Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 31

Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 31
Þau stóðu upp og gengu til hinna. Tíndi hver sem betur gat uns fór að kvölda, þá fengu þau sér kaffi og hvíldu sig áður en þau lögðu á stað heim. Þau voru búin að tína mjög mikið af vel þroskuðum bláberjum. Aðkomufólkið fór allt að Hvammi, ætlaði að gista um nóttina, en Hraunssystkinin fóru beint heim. Á heimleiðinni fóru þau fetið, svo berin létu minna á sjá. Kvöldið var undur fagurt. Blækyrrt og mild rökkur- blæjan lagðist yfir haf og land. Sólin var að setjast, gægðist gegnum skýin á vesturhimninum. En í austri kom máni karlinn, vel hálfur í ljós og smámsaman tók hann völdin á himninum, er sólin hvarf bak við snæstrandafjöllin. „Máninn hátt á himni skín“ sungu þau og fleiri sígild lög og ljóð. Vaskur kom fagnandi á móti þeim upp á miðja heiði og settist í sitt vana sæti, á hestinn aftan við Nonna litla. Fólkinu var tekið tveim höndum. Þeirra beið góður matur og mjúkar hvílur. Þó fóru þau ekki snemma í háttinn. Það var meira gaman að vaka og spjalla saman. Njóta æsku og ástar, því árin líða og æskan varir svo stutt. Yfirleitt fannst þeim þetta góður dagur og yndislegt kvöld. Ein var sú er ekki var á sama máli. Hún grét eins og hjartað væri að bresta ofan í svæfilinn sinn. Ranka læddist hljóðlega til hennar og hvislaði: — Dísa mín, vertu ekki svona sorgmædd. Biddu bæn- imar þínar eins og þegar þú varst barn. Ég er viss um að þetta iagast bráðum. Eitt er ég viss um Dísa, bætti hún við — að honum líður alveg eins illa og þér af sömu ástæðu. Nú fékk Dísa nýtt umhugsunarefni. Ranka brosti með sjálfri sér og kyssti Dísu á kinnina, en Dísa hugsaði sig þreytta og sofnaði loks vært. 28. KAFLI. Sumarskemmtun U.M.F. var haldin þriðja sunnudag í ágúst. Flest allt fólkið í Hvammi fór. Guðrún og Þorsteinn voru búin að setja upp hringana fyrir skömmu og var þeim hvarvetna óskað gæfu og gengis. Hann var orðinn eins og nýr og betri og ekki síst ákveðnari maður. Dóra og Hákon komu á skemmtunina eins og vanalega. Veður vár milt en sólskinslaust og rigndi ekki fyrr en seint um kvöldið. Séra Halldór hélt ræðu að vanda og talaði um landsins gagn og nauðsynjar. Um æskuna sem erfa ætti landið, að hún ætti að sumu leyti að feta í fótspor feðranna, en fylgjast vel með núungum. Ætti að tileinka sér það er betur mætti fara á hverjum stað og tíma. Hann talaði um tilvonandi breytingar í búskaparháttum á öllum sviðum og við þessir gömlu verðum fljótt aftur úr og sagan end- urtekur sig. Nýir taka við. Hin glæsilega nútíma æska, okkar ungu aldar, tekur við og setur markið hátt. Við skulum vona að hún nái því sem hún ætlar sér og vill og geri betur en við. Að lokum skulum við hrópa ferfallt húrra fyrir æskunni og ættjörðinni. Jónas í Skógarseli hélt stutta tölu í léttum dúr. Hann var svolítið hýr, en þá tókst honum hvað best upp. Hann var hagmæltur og fór með stuttan brag um sveitina og íbúa hennar, án þess að nokkur fyrtist við. Slíkt var honum lagið. Var gerður góður rómur að máli hans. Skemmtunum var fjölbreytt og ánægjuleg. Keppt var í allmörgum íþróttagreinum og veitti ýmsum betur. Eyrvíkingar unnu í fótbolta, en dalbúar í flestu öðru t.d. í þolhlaupi og spretthlaupi. Stúlkur tóku ekki þátt í keppni. Glíman var lengi tvísýn. Síðast stóðu tveir eftir. Ungur maður frá víkinni og Brandur í Hvammi. Mikil spenna lá í loftinu, því nú rann upp úrslitaglíman. Þeir voru eggjaðir óspart. Brandur var skapmikill og sterkur, en hinn kattliðugur og snar. Dísa gleymdi sér alveg. Hún stóð fremst í röðinni og var lengi stillt og steinþagði, en þegar henni sýndist halla á Brand, fór að siga í hana og hún kallaði hátt. Brandur, Brandur, þú verður að vinna. Áfram Brandur og margir tóku undir. Brandur leit snöggt til Dísu og á næsta augnabliki, lá keppinautur hans marflatur. Ranka brosti til Dísu, sem Öll var í uppnámi af fögnuði. Dansinn þótti eins og hann þykir jafnan, lang skemmtilegasta „íþróttin“ þarna og þó ekki væri um beina keppni að ræða i þeirri grein, var hún þarna á vissan hátt. Þorgeir á Hrauni dansaði yfirleitt ekki við aðra en Dísu, en sat þess á milli og var auðséð að hann var orðinn meira en lítinn hrifinn. En hún var ekkert að gefa honum undir fótinn, það var greinilegt. Fólkið tók vel eftir ýmsu er fram fór og hafði gaman af að bera saman bækur sínar um það. Þorsteinn bauð Dísu upp og bað hana afsökunar á fyrri framkomu sinni. — Þú ert svo lokkandi Dísa, að mann langar mest til að borða þig. Þá skellihló hún og djúpu spékopparnir komu í ljós. Hann brá vörunum á annan þeirra. — Er ég góð á bragðið? spurði hún og hló enn. — Þetta var svo lítill biti, sagði hann í sama dúr, að ég get ekki dæmt um það. Ennþá sýndist Rönku að Brandur og Dísa væru hálffeimin, rétt eins og þau væru dauð- hrædd um að brenna sig hvort á öðru, en þó var Ranka alveg viss um að varla færi hjá því að þau áttuðu sig, þó seint gengi. Valgerður sat lengi á tali við Huldu Völu, sem nú vissi eins og var. Henni var farið að þykja vænt um ömmu sína og frændfólk, en fólk útí frá vissi ennþá ekkert um þetta, aðeins fjölskyldan. — Mikið er hún lík þér í fasi og göngulagi, og falleg eins og þú í gamla daga, sagði frú Herborg hrærð við Valgerði. — Nú er ég líka búin að fá sárabætur, sagði Valgerður og vil gjarnan lifa lengi enn. — Ekki nein nein furða þó að þú þyrftir að spyrja mig, amma mín, og öllu þessu kom óþægi lokkurinn minn á stað, og hún strauk hann mjúklega frá björtu enninu. Heimaerbezt 67

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.