Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 30

Heima er bezt - 01.02.1979, Blaðsíða 30
— Síðan ég kynntist þér finnst mér lífið dásamlegt. Ranka brosti til hans, en varð um leið litið á Dísu, er starði á þau eitthvað svo umkomulaus á svipinn, sem væri hún öllum heillum horfin. Dísa leit strax undan og hélt áfram tínslunni. Hún öfundar mig, datt Rönku í hug. Tíminn leið hratt og þau voru orðin sársvöng er Þrúða kallaði: — Matur. — „Etið, drekkið og verið glöð“, sagði Hannes hátíð- legur, en leit ekki á Þrúðu. — Ég held að aðalbláberin séu eitt af því besta í heimi, sagði Þorsteinn, — þó maður verði svangur af þeim, en krækiberin tíni ég aldrei síðan ég lærði vísuna. Þar eru þau gerð táknræn fyrir strit og fátækt. — Hvaða vísu? spurði Þrúða. — Eina af góðu vísunum eftir Steingrím Thorsteins- son. Um frelsis vínber seidd við sólarkyngi mín sálin unga bað. En krækiber af þrældóms lúsalyngi mér lífið réttir að. — Þær eru margar snjallar vísurnar eftir hann, vel orktar, meiningin sönn og markviss, sagði Brandur. — Reyndar er lífið meiri og minni barátta frá upphafi til enda og flestir verða að gera fleira en gott þykir. — Satt er það, sagði Sigurbjörn. — „En ef við sjáum sólskinsblett í heiði“, eins og annað góðskáldið til kveður. — Þá grípum við geislann. — Auðvitað, ansaði Þorsteinn. — Eins og í dag t.d. Ég segi þrátt fyrir allt eins og kerlingin „Það er lítið varið í guðspjöllin ef enginn er í þeim bardaginn“. — Þú ættir best að vita það, bráðum orðinn prestur, sagði systir hans hlæjandi. Þau hlógu að öllu og engu og göspruðu góða stund. Síðan tóku þau lagið og sungu svo bergmálaði í fjöllun- um: „Hvað er svo glatt", o.s.frv. Að því búnu dreifðu þau sér um berjalandið, eins og fé á beit. — Komdu Hulda, sagði Hákon og tók hönd hennar. Þau leiddust út á móinn. Þau voru méstu mátar, en ekkert meira. Hún var svo frjálsleg en jafnframt stillt og fáguð í framkomu og það kunni Hákon að meta. — Eigum við að vita hvort okkar er duglegra að tína, Snæbjöm? sagði Dóra. — Uss, þú vinnur, ansaði hann. — Ég er ekki svo ókurteis að verða á undan þér. — Þú ert nú alltaf svo indæll, sagði hún og smeygði hönd sinni í lófa hans. Brandur gekk við hlið Dísu og hjartað hamaðist í barmi hans. Hún leit snöggt í augu hans. Hvílíkt augnaráð! Hvað voru þau að reyna að segja. Hún leit undan, alveg miður sín, fannst að allir gætu séð, hvernig henni leið. Hún tók í hönd Láru litlu sér til trausts og halds. Barnið fann að eitthvað amaði að og sagði í mesta sakleysi: — Leiðist þér í berjamó, Dísa mín? Dísa fann að tárin voru ekki langt undan, en bræðurnir á Hrauni og Nonni litli komu á eftir þeim, gáskafullir og hlæjandi, svo hún varð að standa sig. Brandur drógst aftur úr og öfundaði þau af glaðlynd- inu. Ég er víst bæði ljótur og leiðinlegur í augum hennar, hugsaði hann niðurdreginn. Uti í „Djúpulaut" sátu Þorsteinn og Guðrún. — Elsku yndið mitt, sagði hann og tók hana í faðminn. Hann kyssti hana fast og krefjandi. — Hvenær villtu giftast mér? spurði hann. — Strax þegar þú lýkur námi. — Ég vil giftast þér sem fyrst, þó við verðum við nám í vetur. — Við skulum tala um það seinna, en þú átt mig frá þessum degi. Hann horfði í augu hennar og hún hvíslaði: — Ég held að ég þrái þig miklu meira en þig grunar, ástin mín. — Ó, að tíminn stæði kyrr um stund, sagði hann og þrýsti henni að sér — en það gerir hann ekki. 66 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.