Skírnir - 01.01.1935, Síða 121
Skírnir]
Höfuðskáld Norðmanna vestan hafs.
119
Saga íslenzkra landnema vestan hafs var hvorttveggja
í senn, glæsileg og örlagaþrungin; einnig var hún æfin-
týrarík sagan sú, þó að hún sé jafnframt rituð letri tára
og hjartasorga. Menn rífa sig ekki upp með rótum úr
aldagömlu umhverfi sínu sársaukalaust. Enn sem komið
er, hefir saga þessi samt eigi verið í letur færð nema að
litlu leyti; einna helzt í kvæðum sumra vestur-íslenzkra
skálda, áhrifamest og snjallast í myndauðugum landnema-
ljóðum Guttorms skálds Guttormssonar í Nýja íslandi, svo
.sem í hinu stórfellda og hreimmikla kvæði hans „Sandy
Bar“.
í söguformi veit eg, á hinn bóginn, djúpsæasta og
máttugasta lýsingu á baráttu og sigrum norrænna frum-
byggja í Vesturheimi í skáldsögum Rölvaags. Með regin-
djúpum skilningi og máttarvaldi afburða ritsnillings, sem
sjálfur hafði verið hluthafi í kjörum innflytjendanna, er
þar lýst þáttamörgum gleði- og harmleik landnemalífsins,
■örðugleikum og sigurvinningum frumbýlingsáranna, glím-
unni harðsnúnu við ræktun fangvíðrar sléttunnar; en sög-
ur þessar gerast í Suður-Dakótaríkinu. Harmsefni er það,
að enginn íslendingur hefir, enn sem komið er, innt af
hendi, með sambærilegri ritsnilld, samskonar hlutverk í
þágu þjóðsystkina sinna vestan hafs, eins og Rölvaag vann
frændum okkar Norðmönnum í hag með nefndum af-
bragðsritum sínum. Þess er þó að minnast, að frú Laura
Goodman Salverson steig spor í þá átt með skáldsögunni
The Viking Heart (Víkingslundin). Engu að síður, bíður
íslenzkt landnemalíf í Vesturheimi enn, í álögum, síns
konungssonar, sagnaskáldsins, sem hefji það í æðra veldi
ódauðlegrar snilldar máls og mynda.
Fyrst svo horfir við, vil eg eindregið hvetja íslenzka
lesendur til að lesa gaumgæfilega hinn fræga skáldsagna-
bálk Rölvaags um norska innflytjendur vestan hafs, sem
lýst verður nánar síðar, einkum fyrsta bindi hans. Bæði er
það, að margt er líkt með skyldum, Norðmönnum og Is-
lendingum; og annað hitt, að líf frumbyggja í Vestur-
heimi var mikið til samskonar stríðs- og sigursaga, hvort