Æskan - 01.05.1969, Side 3
Mannfjöldinn á Þingvöllum 17. júní 1944.
ÍSLENZKA LÝÐVELDIÐ 25 ÁRA
Þann 17. júní næstkomandi eru 25 ár liðin frá því að lýst var formlega yfir
stofnun hins íslenzka lýðveldis að Lögbergi á Þingvöllum. Hinn 17. júní árið
1944 var hinn mikli dagur er öll íslenzka þjóðin hafði beðið eftir, þráð og von-
að, að einhvern tíma ætti eftir að rísa úrdjúpi aldanna. Dagur frelsisins, dagur
framtíðarinnar, dagur íslands. Þann dag var fyrsti forseti lýðveldisins kosinn,
herra Sveinn Björnsson, og flutti hann við það tækifæri ávarp, þar sem hann
þakkaði traust það, sem sér hefði verið sýnt. Hvatti hann íslenzku þjóðina
til samstarfs og eindrægni og lagði út af orðum Þorgeirs Ljósvetningagoða, er
hann hafði mælt frá Lögbergi, er þjóðin var í háska stödd vegna hættu á inn-
anlandsstyrjöld. „Ef sundur er skipt lögunum, þá mun sundur skipt friðnum."
Lauk forseti máli sínu með þessum orðum: ,,Nú á þessum fornhelga stað og á
þessari hátíðarstundu bið ég þann sanna eilífa guð, sem þá hélt verndarhendi
yfir íslenzku þjóðinni, að halda sömu verndarhendi sinni yfir íslandi og þjóð
þess á þeim tímum, sem vér nú eigum framundan.“
Þrír menn hafa á þessu 25 ára tímabili lýðveldisins gegnt embætti forseta,
Sveinn Björnsson, frá 17. júní 1944 til dauðadags 25. janúar 1952, Ásgeir
Ásgeirsson, frá 1. ágúst 1952 til 1. ágúst 1968, og Kristján Eldjárn frá 1. ágúst
1968.