Skírnir - 01.01.1935, Síða 136
134
Höfuðskáld Norðmanna vestan hafs.
[Skírnir
írskum ættum, og lýsir stormasömu hjúskaparlífi þeirra.
En heil höf skilja þau hjónin, þjóðernislega, trúarlega og
hugsjónalega. Árekstur milli þeirra er því óhjákvæmileg-
ur, enda lýkur sögunni með því, að Peder treður undir
fótum trúarlega kjörgripi konu sinnar. Mun þetta þó ekki
eiga að vera nema bráðabirgðalausn á sambúð þeirra, því
að höfundurinn hefir sjáanlega ætlað sér að bæta enn öðru
bindi við sagnabálk sinn. f þessari bók sinni tekur Rölvaag
þess vegna til grandgæfilegrar meðferðar algengt fyrir-
brigði vestan hafs — „a mixed marriage“ (kynblöndun í
hjúskap). Og hverjum augum, sem menn kunna að líta á
meðferð hans á því, verður ekki með rökum neitað, að
lýsing hans er skýrum dráttum dregin, mannúðarrík og
drengilega hreinskilin. Hann er hér sem endranær, ekki
sízt í síðari ritum sínum, djarfmæltur raunsæismaður, og
mun ýmsum þykja hann opinskár úr hófi fram. Persónu-
lýsingar sögunnar eru glöggar og sannar. Beret er aðsóps-
mikil og enn aðdáunarverðari en áður. Peder og kona hans
eru einnig holdi klæddar mannverur, gæddar ríku ein-
staklingseðli. En auðvitað valdi Rölvaag sér, hér sem ann-
ars staðar, það fólk að sögupersónum, sem sýndi gleggst
þær hliðar landnema- og innflytjendalífsins, sem honum
var annast um að lýsa og túlka fyrir lesendum sínum.
Jafn eðlilegt er það, að Rölvaag valdi sér einnig sögu-
efni og sögupersónur úr hóp þess þjóðflokksins vestan
hafs, sem hann þekkti bezt af nánum skyldleika og eigin
reynd, norskra þjóðbræðra sinna, og átti það vafalaust
drjúgan þátt í því, hversu vel honum tókst í lýsingum sín-
um á brautryðjenda- og innflytjendalífi vestur þar.
Hins vegar hefði hann aldrei náð eins langt í list sinm
eða eignazt slíkan fjölda lesenda víða um lönd, hefði hann
samið rit sín á þröngum þjóðernislegum grundvelli. Þótt
hann væri alla daga ótrauður málsvari þjóðar sinnar og
kynstofns, og þreyttist aldrei á að hvetja landa sína vest-
an hafs til að vernda sem lengst mál sitt og menningu, var
hann jafnframt, vegna djúpskyggni sinnar, skilnings og
ríkrar samúðar, túlkur vandamála og baráttu innflytjenda-