Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 33

Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 33
30. KAFLI. Komið var fram í september og enn var allt í blóma. Seinni túnaslætti var að ljúka og langt komið á engjum. Eina nóttina vaknaði séra Halldór við að kona hans ýtti við honum. — Fyrirgefðu góði minn. En mig dreymdi svo illa. — Hvað var það vina mín? — Mér þótti ég vera komin inn í stofuna á Áshamri. Þar var bæði kalt og dimmt og einhver gustur. Allt í einu kviknaði á fjórum kertum, tveim stórum, en hin voru lítil. Snögglega slokknaði á öðru litla kertinu en hitt logaði glatt. Og rétt á eftir dó annað stóra ljósið út, og dró mikið niður í hinu, en það náði sér aftur. Mér leið illa og fannst allt svo ömurlegt, en þá kallaði Sigga: Mamma; Við það vaknaði ég. Halldór, ég fer að Áshamri strax í fyrramálið. Ég er viss um að ég á að gera það. — Já, elskan mín, vertu bara róleg. Allt er í guðs hendi. Þú ferð ekki ein. Við förum bæði saman. Þau voru komin að Áshamri um tíuleytið. Amhildur tók feginsamlega á móti þeim Sigríður var búin að vera með létta sóttarverki alla nóttina, en ekkert gekk. Haraldur var að sækja Sigrúnu, sagði hún rólega. Herborg flýtti sér að skipta og fór svo inn. til dóttur sinnar og heilsaði henni og Guðrúnu sem var að sinna Sigríði. Guðrún gekk fram. — Ertu með mikla verki vina mín? — Já, þetta er einhvem veginn allt öðruvísi en þegar ég gekk með Kolla og átti hann. Ég hef verið með meiri og minni blæðingar siðustu þrjá mánuðina. Frúnni varð illt við. Hún gekk fram. Hún bað séra Halldór að fara strax til Eyrarvíkur og ná í Baldur lækni. Reynið þið að vera eins fljótir og hægt er. Mér líst ekki sem best á þetta. Hestarnir stóðu tilbúnir, nema Kolbeinn lét hnakk á frúarhestinn handa lækninum. Hestarnir fengu að taka á því sem þeir áttu til. Innan stundar lá Sigriður með hljóðum svo sárum að Guðrúnu var meir en nóg boðið. Hún fór að gá að mannaferðum. Sigrún og Haraldur voru að koma að túnhliðinu. Herborg var alltaf inni hjá dóttur sinni og gerði allt sem í hennar valdi stóð og hughreysti hana. Frúna grunaði að um tvíbura væri að ræða og þegar hún var búin að athuga dóttur sína betur var hún alveg viss um það. Fegin varð hún er Sigrún kom. Sigrún stað- festi að börnin væru tvö og lægju eitthvað óvenjulega og þær báðu til guðs að læknirinn kæmi svo hægt væri að svæfa Sigríði, fyrr var lítið hægt að gera. Þær töluðu saman frammi. Sigríði elnaði sóttin en ekkert gekk. Loks kom Baldur læknir og nú var hann snöggur. Hann fékk Sigrúnu töskuna og hún svæfði Sigríði eftir hans fyrirsögn, en frúin sauð tengurnar og fleira, á meðan hann var að skipta og þvo sér. Hann athugaði Sigríði og bað Sigrúnu að aðstoða sig, en frúin sá um svæfinguna. — Tangartak, sagði hann og Sigrún rétti honum þær. Þetta var erfitt, en innan skamms kom stór og myndar- legur drengur í heiminn og orgaði hástöfum. Baldur bað frúna að heila meiru í grímuna. Þetta er ekki búið. Hann reyndi að snúa seinna barninu en hristi höfuðið. — Þetta barn verður að fæðast í sitjandastöðu. Þessi fæðing stóð lengi og Sigríður var orðin mjög þreytt og þau áhyggjufull. Guðrún viktaði drenginn. Hann var rúmar 20 merkur. Hún þvoði hann og sá alveg um hann. Hann hætti ekki að gráta fyrr en hann fékk sykurvatn í pelann, þá sofnaði hann. — Þetta er nú meiri „matgoggurinn' varð Guðrúnu að orði. Loks kom síðara barnið. Það var stúlka, er fæddist andvana. — Hún er undarlega smávaxin, samanborið við bróður sinn, sagði læknirinn. Hann hefur tekið mest til sín. Stúlkan var réttar sjö merkur. Frúin fór fram og sagði þeim tíðindin og það með, að Sigríður væri svo illa farin að hún mætti ekki frétta um barnsmissinn strax. Haraldur var fölur þegar hann gekk inn til konu sinnar. Það var búið að gera henni til góða, en hún var utan við sig eftir svæfinguna, gat rétt brosað til hans, er hann kyssti hana á kinnina. Hann sat hjá henni þar til hún sofnaði. Drengurinn lá í vöggunni við rúmið og var enn farinn að láta heyra í sér. Guðrún gaf honum mjólkurbland í þetta sinn. Haraldur horfði á son sinn og sagði: — Ég er hræddur um að þú verðir nokkuð mikill fyrir þér, vinur minn. Kolli horfði undrandi á þennan litla mann, og varð að orði. — Hver á hann? Hvað heitir hann? — Hann á nú heima héma og kallaðu hann bara Bróa fyrst um sinn, ansaði Guðrún brosandi. Rétt í þessu kom Þorsteinn. Hann hafði þær fréttir að færa að Dýa hefði orðið bráðkvödd seinni hluta dagsins. Frú Herborg leit snöggt í augu manns síns, en sagði aðeins. — Það kemur okkur ekki svo mjög á óvart. — Friður sé með henni, mælti séra Halldór hátíðlegur. — Hún var góð kona. — Við verðum vist bæði að fara heim í kvöld, sagði frúin. — Nei ég fer með Þorsteini, Siggu veitir ekki af því að hafa þig í eina tvo daga. Við sjáum um allt viðvíkjandi gömlu konunni til að byrja með. Sigrún tárfelldi. Henni þótti mjög vænt um Guðnýju frænku sína. Læknirinn kom inn og kvaddi, var búinn að fá kaffi og hvíla sig. Haraldur fór með honum og var fljótur í ferðinni. Aldrei þessu vant var hann áhyggjufull- ur, en lét ekki á því bera. Hann sagði Sigríði frá litlu stúlkunni tveim dögum seinna, þegar hún var búin að hvíla sig og farin að ná sér. — Það hlaut að vera eitthvað, sagði hún, — ég fann það á mér. Hann kraup við rúm hennar. Hún grét hljóðlega upp við vanga hans. Heima er bezt 69

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.