Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 36

Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 36
Kristmundur Bjarnason: SAGA DALVÍKUR I. Akureyri 1978. Dalvíkurbær. Kristmundur Bjarnason lætur skammt stórra höggva á milli. Naumast er prentsvertan þornuð á hinni miklu Sögu Sauðár- króks í þremur gildum bindum, þegar hann hefst handa um sögu Dalvíkur, sem fyrra bindið birtist af fyrir jólin 1978. Að vísu má segja, að þetta mikla bindi, nær 500 síður, sé að minnstu leyti saga Dalvíkur sjálfrar, heldur atvinnu- og byggðarsaga Svarfaðardals, þaðan rekjast allir þræðir til Dalvíkur, og þess, að þar hefst föst byggð upp úr verstöð, og raunar sýnir sagan ljós- lega að svo hlaut að fara eftir því, sem fólki fjölgaði og verka- skipting í þjóðfélaginu varð greinilegri. Og raunar teygist sagan til Eyjafjarðar alls, enda þótt Svarfaðardalurog Dalvík hafi haft nokkra sérstöðu í héraðinu, verið einskonar ríki í ríkinu.Efni bókarinnar er margþætt, enda margt sem kemur fram þegar rekja þarf slíka sögu, og lesandinn hefir á tilfinningunni, að engu sé sleppt, sem máli skiptir, enda eru vinnubrögð Krist- mundar slík, að taka heldur fleira en sleppa nokkru, sem þjónar tilgangi sögu hans. Til skýringar texta eru margar töflur, um byggðarþróunina, og þá einkum um allt, er snertir sjósókn og aflabrögð. Fjarri fer þó, að hér sé eingöngu um þurra frásögn að ræða. Sagan er krydduð með mörgum skemmtilegheitum, mannlýsingum og frásögnum af atburðum, en mannlýsingar Kristmundar eru margar hreinasta afbragð. hispurslausar og hreinskilnar, svo að persónurnar rísa Ijóslifandi upp af síðum bókarinnar með kostum sínum og göllum, og það svíkur engan að kynnast hinum gömlu Svarfdælingum. Ef til vill er mest um vert, hve Ijósar myndirnar eru af daglegu lífi og lífsbaráttu fólksins Vér fylgjum því úti og inni, og fátt fer þar framhjá. Þótt hér sé einungis um lítið hérað að ræða, þá gefur frásögnin af því oss furðu altæka mynd af sögu og stríði íslenskrar alþýðu til sjávar og sveita á öldinni sem leið og raunar lengra aftur í tímann. Verður Saga Dalvíkur þannig mikilsvert framlag til almennrar sögu landsins á sviði þjóðhátta og þjóðmenningar. Dalvíkurbær hefir kostað útgáfuna, sem er með einstökum myndarbrag. Hefir þar ekkert verið til sparað, að hinn ytri búnaður mætti verða sem bestur. en um hann hefir Prentverk Odds Björnssonar annast. VÍSUR BJARNA FRA GRÖF. Akureyri 1978. Bræðraútgáfan. Það hafa allir þeir vitað vel. sem nokkuð þekktu til Bjarna Jónssonar úrsmiðs. að hann var hagmæltur flestum betur, og nú hefir hann loks sent frá sér vísna kver, og hefði fyrr mátt vera. Er þar skemmst að segja. að með þvi hefir Bjarni skipað sér á bekk fremstu vísnasmiða þjóðarinnar. og framarlega í skálda- hópinn. Hann leikur þó ekki svo mjög að hinum dýru háttum, ferskeytlan sjálf. einföld og óbrotin er eftirlæti hans, en með henni tjáir hann sigaf þeirri leikni. sem enginn gerir nefna skáld. Hann kemur víða við. og alltaf er leikurinn jafnléttur. hvort sem hann lýsir náttúrunni eða slær á sorgarstrengi. en það sem mest einkennir Bjarna er hin létta fyndni. sem Islendingum er sjaldnast töm. Þar á hann sæti við hlið þeirra Káins og Páls Ólafssonar. Þó að Bjarni sendi