Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 11

Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 11
BJÖRN í BÆ: Erfiðir flutningar Imarnir eru breyttir. Vélvæðing. Vinnu- brögð. Hugsunarháttur. Hverjum mundi detta í hug nú á þessari bíla-, flug- og atómöld að flytja fé fram í Drangey, eða fara þangað til heyskapar, og flytja heyið í land við ótrúlegustu erfiðleika. Þetta gerðum við feðgar 1920 til 1930. Og eftir að við hættum þá tók Jónas læknir Kristj- ánsson á Sauðárkróki eyna í nokkur ár. Orsakir þess að við tókum Drangey til að nytja hana voru að mig minnir fleiri en ein. Okkur fannst illt að sjá allt það gras, sem á eynni var, vera ónotað. Við höfðum þá tæplega nægar slægjur fyrir þann búskap er við höfðum, og gott var að eiga forðabúr. Og svo held ég að þar hafi einnig ráðið einhver æfintýraþrá, því að gaman þótti okkur a.m.k. ungu mönnunum, að koma og vera í eynni. En að heyja í Drangey var sannkallað æfintýri. Sama má segja um þær ferðir, er við fluttum og sóttum fé í og úr Drangey, þetta var erfitt og jafnvel hættuleg ferðalög en óneitanlega spennandi og æfintýraleg. Aðeins tvær ferðir langar mig til að rifja upp lesendum til glöggvunar. Faðir minn átti sexæring, sem Otur var nefndur. Um 1920 var hann að verða gamall, en þó fær í flestan sjó að okkur fannst, a.m.k. notuðum við hann alltaf við flutninga til og frá Drangey. Venja var á þessum árum að flytja lömb (gemlinga) fram í eyna um áramót og láta þá ganga þar fram á sumar eða fram í júlí, þá voru þeir sóttir og farið með þá til Siglufjarðar til slátrunar og sölu. Af þessum kindum var oft mikið frálag og eftirsótt á Siglufjarðarmarkaði. Oftast voru þetta um 20, sem við létum fram í eyna. Eitt sinn var ákveðið að flytja fé í Drangey. Við vorum 5, sem fórum á Otri gamla. Við tókum daginn snemma eins og vanalega var gert er svona stóð á. Veður var nokkuð tvísýnt og mátti búast við að eitthvað stormaði af suðri, þrátt fyrir það var ýtt úr vör með 20 kindur innan- borðs. Við settum upp segl og létum horfa á Drangey, en varla vorum við hálfnaðir er sýnilegt var að óvarlegt var að halda áfram, enda var þá kominn sunnan allhvass vindur og nokkur kvika inn af Skagafirði. Nokkuð hafði drifið af leið, svo ógemingur var að ná aftur heimahöfn nema með miklum barningi. Var því ekki önnur leið en að hleypa norður fyrir Þórðarhöfða, eða i Kögurvík, sem er norðvestan á höfðanum. Líkur voru til að veður kyrrði er kæmi fram um hádegi. Vorum við því um kyrrt á Kögur- vík, og brást það ekki, að gott ferðaveður var komið upp úr hádeginu og var þá lagt á stað aftur og róið inn fyrir Þórðarhöfða, en síðan sett upp segl og siglt aftur á stað til Drangeyjar. Nú gekk þetta allt að óskum. Við fórum í Uppgönguvík við eyna og rákum lömbin upp Uppgönguhaug, upp í Heiðnavíkurskarð, fyrir Tæpuskeið um Altarið, þar sem við gerðum að jafnaði bæn okkar, upp klappirnar að Brúnarhellu. Við króuðum lömbin þar og drógum þau síðasta spölinn í kaðli upp á Brúnarhelluna, og þá voru þau loks frjáls þar til þau voru flutt á sama hátt aftur til baka í júlí. En vanalega voru þau þá flutt á mótorbáti beint til Siglufjarðar. Önnur ferð er mér minnistæð, en hún var raunar ennþá erfiðari en ferðin með lömbin. Við áttum hey frammi í Drangey, sem við settum saman sumarið áður. Nú var komið fram á einmánuð og hugðum við ná okkur í einn bátsfarm af heyi. Farið var á stað snemma morguns á sexæringnum Otri og siglt til Drangeyjar. Við bárum upp á eyna allskonar umbúðir um heyið svo sem reipi, poka og riðaða snærispoka. Það gekk fljótt og vel að láta heyið í umbúðir, síðan var pinklum og bögglum velt fram af brún yfir Drangeyjarfjöru, en þaðan ultu þeir niður Illugjá niður á fjöruna. Suma baggana létum við síga niður af Brúnarhellu og velta þaðan niður í Uppgönguvík. Það voru aðeins fáir, sem festust á leiðinni eða fóru úr bönd- um, svo að þetta mátti heita að gengi ágætlega. Við lestuðum bátinn af miklu kappi og vorum búnir að því kl. 13 um daginn. Hey er einhver versti flutningur, sem farið er með á sjó, og var töluvert háfermi á bátnum er farið var af stað. Kjölfesta var ekki nægileg, enda fundum við að báturinn var of valtur ef eitthvað kulaði. Við höfðum uppi mastur, en segl var varla hægt að nota. Við rerum nokkuð inn fyrir Kerlingu til þess að geta haft ljúfari róður heim. Það átti samt ekki úr að aka fyrir okkur, því að sunnan frostkæla kom strax og við vorum komnir austur fyrir eyna. Þetta var allt mjög andstætt okkur, það var vont að róa fyrir háferminu og báturinn ekki nógu stöðugur. Nú það var ekki um annað að gera en að hleypa út fyrir Þórðarhöfða á Kögurvík. Þangað náðum við slysalaust. Við tókum allt heyið upp úr bátnum og gátum brýnt honum sæmilega, að því loknu gengum við heim, sem er um lVi tíma gangur. Komum við heim laust eftir háttatíma, full saddir af Framhald á bls. 56. Heima er bezl 47

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.