Skírnir - 01.01.1935, Side 125
Skírnir]
Höfuðskáld Norðmanna vestan hafs.
123
bróður sínum í Bandaríkjunum og bað hann um farbréf
þangað, en hann varð eigi við beiðni frænda síns að því
sinni. Rölvaag varð þess vegna, þó óánægja hans og út-
þrá færu vaxandi, að sætta sig við sjómennskuna tvö ár
í tilbót. Að þeim loknum kom farbréfið vestan um haf, og
honum stóðu opnar dyrnar til brottfarar.
En nú varð hann, þótt ungur væri, að taka mikilvæga
ákvörðun. Formaður hans, sem hann virti og dáði manna
mest, bauðst til að kaupa handa honum til fullra umráða
fallegasta bátinn í nágrenninu. Þetta óvænta vildarboð
var næsta freistandi ungum manni og framgjörnum, með
víkingsblóð í æðum. Rölvaag var sem milli tveggja elda.
Á aðra hönd var mikilsvirt formannsstaðan og föst at-
vinna í átthögum hans, á hina óvissan í fjarlægum og hon-
um ókunnum Vesturheimi. Átti hann að fórna framtíðar-
draumum sínum um aukinn þroska og víðara verksvið?
Hann bað um umhugsunarfrest. Hann gekk upp í fjalls-
hlíðina fyrir ofan þorpið, þar sem hann og formaður hans
voru staddir á kaupstefnu, og sat þar einn sér liðlangt
síðdegið. Hann háði langa og harða baráttu við sjálfan
sig. Loks hélt hann aftur á fund formanns síns, afþakk-
aði rausnarlegt boð hans með þeirri skýringu, að hann
væri staðráðinn í að fara vestur um haf. Teningnum hafði
verið kastað. Útþrá hans, þroska- og athafnalöngun höfðu
orðið þyngstar á metum á úrslitastundinni. Hálogaland
átti á bak að sjá djörfum og fræknum sjósóknara, en norsk-
um og amerískum bókmenntum, heimsbókmenntunum
meira að segja, hafði græðzt ritsnillingur, þó að það kæmi
ekki á daginn fyrr en löngu seinna.
Rölvaag steig á land í New York í ágústmánuði 1896,
með létta vasa; brauzt hann þó óðar og fljótar í því, að
komast til föðurbróður síns í Suður-Dakóta, er tók honum
opnum örmum. Næstu þrjú árin vann hann að bændavinnu,
en komst von bráðar að raun um það, að hún var honum
engu betur að skapi en sjómennskan; hann hafði enn eigi
fundið sjálfan sig. Árin þessi voru honum þó ómetanlegur
undirbúningur komandi ritstarfa hans; hann kynntist nú