náunganum, eða þjóðlífinu skeyti. eru þau aldrei illvig en hitta í niark. með fyndni sinni. Bjarni sér glöggt brestina í fari manna og það sem miður fer umhverfis hann og ber fram þá gagnrýni, sem dugar. Það hefir löngum verið sagt, og ekki að ástæðulausu, að margar stökurnar, sem menn njóta að heyra sagðar fram, njóti sín ekki á bók, munnlega framsögnin sé ein fær um að halda þeim á lofti. Það á ekki við um vísur Bjarna. Maður les þær sér til ánægju, lærir þær og finnur það, sem Stephan G. lætur Kolbein Jöklaskáld segja: „að enn megi finna upp sigur og söng í samhljómum laganna fornu." Dagur Þorleifsson: ÁFRAM NIEÐ SMÉRIÐ PILTAR. Rvík 1978. Örn og Örlygur. Hér birtist annað bindi af minningum Ólafs í Oddhóli, sem Dagur Þorleifsson skráir. Framhald þetta er líkt hinu fyrra bindi. Sögumaðurinn er hress og glaður segir frá af innlifun, þegar hann rifjar upp æfintýri liðinnar æfi, sem virðast óþrjót- andi, og hispurslaust er frá sagt sem fyrr. Enda er það svo, að styrkur bókarinnar liggur meira í frásögninni en efninu, því að mörg æfintýrin eru hvert öðru lík, en Ólafur kann að gera mikla sögu og frásagnarverða af litlu efni, sem í annarra höndum væri sviplaust og vekti litla athygli. Þess skal þó getið, að í þessu bindi eru athyglisverðar þjóðlífslýsingar frá upphafi aldarinnar, og kemur þar sitthvað fram, sem ekki er til annars staðar, Gefur það ásamt ýmsum mannlýsingum bókinni gildi um fram það að vera skemmtilestur. sem hún óneitanlega er, hvað sem hver segir. Sá maður er furðusnauður af kímnigáfu, sem ekki skemmtir sér við sögu Ólafs. En lesandann hlýtur að undra, hver æfintýri geta gerst í friðsælu sunnlenskra sveita eins og þau, sem Ólafur lýsir. Þau eru framlag til menningarsögu vorrar aldar. Enda þótt fyrra bindið af sögu Ólafs væri skemmtilegra að mínum dómi, þá svíkur þetta bindi engan, sem vill skemmta sér við lestur, og hann verður líka fróðari um margt á eftir. Guðsteinn Þengilsson: LÆKNISFRÆÐI. Rvík 1978. Menningarsjóður og Þjóðvinafélagið. Enn bætist nýtt bindi í Alfræði Menningarsjóðs. þar sem Guð- steinn Þengilsson fjallar um læknisfræði og önnur þau fræði, er hana snerta. Er þar margt forvitnilegt fyrir leikmann í fræðun- um. Ekki er það á mínu færi að dæma sérfræðilega um efnið og meðferð þess, en ekki get ég annað fundið en því séu gerð góð skil eftir því sem auðið er í jafnstuttu máli, en það er ótrúlega margt, sem drepíð er á í þessari litlu bok, og það er furðusjaldan, sem lesandinn fer bónleiður frá að leita til hennar um fróðleik í efnum þeim, sem hún fjallar um. Mikill kostur er. að hér fær maður upp í hendurnar góð og gild íslensk nöfn á fjölmörgum hugtökum læknis- og heilsufræðinnar ásamt hinum alþjóðlegu latnesku heitum. íslensk alþýða hefir löngum haft hug á fræðslu um lækningar og læknisfræði, sennilega er það i upphafi sprottið af nauðsyninni, þegar læknar voru fáir og torvelt að leita þeirra. Enda þótt þeir tímar séu liðnir, trúi ég vart öðru enn áhuginn sé enn vakandi, og læknisfræði Guðsteins verði vinsæl bók og lesin af mörgum. Ekki þó til að leita læknisráða. heldur af einskærri fróðleiksfýsn unt mannslíkanann. heilbrigði hans og meinsemdir. Si. Sid.

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.