafnar kvað upp þann úrskurð að ég gæti ekki keyrt næsta vetur, því að annað lungað væri gróið við þindina. Það varð svo úr að ég sótti um skólavist á Laugarvatni. Þar var mér bannað að fara í leikfimi og sund en braut hvort tveggja og var albata og ekkert að mér, þegar ég kom heim úr skólanum. Heima er bezt 41

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.