Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 34

Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 34
— Ég vil eignast aðra stúlku, eins fljótt og ég get, sagði hún ákveðin. — Við sjáum nú til vina mín, eftir svona tvö — þrjú ár. Þú þarft að ná þér elskan mín, og hann kyssti hana blíð- lega. Litla stúlkan var lögð í kistuna hjá Dýu. Það var fjöl- menni við útförina. Séra Halldór flutti stutta, en hjart- næma ræðu, sem honum var einkar lagið. Sigríður var mjög róleg við útförina. Hún var búin að syrgja bamið sitt í faðmi manns sins. Hann hélt þétt utan um hana í kirkjunni. Hann átti nægan styrk handa þeim báðum. Hannes opnaði umslagið frá frænku sinni, eftir jarðar- förina. í því var bréf til hans. Hvað í því stóð sagði hann engum og lét engan vita um tárin er drengurinn, er stóð á vegamótum barns og manns, felldi við lestur þess. Jafn- framt var þarna skjal þess efnis að hann fengi það er hún léti eftir sig. Og það munaði um minna. Sigurður á Hrauni afhenti syni sínum væna fjárupphæð og einnig átti hann að eiga hestinn hennar og kindur er faðir hans hafði á fóðrum fyrir hann áfram. Eitt var það enn er gladdi hann þetta haust. Hann átti að fá að fara í sínar fyrstu göngur. 30. KAFLI. Um gangnaleytið var heyskap að mestu lokið í Hvammi og sveitinni yfirleitt. Haustið var að koma með hið árvissa ævintýri. Göngurnar. — Hvað er það sem lokkar, laðar og seiðir. Hvað er svo heillandi við þessa ferð um heiðar, fjöll og firnindi? Er það sambland af fegurð og hrikalegri tign fjallanna og hinu óræða töfravaldi óbyggðanna er heilla svo mjög hvern vaskan mann og ungan svein? Kannski er það tilbreytingin frá hversdagsleikanum, finna sig frjálsan með hest og hund í hópi félaga, sem allir eru glaðir og reifir? Eða er það tilgangur fararinnar að finna búpeninginn, prýði og lífsbjörg heimilanna, er heillar mest? Það er þetta allt og meira til. Þetta er draumur haustsins sem rætist. Og menn vaxa aldrei upp úr því að hlakka til hans. í þetta sinn eru margir knáir menn að leggja á stað í fyrstu göngur, þriðja laugardag í september. Þeir skiptast í tvo hópa, sinn hvoru megin við Gljúfurá. Annar flokkurinn fer að Heiði, efsta bæ, Hraunsmegin við ána. Hinir hittast á Áshamri, Hvammsmegin árinnar. Haraldur á Áshamri var gangnakóngur, en Sigurður á Hrauni réttarstjóri. Þeir gista á þessum bæjum um nótt- ina. Menn sváfu í heyhlöðum og hvar sem hægt var að koma þeim niður. Sumir voru vel mjúkir og lítill friður fyrir þá er vildu blunda Allir prestssynirnir fóru að Ás- hamri, en Hannes að Heiði. Hvammspiltar voru, eins og allir, með brjóstbirtu, af sterkara tagi. Slíkt þótti sjálfsagt. Gat komið sér, bæði vel og illa, allt eftir þvi hvernig með það var farið. Haraldur var auðvitað í Áshamarshópnum, en var bú- inn að gefa hinum fyrirmæli um leitirnar. Gísli á Hóli var handan ár og leit eftir þeim. Hann fékk nafnbótina: Varakóngurinn. Haraldur saup á með sfnum mönnum. Hann var einn af þeim útvöldu sem lítið breytast við drykkju. Honum þótti gaman að fá sér einn og einn gráan, en það sá aldrei á honum vín. Framhald í nœsta blaði. Hægt, aðeins hægt!... Framhald af bls. 59. bakka og stein, nei, nei en, hægt, aðeins hægt. Fjárhús- dyrnar í Dalnum göptu opnar, svo óhugnanlega dimmar, að þær skáru sig úr gráhvítri þokunni. Hann flýtti sér framhjá húsinu, en heyrði um leið þetta slompkennda fótatak fyrir aftan sig, nú hægt, aðeins nógu hægt, Kannski hafði sá sem fyrir aftan hann gekk, fengið félaga úr Dalhúsinu. Hann hryllti við þeirri hugsun. Nú voru göturnar fram með Katlaásnum naumast greindar lengur. Hamrabeltið líktist svörtum skugga, hátt uppi í þessu hrímhvíta ketilmyrkti. Hægt, ekki að hlaupa, bara hægt. Það var næstum útilokað að finna kýr í þessu svartnætti, nema að reka í þær tærnar. Þær hlutu að vera lagstar. Hann var alltaf að hugsa um það sem fyrir aftan hann gekk, og að fara ekki of hart, annað komst ekki að, nema að halda réttri leið. Ætti hann að biðja Guð? Það var víst þýðingarlaust. Hann hjálpaði aðeins þeim sem hjálpuðu sér sjálfir, eða svo sagði fullorðna fólkið. Svitinn lagðist eins og köld dögg að andlitinu, svitablaut fötin límdust að líkamanum. Boldangsbuxurnar urðu stífar í súldinni og særðu hann á lærunum. Það greip hann skelfileg hugsun, hann var orðinn þreyttur. Gæfist hann upp, sofnaði og vaknaði aldrei framar? Nei, nei, bara hægt, hann skyldi ekki gefast upp, áfram, áfram, bara hægt. Skugginn uppi í loftinu fyrir vestan hann varð ekki lengur greindur. Þá hlaut hann bráðum að komast fyrir endann á ásnum, þar sem grjóthrunið hafði orðið mest úr hamrabeltinu og björgin líktust bæjaröð fram með brekkubrúninni. Hann sá móta fyrir þeim eins og svörtum þústum. En þær voru svo margar, langtum fleiri en þær áttu að vera og hann var næstum dottinn um eina kúna, sem lá makindalega í döggvotu grasinu. Um leið og hann sneri sér við slóst eitthvað í hægri fótinn. Hann varð stjartur af skelfingu, leit við en sá ekkert. Strauk niður grannan legginn með hendinni, útvaðinn skórinn var á sínum stað, en skóbót, skóbót! Draugur, skóbót! Skóbótin hafði smokkast út um gatið á skónum og hékk við hæl- sauminn. Hann lét sig falla niður að brjósti kýrinnar, sem sleikti svitastorkinn hnakka hans með hrjúfri tungu. Hann heyrði hjartaslög hennar hæg og sterk, og hvíslaði í hlýjan mjúkan feldinn: „Búkolla, Búkolla mín, hægt, bara nógu hægt.“ 70 Heimaerbezl

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.